Dóttir ávítarans er fyrsta bókin í bókaflokknum um ávítarabörnin eftir danska höfundinn Lene Kaaberbøl. Bókin heitir á frummálinu Skammerens datter og kom út í þýðingu Hilmars Hilmarssonar árið 2004.  Bíómynd var gerð eftir bókinni árið 2015 og hægt er að horfa á stiklu úr myndinni hér. Aðrar bækur í flokknum eru Ávítaratáknið, Máttur slöngunnar og Ávítarastríðið. Lene Kaaberbøl hefur einnig skrifað bækurnar um Villinornina en nú þegar hafa komið út þrjár fyrstu bækurnar í þeim bókaflokki á íslensku.

Hvað er ávítari?

Sagan gerist á nokkrum dögum í lífi ellefu ára stúlku sem heitir Dína. Móðir hennar hefur þá undarlegu náðargáfu að þegar hún horfir í augun á fólki getur hún séð inn í huga þeirra og neytt fólk til að horfast í augu við gjörðir sínar og sig sjálft. Hún er ávítari. Dína hefur erft náðargáfuna frá móður sinni og gerir það líf hennar einstaklega erfitt og einmanalegt. Fullorðna fólkið forðast að horfast í augu við hana og börnin í bænum vilja ekkert með hana hafa, enginn vill vera minntur á þá slæmu hluti sem þeir hafa gert. Ávítarar gegna ákveðnum verkefnum sem geta verið bæði flókin og erfið, eins og hin unga Dína fær að upplifa. Drekar, galdrar og ill öfl setja svip sinn á söguna sem er bæði spennandi og óvenjuleg.

Skildi ekki nafnið

Þegar ég fékk bókina í jólagjöf árið 2004 ætlaði ég ekki að lesa hana. Ég skildi ekki nafnið og fannst myndin á kápunni ekki heillandi svo ég setti hana beint upp í hillu og gleymdi henni í nokkra mánuði. Það var ekki fyrr en að vinkona sagði mér að þetta væri ein besta bók sem hún hefði lesið í langan tíma að ég tók hana úr hillunni og byrjaði að lesa. Ég varð ekki fyrir vonbrigðum!

Ég var á svipuðum aldri og aðalpersónan og átti auðvelt með að samsama mig henni á ýmsum sviðum. Dínu er strítt fyrir að vera öðruvísi og ég man hvað mér fannst aðdáunarvert hvernig hún stendur með sér og hversu hugrökk hún er. Þrátt fyrir að ég hafði ekki sömu náðargáfu og Dína var ýmislegt sem ég lærði af henni og því hvernig hún brást við í erfiðum aðstæðum. Persónusköpunin er vel unnin og bókin er bæði vel skrifuð og auðlesin. Lýsingar á aðstæðum og umhverfi eru góðar og lesandinn á ekki í vandræðum með að sjá sögusviðið fyrir sér.

Dularfull og grípandi

Ég las bókina aftur nýlega og fannst hún alveg jafn áhugaverð og spennandi og þegar ég las hana fyrst. Ég verð samt að viðurkenna að hún var harðneskjulegri en mig minnti enda skrifar höfundur um atriði sem maður er ekki endilega vanur að lesa um í barnabók. Sagan gerist á fornum tímum þar sem notuð eru ókurteis orð og sumar lýsingarnar sem tengjast drekunum geta verið svolítið ógeðfeldar. Þetta truflaði mig samt meira sem fullorðinn einstaklingur en sem barn, kannski var það vegna þess að ég skildi ekki sum ljótu atriðin þegar ég var yngri. Það sem stóð upp úr í lokin var hversu ólík Dóttir ávítarans er öðrum barnabókum sem ég hef lesið og ég meina það á góðan hátt. Þetta er til dæmis svo frumleg náðargáfa sem móðir og dóttir hafa, að geta látið einhvern skammast sín bara með því að horfa í augun á þeim, og er eitthvað sem ég myndi nota óspart á fólk sem leggur illa niðri í bæ! Ég las allar bækurnar í bókaflokknum og fannst þær verða betri með hverri bók. Dóttir ávítarans er dularfull og grípandi saga sem heldur lesandanum spenntum frá upphafi til enda og ég get ekki annað en mælt heilshugar með hinum bókunum um ávítarabörnin.

Lestu þetta næst

Geturðu elskað mig núna?

Geturðu elskað mig núna?

Þegar Hvítfeld, fyrsta skáldsaga Kristínar Eiríksdóttur, var sett fyrir í bókmenntafræðiáfanga sem...

Ögrandi smásagnasafn

Ögrandi smásagnasafn

Bókmenntir Suður-Ameríku hafa alltaf heillað mig. Smásögur eru töluvert virðingaverðara...