Í þessari færslu verður fjallað um fantasíubókaflokkinn um Eragon. Það er ekki oft sem að ég ákveð að skrifa dóm um sömu bókina tvisvar en sú er hinsvegar raunin núna.

15 ára bókarýnir

Það er nefnilega þannig að fyrsti bókadómur minn fjallaði um aðra bók seríunnar um Eragon,  Öldunginn,  og birtist í Fréttablaðinu á því herrans ári 2006. Þá var undirritaður aðeins 15 ára og hafði valið að fara í starfskynningu á vegum Hlíðaskóla í Fréttablaðið. Í lok kynningarinnar var ég spurður hvort ég vildi skrifa bókadóm fyrir þau. Jú heldur betur. Ég hafði einmitt vakað lengi frameftir nóttina áður við að klára aðra Eragonbókina og eins og oft vill verða þegar maður hefur nýlokið lestri fannst mér bókin alveg frábær. Því skrifaði ég bókadóm sem var samt minni dómur og meira ein stór lofræða um bókina og gaf henni 5 stjörnur. Daginn eftir birtist svo bókadómurinn í Fréttablaðinu og undir stóð „Sigurþór Einarsson, nemandi í 10. bekk í Hlíðaskóla” og ég var nú bara nokkuð sáttur með mig. En þessi bókadómur og þessar fimm(!) stjörnur áttu heldur betur eftir að draga dilk á eftir sér því bókadómur minn hafði komið út aðeins nokkrum dögum eftir útgáfu bókarinnar á íslensku og jólabókaflóðið var að bresta á. Eragon var gefin út af JPV (nú Forlagið) á þessum tíma og þar á bæ tók einhver upp á því að prenta út límmiða með völdum köflum úr bókadóm mínum, fimm stjörnunum og nafni mínu en gleymdu að láta fylgja með „…nemandi í 10. bekk í Hlíðaskóla”. Það stóð semsagt Sigurþór Einarsson, Fréttablaðið. Þessi miði var síðan límdur á hvert einasta eintak Öldungsins sem selt var í bókabúðum og allt í einu þurfti ég að horfa upp á línur eins og „… stórfenglegt skáldverk þar sem stríð, töfrar og ástin ráða ríkjum og stendur svo sannarlega undir væntingum” á hverju horni. Þessi límmiði var ekki það eina heldur var ritdómurinn settur í heild inn á heimasíðu JPV fyrir hvern sem var að lesa. Og vel að merkja er enn hægt að sjá meðmæli frá mér inn á núverandi heimasíðu Forlagsins.

Töfrandi bókaflokkur

En nóg um unglingsár mín. Ég ætlaði mér að fjalla um bókaflokkinn um Eragon og drekann hans Safíru en hann telur fjórar bækur og er hver þeirra um 600 blaðsíður svo ef þú átt eftir að lesa flokkinn geturu notið hans í ansi langan tíma.

Í fyrstu bókinni kynnumst við unglingsdrengnum Eragon sem býr í landinu Alegesíu. Í landinu hefur illi einræðisherrann Galbatorix verið við völd frá því að hann hrifsaði þau til sín í valdaráni fyrir langa löngu en ógnarstjórn hans hefur þó lítil áhrif á Eragon og frændur hans sem búa í afskekktum dal úr alfaraleið. Það breytist þó allt þegar Eragon finnur undarlegan stein sem reynist vera drekaegg og skyndilega er Eragon hundeltur af útsendurum Veldisins og neyðist til að flýja af heimaslóðum í fylgd undarlega einfarans Brom.

Þannig hefst ævintýrið um Eragon en ég ætla ekki að segja meira um það til að spilla sögunni ekki. Serían er skrifuð af hinum ameríska Christopher Paolini sem var ekki nema um 15 ára þegar hann lauk við fyrstu bókina. Hann átti þó eftir að vinna meira í bókinni og þegar foreldrar hans sáu lokaútgáfuna um þremur árum síðar voru þau svo hrifin að þau ákváðu að gefa hana sjálf út. Það var heppilegt fyrir Paolini að verk hans var uppgötvað og endurútgefið af stórri útgáfu tveimur árum síðar því í kjölfarið sat hún á metsölulista The New York Times í 98 vikur.

Það er gaman að lesa furðusögur sem eru bæði vel skrifaðar og með spennandi söguþráð eins og hér er raunin. Ég viðurkenni að fyrsta bókin er líklega síst ef horft er á stílbrögð og dýpt en æsispennandi söguþráður bætir upp fyrir það svo það kemur ekki að sök. Í annari og þriðju bókinni er kafað á dýpið. Persónur þroskast, lesendur kynnast betur menningu og sögu hinna ýmsu þjóðflokka sem koma fyrir og söguheimurinn verður fullmótaðri. Fjórða og síðasta bókin, Arfleifðin, gegnir því hlutverki að binda lokahnút á þennan langa og flókna söguþráð og er það ekki lítið verk.

Það er gaman að sjá hvernig höfundur bókaflokksins þroskast og breytist í skrifum sínum með aldrinum og verða bækurnar aðeins úthugsaðri og betri eftir því sem líður á. Það má finna alveg gríðarlega úthugsaðar hernaðarlegar pælingar í bókunum ásamt stórskemmtilegri og fróðlegri lýsingu á upplifun stjórnmálamanns á ólgutímum. Siðferðisleg álitmál koma einnig til kastanna í bókunum og þannig verður bókaflokkurinn miklu meira en einföld spennusaga, en Eragon bókaflokkurinn er marglaga og fróðlegur og í honum má finna djúpa greiningu á mannlegu (og álfslegu) eðli.

Furðusögur

Furðusögur líkt og Eragon munu alltaf eiga sérstakan stað í hjarta mínu því að þær spiluðu stórt hlutverk í æsku minni og eru ein af ástæðunum fyrir því að ég varð ástfanginn af bókmenntum. Að geta gleymt sér í töfraheimi er ómetanlegt hvort sem maður er ungur eða gamall og ég tel að furðusögur búi til mikilvæga brú fyrir unga lesendur milli barnabókmennta og fullorðinsbókmennta. Þar með er ég ekki að tala furðursögur niður heldur þvert á móti upp. Furðusögur hafa oftar en ekki aðdráttarafl fyrir unga lesendur sem “fullorðinsbækur” hafa ekki. Furðusögurnar geta þó verið alveg jafn vel skrifaðar og jafn djúpar og því eru þær mikilvægur hlekkur í lestrarþroska fólks.

Furðusögur geta nefnilega verið allskonar. Þær geta verið rómantískar eða raunsæjar, höfðað til barna, unglinga, fullorðinna eða allra þriggja hópa. Það sem mér hefur oft fundist áhugavert við bókmenntir almennt er að kynnast persónum þeirra og sjá þær taka erfiðar ákvarðanir, þroskast (eða ekki) og vonandi yfirstíga þær hindranir sem frammi fyrir þeim standa. Í furðusögum er þetta alveg jafn ríkur þáttur og í klassískum bókmenntum. Þó sögusvið furðusagna sé uppdiktaður heimur og persónur þeirra ýmist geimverur, tröll, álfar, dvergar eða menn þá eru sögur þeirra  alveg jafn mennskar og magnaðar og ævintýri þeirra  jafn spennandi og þeirra sem lifa á plánetunni jörð.

Að þessu sögðu, þá ætla ég ekki að  gefa þessum furðusagnabálki fimm stjörnur í þetta skiptið en ég get svo sannarlega mælt með þessum bókum fyrir fólk á öllum aldri.

 

Lestu þetta næst

Geturðu elskað mig núna?

Geturðu elskað mig núna?

Þegar Hvítfeld, fyrsta skáldsaga Kristínar Eiríksdóttur, var sett fyrir í bókmenntafræðiáfanga sem...

Ögrandi smásagnasafn

Ögrandi smásagnasafn

Bókmenntir Suður-Ameríku hafa alltaf heillað mig. Smásögur eru töluvert virðingaverðara...