Gamall og lúinn

 Höfundur: Rannveig L. Benediktsdóttir

 

Ef ég væri hestur þá væri búið að fella mig. Ég er orðinn gamall og þreyttur og mig verkjar í allan kroppinn. Norðanáttin fer illa með mig og mér líður stundum eins og ég hafi engin liðamót. Ég er líka allur sprunginn í húðinni og veturinn hér í aðgerðarleysinu á ekki við mig.

Ég er löngu hættur að vinna. Næstum allir sem ég þekki eru horfnir á braut. Nágrannar mínir líka. Ég stend hér einn eftir. Það stóð til að ég fengi nýja nágranna en þeir vilja ekki búa nálægt mér. Ef ég á að vera alveg hreinskilinn, myndi ég sjálfur ekki vilja búa við hliðina á mér. Ég er vandræðalega hávaxinn, hávær, plássfrekur, ótraustur og skítugur. Rauðhærður og skapmikill. Ég hef þó róast mikið og er löngu hættur af gubba yfir eignir fólks svo tjón hljótist af.

Bæjarbúar annað hvort hata mig fyrir það sem ég hef gert síðustu sextíu árin eða elska mig fyrir það sama. Ég er ástæða margra rifrilda og einn sá umdeildasti í bænum. Mér hefur reyndar fundist undanfarið að það séu helst brottfluttir sem tala fallega um mig og þyki ögn vænt um kallinn. Þessi hópur þarf reyndar ekki að punga út peningum til að halda mér á lífi.

Ég kann ekkert á samfélagsmiðla en ég er á Twitter. Það er samt ekki ég sjálfur. Það stofnaði einhver Twitter reikning í mínu nafni. Kallinn er einn mest myndaði íbúi bæjarins, svona í seinni tíð, samkvæmt Instagram. Ekki er það vegna þess að ég sé svona myndarlegur eða skemmtilegur. Þvert á móti. Það eru óteljandi myndir af mér á Instagram og Facebook, en samt tek ég sjálfur aldrei sjálfur. Ég hef marga ókosti en það er ekki hægt að segja um mig að ég sé sjálfmiðaður og athyglissjúkur borgari þessa bæjar. Ég hef fengið ótrúlega mikla athygli síðustu daga. Svo mikla að mér hefur þótt hún óþægileg á köflum.

Tími minn er að renna út. Ég finn það. Það er einhver spenna í loftinu. Þar sem ég hef hvorki stjórn á því hvað gerist næst né hvenær, hef ég einbeitt mér að því að reyna að njóta augnabliksins. Þegar ég get. Eins og þegar ég horfði á sólina koma upp yfir fjallsöxlinni í gær meðan það rigndi beint niður á hausinn á mér. Þá var nú gott að hafa hattinn. Á einu augabragði umbreyttust regndroparnir í hundslappadrífu. Ég hlustaði á þungar flygsurnar lenda á mér og blautri götunni. Himinninn milli fjallanna varð rauðgulur um leið og sólargeislarnir náðu mér. Fimm fuglar flugu hjá og það var eins og þeir flygju inn í sólina. Allt í einu dró ský fyrir þá gulu, það stytti snögglega upp og augnablikið var farið. Í nótt, þegar ég leit út, var hann svo kominn á suðvestan. Það er stórstreymt. Vindáhlaðandi og mikil ölduhæð heldur mér vakandi. Það er notalegt að loka augunum, hlusta og finna báruna brotna í bakkanum, og finna sjórokið mynda húð á sprungnu andlitinu. Finna saltið á vörunum. Draga djúpt andann. Bíða eftir næstu öldu. Jarðtengja.

Þetta hjálpar mér að búa mig undir næstu daga sem gætu orðið dálítið erfiðir. Hingað eru mættir danskir sérfræðingar með bora og sænska uppfinningu. Þeir vilja ekki segja mér hvaða sænska uppfinning þetta er. Eins og ég viti það ekki. Þeir bora í bein og vilja sýni úr beinmerg. Það dugar þeim ekki eitt og ekki tvö. Þeir vilja mörg. Á endanum brotna bein. Þó ekki öll. Sænska uppfinningin á að sjá um afganginn í tveimur aðgerðum. Þeir tilkynna útför mína fyrir andlát mitt:

Á föstudag kl. 14:00

Allir uppistandandi bæjarbúar mæta til að vera viðstaddir. Fjölmennara lið hefur ekki sést áður á götum bæjarins og umferðaröngþveitið er eins og í stórborg. Listamaður suður í Evrópu birtir teikningu af mér á samfélagsmiðlum. Eins og minningargrein. Hann var barn í þessum bæ. Kannski einn af þessum brottfluttu bandamönnum. Himnarnir gráta hvítum tárum. Leikskólabörn í gulum vestum eru sest. Þeim er kalt. Við erum ekki í París. Viðvörunarhljóðið sker í eyrun eins og loftvarnarflautur fyrir loftárás. Búmm! Ég brotnaði eins og uppþornaður vindill, lenti illa en náði að skemma víra til að kaupa tíma. Ég missti hattinn í fallinu. Þeir tilkynna nýja tímasetningu til að ljúka þessu:

Í dag kl. 15:00

Bæjarbúar eru allir mættir aftur. Eins og í sviðsmynd. Taka tvö. Verið er að mynda frá öllum hliðum. Viðvörunarhljóðið veldur jafnmikilli ónotatilfinningu núna. Búmm! Sænskar uppfinningar klikka ekki. Ég er fallinn!

Hliðið hefur staðið opið alla helgina. Margir hafa kíkt á mig til að kveðja, tekið magnaðar myndir og hirt brot úr mér í leiðinni. Eins og ég sé frægur Berlínarbúi. Það tók fimm vikur að reisa mig en fimm sekúndur að fella mig.

Nýtt og óþornað veggjakrotið er eins og húðflúr á efri hlutanum, sem liggur á jörðinni, aðskilinn frá þeim neðri: „Sementsstrompurinn lifir!“

 


 

Nokkur orð frá Rannveigu um tilurð smásögunnar:

Sagan varð til í hausnum á mér þegar ég horfði á sementsstrompinn felldan í fyrra. Þá var ég á framhaldsnámskeiði í skáldlegum skrifum hjá Kristjáni Hreinssyni í Endurmenntun Háskóla Íslands. Það var ofsalega skemmtilegt námskeið sem ég mæli með við alla sem hafa áhuga á að skrifa. Í lok námskeiðs gaf Gutti, útgáfufélag Kristjáns, út bókina Ritlist eða ristill” með sögum nemenda og þar er sagan um sementsstrompinn. Eftir námskeiðið sótti ég um meistaranám í ritlist í íslensku- og menningardeild HÍ og komst inn. Í vor lýk ég fyrsta árinu ef allt gengur vel.

Hits: 409