Okkar ráðleggingar í samkomubanni

Í þeim dystópíska veruleika sem við lifum núna þá er ágætt að geta leitt hugann að einhverju öðru. Eflaust eru einhverjir lesendur sem hafa þreyjað sóttkví nú þegar, en aðrir eru að byrja. Með samkomubanninu sem hefst á mánudaginn munu svo enn fleiri þurfa að sitja heima hjá sér. Það sem okkur kemur fyrst í hug, þegar þreyja þarf einangrun, sóttkví eða samkomubann, eru bækur. Auðvitað áttu að byrgja þig upp af bókum fyrir næstu vikur! Allt verður auðveldara þegar þú getur reikað eitthvert annað í huganum.

Hérna er því listi yfir bækur sem við höfum í sameiningu tínt saman. Við reynum að hafa listann sem fjölbreyttastann svo hann falli að smekk sem flestra og allir geti fundið sér eitthvað við hæfi. Hér eru því bækur sem eru skemmtilegar, grípandi, róandi og ágætist veruleikaflótti.

[hr gap=”30″]

Karitas án titils og Óreiða á striga eftir Kristínu Marju Baldursdóttur

Segja örlagasögu Karitasar og jafnfram móður hennar líka. Karitas elst upp föðurlaus, í stórum hópi systkina þar sem móðirin reynir allt hvað hún getur til þess að koma börnunum sínum til mennta. Ég ætla ekki að fara nánar út í þessa sögu en bendi á pistil eftir Katrínu Lilju ritstjóra sem birtist á vef Lestrarklefans ekki alls fyrir löngu. (LM)

 

 

 

 

[hr gap=”30″]

Krúnuleikarnir eftir G.R.R. Martin

Núna geturðu loksins sest niður og lesið heildarverk G.R.R. Martin um baráttuna milli íss og elds. Elskað og hatað Cersei og Jaime á eigin forsendum. Bölvað Ned Stark fyrir heiðurinn og heiðarleikann. Sögurnar eru grípandi veruleikaflótti og að mínu mati fínasta lesning. (KL)

 

 

 

 

 

[hr gap=”30″]

Big Little Lies eftir Liane Moriarty

Big Little Lies fjallar um þrjár konur í Sydney í Ástralíu, þær Jane, Madeline og Celeste, sem eiga það sameiginlegt að eiga börn í sama grunnskólanum í friðsælu hverfi, að því er virðist. Morð á sér hins vegar stað í upphafi bókarinnar og í gegnum kaflana sem fylgja fer það að skýrast að ekki er allt með felldu í nærumhverfi þeirra. Bókin er með frábæra persónusköpun, full af húmor og er maður enga stund að tapa sér í lestrinum. Samnefndir þættir hafa einnig hlotið mikið lof en í þeim færist atburðarrásin til Kaliforníu í Bandaríkjunum en söguþráðurinn er að öðru leyti hliðhollur bókinni. Moriarty hefur skrifað fleiri góðar spennusögur sem einnig er vert að glugga í. (SG)

 

 

 

[hr gap=”30″]

Discworld-serían eftir Terry Pratchett

Hvað getur maður sagt, þær eru endalaust margar, þær eru fjandanum skemmtilegri, hæfilega fyrirsjáanlegar og hið góða sigrar alltaf. Ímyndunarafl Terry Pratchett var óþrjótandi og frásagnarmáttinn ómótstæðilega léttur og skemmtilegur. Það eina sem þú þarft allar fjórar vikurnar! (RH)

 

 

 

 

 

[hr gap=”30″]

Dalalíf Guðrúnar frá Lundi

Ef þetta er ekki rétti tíminn til að kynnast þessari mögnuðu sögu þá er sá rétti tími ekki til. Það þarf kannski ekki að fara mörgum orðum um þetta snilldarverk. Bækurnar skrifaði Guðrún þegar hún var komin á seinni helming ævinnar og en áður hafði hún birt sögur í tímaritum fyrir konur.  Dalalíf hefur allt sem góðar sögur þurfa að skarta, ástir og örlög, hlátur, grátur og gnístran tanna. Persónur sem við elskum og persónur sem við elskum að hata. Þetta er saga sem geymir minningar um horfna tíma, þegar margt var svo einfalt en annað svo flókið og eini samfélagsmiðillinn sem fólkið hafði var elsku sveitasíminn þar sem allt var hlerað og mistúlkað. (LM)

 

 

 

[hr gap=”30″]

Heildarverk Jane Austen

Ég (þ.e.a.s. Ragnhildur) hef orðið þeirrar gæfu aðnjótandi að eignast heildarverk Jane Austen í einu risabindi. Vinkona mín kom mér hressilega á óvart með þessari rausnarlegu afmælisgjöf fyrir um það bil sjö árum og ég hef ekki tölu á því hversu oft ég hef lesið bókina í heild sinni. Hver heildarlestur byrjar alltaf á því að ég segi sjálfri mér eitthvað á borð við: „Já, gaman væri að kíkja kannski aftur á Lady Susan.“ Svo bara get ég ekki hætt og verð að lesa þær allar.

Jane Austen var bara svo frámunalega góður penni að það að lesa skáldsögurnar hennar er eins og að drekka vatn. Svo er orðalag hennar bráðsmitandi og frekar fyndið að reyna að senda enskumælandi vinum sínum afmæliskveðju/batakveðjur þegar maður er djúpt sokkinn í Austenisma. Því miður hefur hennar eigin snilli að nokkru leyti orðið henni að falli, því allir og amma þeirra halda að þeir geti stælt sögur hennar, samið framhald eða hliðarfrásögn eða útgáfu með uppvakningum. Það er bara ekki rétt og ég vil hér með vara alla höfunda við; viljir þú draga sérstaka athygli að eigin göllum og veikleikum sem höfundur, þá skaltu endilega reyna að herma eftir Jane Austen.

Það snilldarlega við bækur Austen er að þær fjalla ekki um nokkurn skapaðan hlut, nema tilfinningar auðvitað, augngotur og þýðingarmikil samtöl og stöku ball þar sem allt fer út um þúfur. Og svo auðvitað heimskt, dónalegt og ónærgætið fólk, sem Austen hafði sérstakt dálæti á að gera grín að. Samkomubanni og sóttkví er vel varið í heildarverk hennar, þú munt loka síðustu bókinni með hugljúft bros á vör og stóraukinn orðaforða. (RH)

[hr gap=”30″]

The Hitchhikers Guide to the Galaxy eftir Douglas Adams

Hvað áttu að taka mér þér þegar geimverur ætla að tortíma jörðinni til að búa til hraðbraut í gegnum Vetrarbrautina? Jú, handklæði. Það er til allra hluta nytsamlegt. Ef þú hefur ekki enn lesið The Hitchhikers Guide to the Galaxy þá er rétti tíminn til þessa núna. Bækurnar eru fullar af rugli og bulli sem auðvelt er að hlæja af og hrista hausinn yfir. Þar fyrir utan eru aðalpersónurnar, Arthur Dent og Ford Prefect, hæfilega afslappaðar og minna okkur á að meira að segja verstu erfiðleikar líða hjá. Svo er ekki verra að þegar þú hefur lesið bókina geturðu horft á myndina frá 2005 með Martin Freeman í aðalhlutverki.

Ef þú ert djúpt sökkin í heim Adams eftir fyrstu bókina geturðu svo haldið áfram að og lesið allar bækurnar. Hver annari kjánalegri og skemmtilegri! (KL)

 

 

[hr gap=”30″]

Allt í himnalagi hjá Eleanor Oliphant eftir Gail Honeyman

Bókin um fröken Oliphant er mjög falleg lesning sem mér þótti auðvelt að sökkva niður í. Ég gleymdi stað og stund. Eleanor Oliphant er afskaplega einmana persóna en sagan af henni er mjög falleg og það er dásamlegt að fylgjast með henni og Raymond kynnast hægt og rólega. Þegar bókinni hefur verið lokað er erfitt að skilja við þau. Fullkomin bók til að lesa á milli bókaseríanna sem þú ætlar á lesa á meðan á samkomubanninu stendur. (KL)

 

 

 

 

[hr gap=”30″]

Fyrra bindið

Múmínálfarnir eftir Tove Jansson

Núna er nýbúið að endurútefa sex sögur úr hinni þverklassísku múmínálfaseríu og því geta allir nálgast þessar gersemar. Skáldsögurnar um múmínálfana eru ekkert frekar barnabækur en fullorðinsbækur, jafnvel bara síður, þökk sé ýmsum bókmenntalegum tilvísunum og lúmskum húmornum.

Ef það er eitthvað sem getur kennt manni æðruleysi á erfiðum tímum, þá er það lífsviðhorf múmínálfanna. Loftsteinn og heimsendir? Sendum krakkana í útilegu til að dreifa huganum. Eldgos og flóð sem gerir fjölskylduna heimilislausa? Björgum stofusófanum frá rakaskemmdum og setjum svo upp grískan harmleik. Ertu einmana og umlukinn endalausum vetri? Kannski er þetta rétti tíminn til að rannsaka fjölskyldusöguna og hleypa ævafornum forföður þínum út úr gömlum skáp í baðsloppageymslunni. Umfram allt kenna múmínálfarnir okkur að vera góð hvort við annað. (RH)

 

[hr gap=”30″]

Hún er horfin eftir Gillian Flynn

Hún er horfin (e. Gone Girl) flokkast kannski ekki undir kósýlestur en er fullkomin bók til að gleyma sér við. Við höfum nýlega fjallað um hámlestur hér í Lestrarkelfanum, þegar maður getur ekki lagt bókina frá sér og á það sérstaklega vel við um þessa bók. Ég las hana fyrst í veikindum og þrátt fyrir að eiga venjulega mjög erfitt með að sitja kyrr og láta mér batna náði þessi frábæra, spenanndi og margslungna saga að halda mér uppi í rúmi þar til veikindunum lauk. Í stuttu máli segir sagan frá því að á fimm ára brúðkaupsafmælinu þeirra hverfur Amy kona Nick Dunne og ekki er allt sem sýnist í kringum mannshvarfið. Kvikmyndin sem gerð var eftir bókinni er einnig mjög góð, en ég mæli nú með, eins og alltaf, að byrja á bókinni. (SG)

 

 

[hr gap=”30″]

Dagbók góðrar grannkonu eftir Doris Lessing

Bókin segir frá metnaðargjörnu konunni Jane Somers sem nýtur mikillar velgengi í starfi sem og einkalífi. Hún stendur á tímamótum í lífinu þar sem bæði eiginmaður hennar og móðir eru látin og fer að spyrja sig þeirrar spurningar hvað hún komi til með að skilja eftir sig til síns samferðarfólks.  Tilviljunin ein (eða hvað?) leiðir hana til Maudie sem er kona um nírætt og eftir það verður Jane aldrei söm.  Þessa bók las ég fyrir rúmum tíu árum og hún situr enn í mér. Mæli svo sannarlega með Doris Lessing. Hún fékk nóbelsverðlaun í bókmenntum árið 2007 og eftir hana liggja margar áhugaverðar bækur sem vert er að lesa. (LM)

 

 

 

[hr gap=”30″]

Harmsaga æfi minnar eftir Jóhannes Birkiland

Harmsagan er skrifuð 1945.  Jóhannes var töluvert þekktur á þessum tíma, sem skáld og blaðamaður en undirtitill bókarinnar „Hvers vegna ég varð auðnuleysingi“ segir allt sem segja þarf.  Bókin féll, svo vægt sé til orða tekið, í grýttan jarðveg og uppskar Jóhannes aðeins háð og spott fyrir skrif sín.  Enda er bókin skrifuð á árum sjálfstæðisbaráttu okkar þjóðar þar sem sjálfsvorkunn og sjálfseymd var ekki þekkt fyrirbæri í íslensku orðabókinni. Margt hefur hinsvegar breyst. Harmsaga æfi minnar: hvers vegna ég varð auðnuleysingi smellpassar inn í tíðarandann í dag og er auk þess afskaplega vel stílfærð og óborganlega fyndin saga. Gallinn við hana er hinsvegar sá að fá eintök voru prentuð þar sem eftirspurning á sínum tíma var engin og bókin hefur aldrei verið endurútgefin. En bókasöfnin hafa engu að síður einhver eintök til útláns. (LM)

 

 

 

[hr gap=”30″]

Fimm manneskjur sem maður hittir á himnum eftir Mitch Albom

Bókin fjallar um hinn aldna Edda sem er starfsmaður í skemmtigarði en deyr í slysi á 83. afmælisdegi sínum. Hann vaknar upp á himnum og hittir þar fyrir fimm einstaklinga sem öll hafa haft áhrif á hann í lifanda lífi, með einum eða öðrum hætti.  Bókin er afskaplega vel skrifuð, vekur upp spurningar um lífið og tilveruna.  Allt hefur jú einhvern tilgang og kannski er lífshlaupið skrifað fyrir okkur, eða hvað? (LM)

 

 

 

 

[hr gap=”30″]

Heimsins besti bær eftir Arto Paasilinna

Þetta er einmitt bókin til að lesa þegar innrás vofir yfir og almenningi er sagt að halda sig sem mest heima til að forðast utanaðkomandi ógn. Bókin segir frá Eemili sem lofar öldnum frænda sínum sem liggur fyrir dauðanum að stofna sjóð og nota til að reisa kirkju. Frændinn hafði verið alræmdur brennuvargur og brennt ótal kirkjur í mótþróa gegn trúarofstæki samlanda sinna en frammi fyrir dauðanum fer hann að efast um trúleysi sitt og Eemili fer af stað að finna nýju kirkjunni hinn fullkomna stað. Sagan segir svo frá þessari óborganlegu framkvæmd og þeim sem að henni koma. Kirkjan fær stað í óbyggðum Finnlands en með tímanum flækjast þangað hinir og þessir, bæði þeir sem telja sig eiga erindi til Eemili og hinir sem óvart rekast á þessa óvenjulegu hjörð.  Öll eiga þau sér það svo sameiginlegt að ílengjast á þessum einangraða stað Eemilis. Því mergur málsins er sá að öll viljum við eiga vin, og þá meina ég svona eyðimerkurvin. Stað, þar sem ekkert getur ógnað eða eyðilagt, og þar sem við fáum frið fyrir utanaðkomandi áreiti sem herjar á okkur stanslaust, hvort sem við erum vakandi eða sofandi. Og kirkjustaður Eemili reynist þegar upp er staðið einmitt þannig vin og fólkið finnur skjól í þessari sjálfskipuðu einangrun. Sagan er svo skemmtileg og fyndin, persónur ógleymanlegar og samtölin engu lík. Bókin er lúmsk ádeila að hvernig við höfum bæði meðvitað og ómeðvitað skapað veröld þar sem allt er á ofursnúning og streita og álag er að gera útaf við fólk hægt og bítandi. Þetta var fyrsta bókin sem ég las eftir Arto Paasilinna og eftir það gleypti ég í mig allt sem hann hafði skrifað. Heimisins besti bær og Dýrlegt fjöldasjálfsmorð, sem er fyrsta bókin er þýdd var eftir hann á íslensku, er skyldulesning, sérstaklega á þeim tímum þar sem allt er öðruvísi en það á að vera. (LM)

[hr gap=”30″]

Stökkvið nú út á næsta bókasafn eða út í næstu bókabúð og byrgið ykkur upp af bókum fyrir komandi vikur, svona áður en allsherjar útgöngubann skellur ár.

 

Lestu þetta næst

Tíminn teygir úr sér

Tíminn teygir úr sér

X eftir Alistair McDowall Klukkan er 20:07 og Ray er að fá sér að borða. Gilda orðar áhyggjur...

Hægt og hljótt

Hægt og hljótt

Hvítalogn er fimmtánda skáldsaga Ragnars Jónassonar og önnur bókin í þríleiknum um lögreglumanninn...

Ráðgátugleraugun

Ráðgátugleraugun

Í Ljósaseríunni koma út bækur sem henta börnum á yngsta og miðstigi í grunnskóla. Bækurnar eru...