Bókamerkið er nýr bókmenntaþáttur í beinu streymi frá Bókasafni Garðabæjar. Annar þáttur var föstudaginn 24. apríl kl.13:00 og var tileinkaður ljóðabókunum. Rebekka Sif bókmenntafræðingur og gagnrýnandi hjá Lestrarklefanum stjórnaði umræðum og fékk til sín Ásdísi Ingólfsdóttur ljóðskáld og Ásdísi Helgu bókmenntafræðing til að ræða um íslenskar ljóðabækur og hughrifin við að lesa góð ljóð.

Þátturinn er samvinnuverkefni Bókasafns Garðabæjar og Lestrarklefans en þættirnir eru ætlaðir til að stytta stundir í samkomubanni.

Það er til ljóðabók fyrir alla

Samræðurnar fóru um víðan völl í þættinum, en mikil áhersla var lögð á ljóðabækur sem innihalda húmor og kímni. Hversdagshúmor er líklega eitthvað sem við þurfum öll í dag, þegar heimurinn er allur svolítið skakkur og við þörfnumst einhvers til að leiða hugann á léttari slóðir.

Ljóðabókaútgáfa var gríðarlega öflug fyrir jólin, aldrei hafa komið út eins margar ljóðabækur. „Ljóðbækur virðast vera að sækja í sig veðrið,“ segir Ásdís Helga. „Ljóðið er eins og stofn rjúpunnar, það eru sveiflur. Við erum á toppi ljóðastofnsins núna,” segir Ásdís Ingólfs kímin. Þó voru nýjar ljóðabækur ekki í forgrunni spjallsins, heldur fengu eldri ljóðabækur, uppáhaldsljóðabækur, að slæðast inn í umræðuna.

Allar hvetja þær fólk til að grípa í ljóðabók. Þær séu fljótlesnar og það sé til ljóðabók fyrir alla. Ásdís Ingólf bendir á að ljóðin séu viss hugleiðsla. „Lestu eitt ljóð, hugsaðu um það, leyfðu því að sýna þér myndir. Láttu það malla.“

 

Ljóðakollektívin Svikaskáld og Skógurinn

Ásdís Helga og Ásdís Ingólfs tóku báðar með sér ljóðabækur eftir ljóðakollektív. Ásdís Helga tók með sér safn af ljóðum eftir Svikaskáld þar sem hún segir ljóðmælendur heyja kynslóðastríð. Rebekka Sif hefur áður fjallað um bækur Svikaskálda fyrir Lestrarklefann og mældi meðal annars með þriðju bók Svikaskálda, Nú sker ég netin mín, sem eina af betri ljóðabókunum sem komu í lok síðasta árs.

Ásdís Ingólfs tók með sér ljóðasafnið Ég erfði dimman skóg sem ljóðakollektívið Skógurinn stóð að. „Fyrir mér var þessi bók algjör vitrun.“ Bækurnar báðar og ljóðin eiga það sameiginlegt að fjalla um reynsluheim kvenna að miklu leiti og að vera mjög feminískar.

 

 

 

Hæðnin kraumar undir yfirborðinu

Kærastinn er rjóður eftir Kristínu Eiríksdóttur vakti mikla athygli í ljóðabókaflóðinu fyrir frábæra kápu. Kápan hlaut svo viðurkenningu bóksala sem fallegasta kápan. „Það sem mér finnst svo magnað við skáldskap Kristínar er hvernig hún fjallar um sameiginlega kvenlega reynslu, svona marglaga kvenlægan ótta. Ótti við kröfur samfélagsins og líka samband kvenna við karlmenn. Hún hefur nefnt það að hún líti á ljóðabækurnar sínar sem eitt samfellt verk. Mér finnst rödd ljóðmælandans vera sterkari í þessari bók, rödd ljóðmælandans styrkist með hverri bók,“ segir Ásdís Helga

um bókina. „Það er einhver ískrandi kaldhæðni í þessari bók sem kraumar,“ segir Ásdís Ingólfs og hópurinn er sammála.

 

 

Hversdagslegur húmor

„Mig þyrstir svo í húmor,“ segir Ásdís Ingólfs með Leyndarmál annarra eftir Þórdísi Gísladóttur í höndunum. Hún segir bókina búa yfir miklum hversdagslegum húmor. „Hversdagslífið er stundum svo kómískt.“ Þær segja húmor einmitt einkenna margar ljóðabækur, staðreynd sem allt of margir hafi látið fram hjá sér fara. Rebekka nefnir Vellankatla eftir Þórð Sævar Jónsson sem frábæra og bráðfyndna ljóðabók, lesa má meira um hana í dómi Rebekku.

Ásdís Ingólfs nefndi líka bókina Listin að vera einn eftir Shuntaro Tanikawa í þýðingu Gyrðis Elíassonar. Bókin sé samin undiráhrifum frá til dæmis Walt Whitman en þó skíni mjög berlega í gegn japönsk áhrif. „Hann lifði hræðilega tíma og er stundum svo dapurlegur.“ Hann leyni þó á sér og inn á milli sé hann bráðfyndinn.

 

Næsti þáttur af Bókamerkinu fer í loftið frá Bókasafni Garðabæjar fimmtudaginn 30. apríl klukkan 16:00. Katrín Lilja, ritstjóri Lestrarklefans, ræðir þá um barnbækur við Kristínu Rögnu Gunnarsdóttur, rithöfund, og Mörtu Magnadóttur, ritstjóra hjá Bókabeitunni.

 

Hits: 102