Falleg saga um einmana sálir og grámyglulegan geðlækni

Agathe eftir Anne Cathrine Bomannkom út nú nýverið hjá Bjarti & Veröld. Bókin hefur farið sigurför um heiminn og fengið 5 stjörnur hvarvetna. Ég fékk hana í hendurnar nú á sunnudaginn og byrjaði strax að lesa.

Stutt en afskaplega laggóð

Bókin er fremur hraðlesins en ég kláraði hana í miðjum veikindum aðeins tveimur dögum seinna. Þessi kinnholubólga hafði þó eitthvað gott í för með sér. Hnerrandi, ýlfrandi og snítandi las ég söguna um hinn lífsleiða geðlækni og sjúkling hans Agathe. Læknirinn, sem er grámyglulegur maður á áttræðisaldri, telur niður tímana í að hann geti komist á eftirlaun þegar ritarinn hans tekur til einn auka sjúkling. Ekki er nú læknirinn sáttur með það en sjúklingurinn lætur ekki segjast og þverneitar að fara til annars læknis. Sjúklingurinn á eftir að breyta lífi læknisins án þess að hann viti það í byrjun bókarinnar. Sjúklingurinn er Agathe.

Það er eitthvað heillandi við þessa lágstemdu bók; það er ekki mikill drifkraftur í sögunni sjálfri en samt heldur hún lesandanum. Ég held að það sé einfaldlega vegna þess að sagan fjallar um það sem við öll þekkjum; myrku ganga lífsins sem við höfum flest öll þurft að ganga um einhvern tímann á lífsleiðinni. Hún sýnir vel hvað getur gerst þegar við sem manneskjur festumst í myrka ganginum og hættum að gera okkur grein fyrir því að við erum alltaf að hjakka í sama farinu.

Mannleg persónusköpun

Í bókinni mætast því tvær persónur sem á vissan hátt eru að bjarga hvor annarri. Vissulega bjargar önnur meira en hin en báðar eru þær áhrifavaldar. Þarna spilar líka inn þessi tenging sem maður getur átt við einhverja manneskju og tekið sem sjálfsögðum hlut. Sú tenging birtist vel í samskiptum læknisins og ritara hans Frú Surrugue sem þarf skyndilega að yfirgefa læknastofuna vegna persónulegra málefna.

Þetta er ljúf bók sem skilur margar spurningar eftir og fær mann til að hugsa um lífið og tilveruna og hina mannlegu einsemd sem virðist vera allsstaðar, meira að segja á stöðum sem maður býst ekki við henni.

Þrjár og hálf stjarna til Agathe.

 

Lestu þetta næst

Glöggt er gests augað

Glöggt er gests augað

Fyrir nokkrum árum komst ég að því að finnsk kona að nafni Satu Rämö, sem búsett væri á Ísafirði,...

Jarðsyngdu mig

Jarðsyngdu mig

Ég fékk ljósbláa bók að gjöf. Framan á kápu stendur aðeins titill verksins með smáu, hvítu letri....

Fangelsi hugans

Fangelsi hugans

Hvað ef þú værir geimvera? Og geimskipið þitt hefði skilið þig eftir á jörðinni, í venjulegri,...

Anniemenni

Anniemenni

Anniemenni (e. Annie bot) eftir Sierra Greer  Annie er vélmenni. Hún er með hleðslustöð í hælnum,...

Með iðrun úti

Með iðrun úti

Þrjár stúlkur á sautjánda ári pyntuðu skólasystur sína og kveiktu í henni í rólega breska...