í bókinni Ótrúleg ævintýri hinnar makalausu einstöku, mögnuðu, æðisgengnu, óviðjafnanlegu Brjálína Hansen: Beðið eftir kraftaverki er Pálína Klara Lind Hansen stödd í atburðarás sem hana óraði ekki fyrir og vill ekki vera í.  Í þessu framhaldi af ævintýrum hennar fylgjumst við með henni þar sem hún þarf að sætta sig við að pabbi hennar er kominn með nýja konu, mamma hennar verður enn veikari og allt er engan veginn eins og það á að vera. Bókin er önnur í röðinni af þremur en eins og ég sagði frá í umfjöllun minni um fyrstu bókina; Ótrúleg ævintýri hinnar makalausu einstöku, mögnuðu, æðisgengnu, óviðjafnanlegu Brjálína Hansen: Kóngsríkið mitt fallna, þá var sú bók allrar athygli virði og rúmlega það. Þessi er ekki síðri.

Ég ætla ekki að fara náið út í söguþráðinn. Pálína eða Brjálína eins og hún kallar sig reynir eins og hún getur að finna sér stað í þessari skrýtnu veröld, hún áfellist pabba sinn og í eins þeir muna sem lásu fyrri bókina þá var hún hætt að tala við hann en notaði þögnina til að koma vanlíðan sinni og óánægju á framfæri við hann, Manninn, eins og hún kallar hann. En saman finna þau samt leið til tjáskipta í gegnum bangsann hennar Brjálínu en bangsinn Sebra skrifast á við pabbann sem vill gera allt sem hann getur til að laga sambandið við dóttur sína.

Þetta er ljúfsár saga, skreytt með húmor og léttleika um mjög alvarlega hluti og því miður er örugglega stór hópur barna sem geta speglað sig í þessari frásögn. Umfjöllunarefnið er tilfinningar. Tilfinningar barna sem þurfa að ganga í gegnum erfiða hluti eins og skilnað foreldra og alvarleg veikindi þeirra sem standa þeim næst.

Ég gat ekki lagt bókina frá mér þegar hún komst í hendurnar á mér, ég get ekki beðið eftir framhaldinu og sömu sögu segja þeir krakkar sem hafa lesið bækurnar tvær og ég hef talað við.

Þessar bækur hitta í mark fyrir mjög breiðan aldur og þó umfjöllunarefnið sé grafalvarlegt þá er húmorinn slíkur og persónulýsingarnar svo skemmtilegar að erfitt er að skella ekki uppúr á stundum.

Myndskreytingar Ránar Flygenring eru eiginlega sér umfjöllunarefni. Sérdeilis frábærar og gera söguna svo lifandi og skemmtilega. Þær brjóta upp textann og búa til hliðarsögur á köflum eins og til dæmis á blaðsíðu 116 en þar er myndasaga í heilli opnu sem sýnir okkur hvað Brjálína, afi hennar og besti vinur eru að bralla.

Ég gef þessari bók fimm stjörnur og þá einna helst af því að þarna tekst höfundi á snilldarhátt að fjalla um hluti sem eru dauðans alvara en á svo húmorískan hátt – þó svo að undirtónninn skíni alltaf í gegn. Persónulýsingar eru sannfærandi og þó svo að alvarleikinn skíni í gegn þá er bókin aldrei væmin en oft falla bækur í þá gryfju þegar fjallað er um veikindi aðstandenda í barnabókum. Og svo auðvitað vegna myndanna hennar Ránar.

Lestu þetta næst

Eins konar dans

Eins konar dans

Moldin heit er önnur skáldsaga Birgittu Bjargar Guðmarsdóttur en fyrir hana hlaut hún...