“Afi segir að lífið sé eins og skonsa”

Einu sinni áttu þau allt, hús, pottaplöntur, garð og eldgömul viðargólf sem söfnuðu rusli, ryki og afklipptum tánöglum. Heilt konungsríki þar sem hún var miðja alls og allt var fullkomið og áhyggjulaust. Ég held að það séu ansi mörg börn og ungmenni sem geta fundið sig í þessum Ótrúlegu ævintýrum hinnar makalausu einstöku, mögnuðu, æðisgengnu, óviðjafnanlegu Brjálínu Hansen.

Brjálína Hansen heitir í raun Pálína Klara Lind Hansen en af því að Brjálína rímar við Pálína og af því að hún á það til að taka brjálæðisköst þá kallar hún sjálfa sig Brjálínu.  Þegar sagan byrjar er Brjálína flutt í plasthús við plastgötu þar sem garðurinn er bara pínulítið frímerki og íbúðin öll hin skringilegasta með furðulegum handföngum og skrítnum skábrautum. Hún er flutt þangað með mömmu sinni og skjaldbökunum sínum tveimur en Maðurinn (pabbinn) varð eftir í Bjálivíu en það kallar Brjálína gamla heimilið sitt, stóra húsið með stóra garðinum og öllum dásamlegu minningunum.

Brjálína er reið. Eiginlega er hún svo miklu meira en reið. Hún er klárlega gjörsamlega brjáluð! Og ætlar aldrei að tala framar við Manninn sem sveik hana og mömmu hennar svo sárt, sprangar um hjólandi með nýrri konu og lætur sem ekkert sé.  Sem betur fer á Brjálína afa sem miðlar henni af visku sinni og fær hana til að hugsa hlutina örlítið upp á nýtt.

Og svo kynnist Brjálína honum Páli, strák í skólanum sem er á unglingaheimili þar sem pabba hans er einhverra hluta vegna ekki frjálst að hitta hann né hugsa um hann.  Og smám saman fer Brjálína að átta sig á því að hlutirnir eru ekki alveg eins einfaldir og hún hélt.

Höfundar bókarinnar, Finn-Ole Heinrich og Rán Flygenring hafa hlotið allskyns verðlaun og viðurkenningar fyrir sín skrif fyrir krakka. Og ég er hreint ekkert hissa, ekki miðað við þessa stórskemmtilegu sögu af Brjálínu. Þessi bók er sú fyrsta af þremur og miðað við hvernig hún endar er ekki um sjálfstæðar sögur að ræða. Hjónaskilnaðir koma alltaf mest niður á börnunum og þar er Brjálína engin undantekning, samband hennar við mömmuna, reiðin út í pabba og samtöl hennar við afann sem henni finnst að eigi að geta lagað þetta allt, þetta er svo ótrúlega vel skrifað og sannfærandi. Reiðin sem býr innra með henni og togstreytan þar sem hana langar svo mikið að hafa stjórn, allar þessar réttmætu tilfinningar flæða um hverja síðu en samt á þann hátt að krakkar skilja, geta fundið sig í þessum aðstæðum, þau eru ansi mörg börnin sem hafa reynt nákvæmlega það sem Brjálína er að ganga í gegnum.

Þessi bók er líka holl lesning okkur foreldrum, hún er þörf áminning fyrir okkur sem tökum ákvarðanir fyrir börnin okkar á hverjum degi og hugum kannski ekki nógu vel að því hvernig þær ákvarðanir koma við börnin okkar, bæði á jákvæðan hátt en því miður oft líka á neikvæðan hátt.

Bókin er skemmtilega uppsett, textinn er brotinn reglulega upp með skemmtilegum uppákomum, uppskriftum og spæjararáðum svo dæmi séu tekin. Myndskreytingar hefðu þurft sér umfjöllun ef vel hefði átt að vera. Þær eru helmingurinn af sögunni. Rán Flygering er algör listamaður sem hefur ferðast vítt um heiminn og skilið eftir listaverk fyrir börn og fullorðna og hvarvetna fengið lof fyrir. Mig langar sérstaklega að benda ykkur á fuglabókina sem Angústúra gaf út en Rán einmitt teiknaði myndirnar í þá bók á listilegan hátt.  Ég verð líka að taka smá útúrdúr og hrósa þessu skemmtilega forlagi Angústura. Stórskemmtilegar bækur sem hafa komið út hjá þeim og nú er kominn af stað bókaklúbbur fyrir krakka, 9 til 13 ára en það er einmitt sá aldur sem oft hefur orðið útundan í bókaáskriftaflórunni.

Ég hlakka til að lesa áframhaldandi ævintýri hinnar makalausu, einstöku, mögnuðu, æðisgengnu og óviðjafnanlegu Brjálínu Hansen. Hún ætlar að fá sitt gamla líf til baka og hún skal ná sínu fram!
Brjál fyrir því!!

Lestu þetta næst

Geturðu elskað mig núna?

Geturðu elskað mig núna?

Þegar Hvítfeld, fyrsta skáldsaga Kristínar Eiríksdóttur, var sett fyrir í bókmenntafræðiáfanga sem...

Ögrandi smásagnasafn

Ögrandi smásagnasafn

Bókmenntir Suður-Ameríku hafa alltaf heillað mig. Smásögur eru töluvert virðingaverðara...