Um daginn gerði ég svolítið sem ég hafði ekki gert í skammarlega langan tíma: Ég datt svo fullkomlega á bólakaf í bók sem ég var nýbyrjuð að lesa að ég endaði á því að lesa vel fram undir morgun. Ég svaf til hádegis daginn eftir og var örugglega með stírurnar í augunum fram að kvöldmat. Ég prísa mig hreinlega sæla að þetta var um helgi og þar af leiðandi frídagur daginn eftir, svo ég gat fengið að vera haugur í friði.

Á milli geispa þennan dag hugsaði ég til þess þegar ég var unglingur, með töluvert færri skuldbindingar og talsvert meira úthald til að vaka langt fram á nótt, en þá gerðist það reglulega að ég sökkti mér algjörlega í bók og gleypti hana í mig í einum bita. Ég hugsaði líka með þakklæti til foreldra minna, sem í minningunni settu mér svo til engar hömlur þegar kom að lestri og sættu sig góðfúslega við að eiga barn sem gat helst ekki sofnað fyrr en það var búið að klára a.m.k. eina bók, eða í versta falli nokkra kafla.

Að týna sér í góðri bók eru algjör forréttindi og það besta sem ég veit er þegar bækur halda athygli minni svo fullkomlega að ég get helst ekki hætt fyrr en bókin er búin. Ég rifjaði upp nokkrar bækur sem höfðu þessi áhrif á mig og deili þeim hér með:

Such a fun age

Bókin sem varð kveikjan að þessum pistli heitir Such a fun age og er fyrsta bók höfundarins Kiley Reid. Bókin hefur að mér vitandi ekki verið þýdd yfir á íslensku ennþá, enda kom hún út fyrir örfáum dögum síðan, nánar tiltekið þann 31. desember síðastliðinn. Kiley Reid er algjör snillingur í að skrifa samtöl og glæðir þannig persónur sínar allt að því sjálfstæðu lífi. Bókin er samfélags- og háðsádeila þar sem rauði þráðurinn er forréttindi og fordómar. Höfundi tekst listilega vel upp með að velta upp alls konar flötum á viðfangsefninu og fá lesandann til að tengja við söguna og persónurnar.

Kvika

Þessa bók gleypti ég í mig á einu kvöldi. Ég byrjaði í strætó, strax eftir að ég hafði fengið hana í hendurnar, og hætti ekki fyrr en bókin var búin. Ég ætla svo sem ekki að fara mörgum orðum um Kviku, enda var Rebekka búin að skrifa frábæra umfjöllun um bókina sem má nálgast hér. Hins vegar vil ég segja að ég er fullkomlega sammála Rebekku varðandi samkenndina sem ég fann með aðalsögupersónunni, Lilju, og í raun myndi ég vilja að þessi bók væri tekin fyrir í lífsleikni og notuð til að kenna unglingum um sjúk ástarsambönd og heilbrigð mörk.

Bak við luktar dyr

Ég ætla að hafa þessa bók eftir B.A. Paris með á listanum, þótt ég vilji hálfpartinn ekki mæla með því við nokkra manneskju að lesa þessa bók (samt, jú, en samt ekki). Ég gerði þau mistök að byrja á bókinni þegar ég var nýskriðin upp í rúm. Ég hélt að ég væri bara með einhverja temmilega spennusögu í höndunum og ætlaði bara að lesa nokkrar blaðsíður. Ég vissi hins vegar ekki þá að ég væri um það bil að hefja kynni mín við það allra mesta illmenni sem ég hef nokkurn tímann fyrirhitt í hugarheimi rithöfundar. Í stuttu máli sagt þá var ástæðan fyrir því að ég gat ekki lagt bókina frá mér sú að ég vildi ekki skilja aðalsöguhetjuna eftir í klónum á þessum mannfjanda fyrr en ég vissi að það yrði allt í lagi með hana!

Bókin er mjög vel skrifuð og persónusköpun með allra besta móti (augljóslega). Efnistökin eru þó ekki fyrir viðkvæma og ég mæli eindregið með því að byrja ekki á henni rétt fyrir svefninn…

Harry Potter

Harry Potter þarf líklega ekki að kynna fyrir nokkru mannsbarni, en við skulum samt hafa hann með á listanum, af því það eru eðal bækur til að háma í sig.

Þegar ég hugsa um Harry vin minn Potter þá hugsa ég alltaf til miðnæturopnananna (hvað eru mörg n í því) Í Máli og Menningu á Laugaveginum þegar nýju bækurnar komu út. Mamma fór með mér á fyrstu miðnæturopnunina og þar stóð ég í röð fyrir aftan mann með skikkju og fyrir framan konu með ámálað ör í laginu eins og elding og beið eftir að fá eintakið mitt í hendurnar til að ég gæti farið heim og lesið langt fram á nótt. Þegar síðasta bókin kom út fór ég meira að segja í náttfatapartí þar sem nokkrar vinkonur lágu á dýnum í stofunni og lásu hver sitt eintakið. Af hverju eru ekki fleiri partý svona náttfatalestrarpartý?

Stardust

Fyrir 13 árum síðan var ég að skanna bíóauglýsingarnar í blaðinu og sá auglýsingu fyrir mynd sem hafði einhvern veginn alveg farið framhjá mér. Myndin sem um ræddi var Stardust. Mér leist vel á auglýsinguna og hugsaði með mér að þessi mynd væri örugglega eitthvað fyrir mig. Ég skellti mér á hana án þess að vita nokkuð um hana og hafði þar af leiðandi engar sérstakar væntingar til myndarinnar. Ég kolféll hins vegar fyrir henni og þegar ég kom heim lagðist ég strax í rannsóknarvinnu. Viti menn, auðvitað var hún byggð á bók, og þannig kynntist ég Neil Gaiman.

Í dag er Neil Gaiman er einn af mínum allra uppáhalds höfundum og Stardust var fyrsta bókin sem ég las eftir hann. Bókin er talsvert frábrugðin myndinni (og betri) og frábær bók til að byrja á fyrir þá sem eru forvitnir um höfundinn. Ég get einnig mælt með The Graveyard Book og The Ocean at the End of the Lane, sem er að hluta til sjálfsævisöguleg. Mér finnst algjör synd að bækurnar hans skuli ekki hafa verið þýddar yfir á íslensku og kalla hér með eftir því að það verði gert.

Lestu þetta næst

Sögur til næsta bæjar

Sögur til næsta bæjar

Sagnagerð er lúmsk kúnst sem þarf að rækta. Í janúar kom saman hópur af upprennandi höfundum í...