Játningar af ljóðaást

Penni: Rebekka Sif Stefánsdóttir

Ég hló upphátt af pistlinum um ljóðaótta okkar kæra ritstjóra, Katrínar Lilju. Það var einfaldlega út af því að mínar ljóðaupplifanir hafa verið gjörsamlega dásamlegar frá ungaaldri, annað en hennar. Ég var krakkinn í bekknum sem lærði ljóðin svo hratt utan af að enginn annar komst að hjá kennaranum. Ég hreykti mig af því að geta lært ljóð á örsskotstundu til að fá plús í kladdann. Ég elskaði þessar skólastundir. Enn betra var þegar við vorum látin spreyta okkur á því að semja ljóð en það gerði ég alveg sjálfviljug í tómstundum mínum frá því ég lærði að skrifa, jafnvel áður því þá lét ég mömmu bara skrifa þau niður fyrir mig. Þessi fyrstu ljóð voru frekar ómerkileg, um kanínur og sólina en svo þegar ég var átta ára varð dauðsfall í fjölskyldunni og þá tel ég mig hafa samið mitt fyrsta „alvöru“ ljóð. Síðan þá hefur ljóðið verið einn af mínum helstu tjáningarmátum. Skrifin, og ljóðin þá sérstaklega, eru svo ótrúlega fallegar og góðar leiðir til að fá útrás á þær tilfinningar sem maður getur ekki burðast með einn.

Hér er mynd af þessari einstöku skólabók í alveg hreint glæsilegum gæðum.

Ég las ekki mikið af ljóðabókum í barnæsku en ég las Ljóðspor spjaldanna á milli og var örugglega búin að lesa upp hálfa bókina fyrir greyið kennarann minn. Skemmtilegust fannst mér ljóðin sem voru aftarlega í bókinni, þau voru oft skrítin og nútímaleg. Ég gleymi því aldrei að eitt ljóðið var í laginu eins og lykill! Ljóðabókalesturinn jókst til muna eftir að ég byrjaði í almennri bókmenntafræði í háskólanum og svo í ritlistinni. Þannig í gegnum unglingsárin má segja að ég hafi verið ljóðskáld sem las ekki ljóð. Lagatextar voru mín ljóð á því tímabili.

Þeir sem hafa fylgst með Lestrarklefanum undanfarið hálfa árið hafa líklega tekið eftir því að ég er nánast búin að taka yfir ljóðaumfjöllunina á síðunni. Það sem ýtti undir áhuga minn á ljóðabókum síðasta árið var að ég tók tvær ljóðasmiðjur í náminu mínu. Síðan fá ljóðabækur einfaldlega ekki nógu mikla umfjöllun hjá stærri miðlum, sem er hrikalega sorglegt. Ljóð henta einstaklega vel til bókmenntagreiningar þar sem þau eru stutt og yfirleitt stútfull af táknrænni merkingu og undirtexta. Þó getur túlkun ljóða verið svo fjölbreytt, sama ljóðið gæti haft mismunandi merkingu fyrir hvern og einn lesanda. Þess vegna hefur ljóðið svo margar víddir. Í ljóðinu flest líka mikil sköpun, nýyrði fæðast og ljóðskáld hjálpa okkur að sjá lífið á nýjan og óvæntan hátt með undurfögru og spennandi myndmáli, líkingum og myndhverfingum.

Ef þú kæri lesandi hefur ekki áttað þig á því ennþá, þá dýrka ég ljóð. Ég vona að þessi pistill fylli þig löngun til þess að skella þér út í næstu bókabúð og næla þér í ljóðabók eða taka loksins upp ljóðabókina sem safnar ryki uppi í hillu þér. Það er líka gott að hafa í huga að ljóð höfða mismunandi mikið til okkar, ef að ljóð nær ekki til þín prófaðu að fletta á næstu síðu. Ef að stíll höfundar höfðar ekki til þín prófaðu að taka upp ljóðabók eftir annað skáld, sem er á öðrum aldri, af öðru kyni, annarri kynslóð, úr allt öðrum menningarheimi, það er svo margt í boði.

Í tilefni af ljóðafebrúar hjá Lestrarklefanum frumbirti ég ljóð eftir undirritaða.