Fyrsta bókin í seríunni. Kápan er svo miklu fallegri en danska útgáfan!

Nú er nýkomin í búðir önnur bókin í dönsku barnabókaröðinni Villinorn. Nýja bókin heitir Blóð Viridíönu en sú fyrri, Eldraun, kom út í fyrra. Líklega kannst allir við jólabókaflóðið, en færri vita kannski af hinu útgáfutímabilinu í heimi íslenskra bóka, sem mætti kannski kalla vorlækinn. Yfirleitt eru barnabækur á Íslandi pikkfastar í jólabókaflóðinu, í harðspjaldakápum og þar með dýrari verðflokki. Þess vegna finnst mér skemmtilegt þegar barnabækur eins og Villnorn koma út í kiljum á vorin (eða síðla vetrar, ef við horfum raunsæum augum á marsmánuð). Krakkar þurfa nefnilega líka sinn „páskakrimma“.

Bókaflokkurinn Villinorn er eftir danska höfundinn Lene Kaaberbøl, en segja má að ég sé nokkur aðdáandi hennar. Af einhverjum ástæðum heimsótti hún bekkinn minn í dönsku í menntaskóla og las úr fyrstu bók sinni um Skammaran (sem á íslensku var kölluð Dóttir ávítarans) og mér fannst hún svo skemmtileg að ég lét Borgarbókasafnið panta seríuna á dönsku og las þær af miklum metnaði á frummálinu. Er það líklega heildstæðasta verkefni sem ég hef beitt takmarkaðri dönskukunnáttu minni í.

Oft er talað um að skipta megi barnabókum í tvenns konar flokka, bækur sem höfða til lesenda sem eru eldri en sögupersónurnar, og svo bækur sem höfða til lesenda sem eru yngri en þær. Aðalsöguhetjan í Dóttur ávítarans var 11 ára við upphaf bókanna, svipað og söguhetjan í Villinorn er í fyrstu bókinni. Ég hafði mjög gaman af Ávítaraseríunni þegar ég var 17 ára og myndi líklega ennþá hafa, enda hefur bókmenntasmekkur minn ekki tekið neinum alvarlegum stakkaskiptum á þessum 13 árum sem liðin eru. (Eins og flestir unglingar þá las ég fullorðinsbækur í bland við annað lesefni, og það breyttist ekki þegar ég náði kosningaaldri). Ég myndi hins vegar segja að Villinornaserían falli í hinn flokkinn, og að krakkar á aldrinum 7-12 ára myndu njóta þessara bóka best.

Serían fjallar um hina 12 ára gömlu Klöru Ask, og hefst á því að mjög stór köttur varnar henni leið í kjallaratröppum. (Fyrir algera tilviljun eru líka til íslenskar barnabækur sem hefjast á sama hátt, tvíleikurinn Skuggasaga. Það er greinilegt að kjallarar og kettir eru gjöful uppspretta ævintýralegra atburða. Nú bíð ég bara spennt, því sjálf á ég heima í kjallara og hér er stöðugur umgangur katta sem koma til að stela mat úr dalli heimakisunnar.) Í kjölfar þessarar undarlegu uppákomu hittir Klara loksins móðursystur sína, sem móðir hennar hafði slitið öllu sambandi við. Móðir Klöru er jarðbundinn rannsóknarblaðamaður en systir hennar er hippaleg villinorn og mömmunni til mikilla vonbrigða þá virðist Klara hafa erft villinornaeðlið. Eða eins og móðursystirin Isa orðar það: „Ég hlúi að öllu sem lifir í veröld hins villta og það hlúir svolítið að mér á móti.“ En eitthvað fleira er samt óvenjulegt við Klöru, af einhverjum ástæðum er hún ofsótt af máttugum óvini og hún býr yfir sérstökum hæfileikum, jafnvel af norn að vera.

Fyrstu kaflarnir í Eldraun eru alveg rosalega góðir. Eitthvað við það hvernig móðir Klöru bregst við innrás hins yfirnáttúrulega og fyrstu fundirnir við frænkuna voru þannig að mér fannst þeir boða eitthvað alveg sérstakt. Þetta sambland af hversdaginum og hinu yfirnáttúrulega getur verið svo áhugavert í fantasíum. Því miður fannst mér höfundurinn glutra þessum þætti niður nokkuð fljótt í bókinni, og villinornalíf Klöru og hversdagurinn blandast tiltölulega lítið. Mamman harðneitar að ræða málið nokkuð og samskipti þeirra Klöru um þennan veigamikla þátt í lífi hennar takmarkast upp frá því við að mamma hennar fórnar höndum og æpir eitthvað eins og: „Hvar hefurðu verið!“ en bíður svo eiginlega ekki eftir svari. Klara fer í stutt nám til frænku sinnar, en lærir heldur lítið, og mér finnst þær ekki heldur tala mikið saman um villinornalífið, ef út í það er farið. Frænkan býr utan þjónustusvæðis farsímafyrirtækja og þegar Klara hittir hana er yfirleitt lífshætta á ferðum og ekki mikið tóm til að gera upp málin. Þegar hættan er afstaðin þarf svo Klara að flýta sér heim, því mamman bíður að sjálfsögðu hrædd og óþreyjufull.

Mér finnst því að höfundurinn hefði getað kafað aðeins dýpra í viðfangsefið, því þarna er efniviður sem hefði getað gert seríuna að algerri barnabókaklassík. Það tekst kannski ekki alveg þegar upp er staðið, en á móti kemur að Villinornabækurnar eru algerar spennusögur fyrir krakka og standa fyllilega fyrir sínu sem slíkar. Atburðarásin er mjög hröð, kaflarnir stuttir, og mikið af ráðgátum og ósvöruðum spurningum, svo lesandinn flettir og flettir. Mér finnast þessar fyrstu tvær bækur dálítið mistækar (sérstaklega fannst mér seinni hlutinn á fyrstu bókinni ekki alveg nógu góður) en ég þori að fullyrða það að flestir krakkar muni rífa þær í sig. Ég veit til dæmis um einn tíu ára strák sem las fyrstu bókina svo hratt að foreldrar hans stóðu á öndinni, og sjálfur átti hann erfitt með að fara að sofa fyrir spenningi. Í bókinni er líka að finna fallegan boðskap um tengsl manna, dýra og náttúru og hið sérstaka samband villinornanna við dýr er eitthvað sem ætti að heilla alla krakka.

Ég verð hins vegar að benda á það að texti íslensku þýðingarinnar er alls ekki nógu góður. Það eru klaufavillur í honum. Nú veit ég það vel að það er mjög erfitt að skila villulausum texta og oftast nær finnst mér innsláttarvillur engin dauðasök. En, það er stigsmunur og jafnvel eðlis á textavillum. Strax á þriðju blaðsíðu Eldraunarinnar glennir kötturinn út „lærnar“. Æj, æj úps, hugsaði ég en yppti bara öxlum. Fjórum blaðsíðum síðar vantar hins vegar spurningamerki og seinni gæsalappir á eina setningu. Nú, nú, hugsaði ég og hnykklaði brýrnar. Upp frá því fór ég að tortryggja textann, að leita að villum í stað þess að týna mér í lestrinum, og staðreyndin er sú að textanum tókst ekki að ávinna sér traust mitt á ný. Langt í frá. Ég er ekki með nákvæman lista yfir það allt saman, en það vantaði fleiri spurningamerki og stundum var eins og eitt ekki hefði dottið úr setningum, en það gefur augaleið að slík handvömm breytir merkingunni fullkomlega. Mér fannst bók númer 2 ekkert skárri hvað þetta varðaði og satt best að segja er ég standandi hlessa á þessu, því bækurnar koma út hjá hinu metnaðarfulla forlagi Angústúru, sem er í miklu uppáhaldi hjá okkur á Lestrarklefanum.

Af því að ég var farin að hvessa augun svona á textann, þá fór ég líka að tortryggja þýðinguna sjálfa. Ég hef aldrei almennilega skilið hvernig fólk fer að því að fella dóma um gæði þýðinga án yfirgripsmikilla samanburðarrannsókna, og þó ég hafi ekki lagst í slíka vinnu í þessu tilfelli, þá fann ég að mig hálflangaði til þess. (En ég er svo sem ekki nógu góð í dönsku til þess.) Hverslags skólahátíðir eru til dæmis í dönskum skólum, þar sem nemendur fara á hestbak? Er þetta þýðingarvilla, eða bara eitthvað skrítið danskt menningarsamhengi sem hefði þurft að útskýra betur? Svo er bara eitthvað við blæbrigðin í textanum. Á bls. 88 lendir Klara í lífshættu. Hún hrópar á hjálp (á villinornavísu) og fær svar: Hér. Voða, voða veikt. Mjó, hlý rödd úr fjarska. Hér er ég.

Kannski er þetta smámunasemi í mér, en mér finnst orðaröðin hér, hér er ég vera eitthvað svo glaðleg. Hefði það ekki hljómað aðeins betur að segja Hérna, ég er hérna? Annað dæmi er það að almennt séð er málfar Klöru hæfilega unglingalegt, en á tveimur stöðum tók ég eftir frekar undarlegri orðaröð. Nokkrir bútar brennis, í staðinn fyrir nokkrir brennisbútar. Þannig talar enginn nema í einhverju djóki, eða hvað? Ég meina, notið 5 desilítra hveitis? Það voru alls konar svona litlir hlutir sem trufluðu mig við lestur bókanna. Trekk í trekk fór ég að reyna að giska á dönskuna sem stæði á bak við textann.

Ofan á þetta bættist að í bókunum er ekki notast við þann hefðbundna talsmáta að nota málfræðilegt karlkyn til að vísa almennt til ótilgreinds hóps. Ég man ekki alveg hvað þetta heitir, en þið þekkið þetta eflaust, allir velkomnir vs. öll velkomin. Þetta hlýtur að endurspegla rithátt höfundar í frumtextanum, þó ég sé engan veginn inni í því hvernig danskan með sitt hvorugkyn og samkyn er hvað þetta varðar. Ég verð samt að játa að ég átta mig ekki alveg á þeirri ákvörðun. Það er alltaf Klara sem segir frá í bókunum og það eru ekki margir (eða mörg, ef þið viljið hafa það þannig) sem tala svona út frá sinni eigin máltilfinningu. Hefur Klara Ask, 12 ára grunnskólakrakki og villinorn, gengið í gegnum þær pælingar sem hljóta liggja að baki meðvitaðri, feminískri afstöðu til tungumálsins? Mér fannst þetta ekki alveg í karakter en eflaust eru uuuu…. mörg sem munu verða hrifin af þessu. En eins og með svo margt annað við málfarið í þessari bók, þá fannst mér bara ekki vandað nóg til verka við þennan þátt.

Skrítnasta dæmið um þetta er á blaðsíðu 148 í nýju bókinni, Blóði Viridíönu. Og þessu fylgir dálítill spoiler, bara svo þið vitið af því. Klara verður fyrir hálfgerðri andsetningu. Kaflinn er, að mínu mati, skrítinn frá hendi höfundarins, einn af þessum köflum sem mér finnst ekki jafn góðir og bækurnar í heild sinni hafa möguleika til að vera. Fyrr í bókinni höfum við aðeins fengið að kynnast þessari konu sem tekur sér bólfestu í líkama Klöru um stund, hún var villinorn til forna, drýgði mikla hetjudáð og þurfti að gjalda hana dýru veði. Um það er fjallað á tilkomumikinn og næman hátt. En, svo andsetur þessi kona hana Klöru og hrópar upp fyrir sig: Miklu máttarvöld. Stelpan er enn blaut á bak við eyrun. Alveg óþjálfuð!

Ókei, kannski ekki alveg tónninn sem ég hafði búist við frá þessari merkilegu konu, sem mér til töluverðs ama breytist í pirraða og hása viskíkerlingu í þessum þungavigtarkafla. Kannski vildi höfundurinn létta á dramatíkinni? En hvað um það, það næsta sem hún segir er: Hún er ekki einu sinni komin með brjóst!

Halló, hvað er í gangi Lene? Ef ég fer einhvern tíma að taka mér bólfestu í líkama 12, 13 ára stelpna, þá vona ég að bara að ég muni hafa þá hæversku til að bera að fara ekki að kommenta á júllurnar á þeim.

Og þá, svo ég fari nú að ljúka við þessa miklu langloku, þá segir Klara: „Hvernig getur kona roðnað og skammast sín þegar líf hennar er í hættu? Ja, ég gat það.“ (Skáletrun er mín eigin)

Ég hef svo margar athugasemdir! Ég geri fastlega ráð fyrir því að þetta eigi að vera hliðstæða við setninguna: hvernig getur maður skammast sín þegar líf manns er í hættu? Sem væri reyndar betra einfaldlega: getur maður skammast sín þegar líf manns er í hættu? En hvað um það. Hefði setningin ekki átt að vera svona: „Hvernig getur kona roðnað og skammast sín þegar líf konu er í hættu?“ Ég sjálf hef ekki lagt mig eftir þessum talsmáta, en það hlýtur að þurfa að fara alla leið með þetta til að ná þessari ópersónulegu vísun.

Mér finnst það koma rosalega skringilega út í þessu samhengi textans að Klara tali um sig sem konu einmitt í næstu andrá og það er búið að benda á það að hún sé ekki kona. Þegar það þarf sérstaklega að skerpa á muninum milli hinnar fullorðnu konu og ungu stúlku sem þarna deila einum líkama og einum huga. Nógu ruglingslegur er þessi kafli fyrir. Fyrr í bókunum hefur Klara notað orðalagið maður sem ópersónulega vísun óhikað, til dæmis á bls. 39 í fyrstu bókinni. Svo það er ekki einu sinni samræmi í þessu. Af hverju ekki bara umorða í eitthvað aðeins minna skrítið, það er ekki erfitt. Má ég stinga upp á alternatívinu: er hægt að skammast sín í lífshættulegum aðstæðum? Töluvert þjálla á allan hátt. Kannski pirraði ég mig um of á þessu, en það gerist bara trekk í trekk að textinn flæðir ekki nógu vel og ég var komin með uppsafnaðan pirring.

Mun það trufla markhóp bókarinnar? Líklegast ekki. Bókin er jú það spennandi að það er auðvelt að sleppa svona áhyggjum og bara fletta og fletta, og ég man ekki eftir því að hafa nokkurn tíma velt svona atriðum fyrir mér sem barn. Það þýðir samt ekki að þeir sem skrifa, þýða og gefa út barnabækur geti bara slakað á. Við lauslega skoðun sýnist mér þýðandinn, Jón St. Kristjánsson, þýða allar bækur sem Angústúra gefur út fyrir þennan aldurshóp um þessar mundir, hvort sem þær eru skrifaðar á ensku, dönsku eða þýsku. Bók sem hann þýddi hefur meira að segja nýlega verið tilnefnd til virtra verðlauna, svo sú þýðing hefur augljóslega tekist mun betur. Mér finnst Villinornabækurnar eiga betra skilið og ég vona bara innilega að þýðandinn spýti aðeins í lófana við þýðingu þeirrar næstu, eða þá að útgáfan dragi upp kennaraprikið.

Lestu þetta næst

Glöggt er gests augað

Glöggt er gests augað

Fyrir nokkrum árum komst ég að því að finnsk kona að nafni Satu Rämö, sem búsett væri á Ísafirði,...

Jarðsyngdu mig

Jarðsyngdu mig

Ég fékk ljósbláa bók að gjöf. Framan á kápu stendur aðeins titill verksins með smáu, hvítu letri....

Fangelsi hugans

Fangelsi hugans

Hvað ef þú værir geimvera? Og geimskipið þitt hefði skilið þig eftir á jörðinni, í venjulegri,...

Anniemenni

Anniemenni

Anniemenni (e. Annie bot) eftir Sierra Greer  Annie er vélmenni. Hún er með hleðslustöð í hælnum,...

Með iðrun úti

Með iðrun úti

Þrjár stúlkur á sautjánda ári pyntuðu skólasystur sína og kveiktu í henni í rólega breska...