Sumardagurinn fyrsti


Gul innkaupakerra
tekur á rás
yfir bílaplanið
við Bónus
einhvern veginn
skröltir hún af stað
í tilviljanakenndri gjólunni
og nemur loks staðar
með tilþrifalitlum dynk
á algengum smábíl

Líkast ljóði
stendur tíminn í stað
eitt stundarkorn
meðan
tilveran riðlast
á hanskaklæddri konu
sem í örvinglaðri tilraun
til að hafa áhrif á gang sögunnar
fórnar höndum
með áhyggjuþrungið andlit
fengið að láni
úr ævafornri fresku
í Pompeii

 


 

Söluturn


Úti hefur mávagerið úrslitaatlögu að ruslagáminum
en inni gaumgæfi ég myndir af glötuðum gæludýrum
ísvélin minnir á sig með reglulegu millibili
í hjarta hverfisins
sjá spilakassarnir um undirleikinn

Í einu horninu, styður vís öldungur sig við rekka
fullan af tómum DVD hulstrum
og heldur örfyrirlestur
fyrir fróðleiksfús ungmenni
um amfetamín framleiðslu

Og þar ert þú handan glerborðsins
tínir af kæruleysislegri næmni
bland í poka
leggur saman og dregur frá í huganum
af miskunnarlausri hreinskilni

Hamingjan er víst falin í skúffu undir borðinu
og þegar ég vitja hennar
velti ég fyrir mér
hvort þú sért í alvörunni
á pillunni

 


 

Örn Elvar er verkamaður sem skrifar í hjáverkum. Hann er nýlega kominn útúr skápnum með skrif sín. Hann hefur áður birt ljóð í 2. tölublaði Skandala.

Hits: 390