Vetrarkvöld í Reykjavík
Eftir Einar Leif Nielsen
Skólavörðustígur var tómur. Þar var ekki að sjá manneskju eða bíl frekar en hund eða kött. Það var eins og að allt kvikt hefði ákveðið að yfirgefa Reykjavík sem var skiljanlegt. Hvers vegna að hanga í skafrenningi og hagléli þegar að sólarströnd var einungis nokkra metra í burtu?
Einhver hafði séð til þess að kveikt væri á ljósastaurunum, sem auðveldaði starfið mitt, en allt var slökkt í búðargluggum og íbúðarhúsum. Enginn borgaði fyrir snjómokstur svo að göturnar voru illfærar enda voru allir íbúarnir horfnir eitthvert annað á þessum árstíma. Vissulega var líf í borginni á sumrin en á veturna fóru Íslendingar til hlýrri landa. Aðeins fólk eins og ég ráfaði um draugabyggðina til að ganga úr skugga um að stormar yllu ekki skemmdum.
Ég gekk upp Skólavörðuholtið. Snjórinn var næstum metri á dýpt svo þrúgurnar komu sér vel. Frostið beit í kinnarnar og loftið var svo þurrt að mig klæjaði í nefið. Líklega spyrja margir sig líklega af hverju ég tók að mér þessa vinnu. Nú, launin voru góð og ég kunni vel við einveruna. Samstarfsmenn mínir voru samt ekki upp á marga fiska. Það er alveg sérstök týpa sem sækir um að verða landamæravörður nú til dags. Að vísu þurfti ég bara að umgangast samstarfsfélaganna á morgnana áður en við héldum af stað og á kvöldin þegar við komum aftur í stjórnstöðina. Eftir vaktina fékk ég svo að vera í friði inni í herberginu mínu en stundum þurfti ég að læsa að mér þegar karlarnir voru orðnir fullir og graðir.
Sumarfríin voru frábær, enda næstum fjórir mánuðir að lengd. Þetta var helsti kosturinn og það sem ég hugsaði um á snjóþungum vetrardögum eins og þessum. Síðast þá fór ég til Mars. Það hafa ekki allir efni á því. Flestir láta sig nægja að ferðast um þennan hnött þar sem allir áfangastaðir eru innan seilingar en fáir kjósa ferðast meðal stjarnanna í köldum málmhylkjum. Þar á meðal er ég. Rauða eyðimörkin var ólík þeirri hvítu sem blasti við mér nú.
Skaflinn fyrir framan Hallgrímskirkju náði næstum hálfa leið upp turninn. Ef ég ætlaði inn þyrfti ég að fara bakdyramegin. Aftan við styttuna af Leifi Eiríkssyni var hliðið til New York. Það leit út eins og spegill sem flaut í lausu lofti. Ég velti fyrir mér hvort að snjórinn færi í gegnum ormagöngin. Mig grunaði ekki því að yfirborð hliðsins gáraðist ekki einu sinni í sterkustu vindhviðunum. Það var freistandi að stinga höfðinu í gegn bara til að sjá hvernig var hinu megin en það var stranglega bannað.
Stórborgin var samt svo stutt í burtu. Ég þurfti bara að taka eitt skref í gegnum hliðið og þá væri ég komin. Freistingin var því talsverð. Hún var enn meiri í Kringlunni, því þar var hliðið til Sydney. Þar var pottþétt glampandi sumar og sól akkúrat núna. Stundum hurfu landamæraverðir mínir í stutta stund, þeir létu sig hverfa í dagsstund til einhverra sólarlanda en það komst alltaf upp. Vaktstjórinn okkar, Pétur, sá til þess. Hann hélt uppi járnaga þó hann færi ekki eftir öllum reglum sjálfur. Ég varð aftur á móti að gera það og horfði því ekki of lengi á hliðið. Næsta sumar gæti ég farið hvert sem er.
Ég gekk í kringum kirkjuna. Sterkur vindstrengur kom austan úr borginni þannig að skafrenningur fyllti öll mín vit. Með herkjum komst ég að bakdyrunum og lagði öryggiskortið upp að hurðinni. Það small í lásnum og ég gekk inn. Samstundis kviknuðu öll ljósin. Ég kveikti á tölvunni í skíðagleraugunum mínum og opnaði síðustu skilaboð. Samkvæmt þeim þá var gluggi brotinn í miðju kirkjuskipinu. Þetta passaði við hitastigið inni kirkjunni sem var óvanalega kalt. Ég tók fjögur viðgerða vélmenni upp úr bakpokanum og setti þau á gólfið. Hvert þeirra var svartur ferningur með hjólum og þyrluspöðum. Það tók augnablik að forrita þau með spjaldtölvunni en svo flugu þau af stað og hófust handa við að loka fyrir gatið. Á meðan gat ég notið stundarinnar. Ég tók af mér snjógleraugun og lagðist á gólfið. Ég naut þess að vera inni í birtunni. Ótrúlegt hvað upplýst salir eru dásamlegir í skammdeginu.
Vélmennin píptu og lentu á gólfinu eftir að viðgerðum var lokið. Þau voru alltof fljót fyrir minn smekk. Ég hefði auðveldlega getið verið þarna í klukkutíma í viðbót. Ég gekk frá vélmennunum og setti aftur upp hlífðarbúnaðinn. Næsta verkefni beið mín. Samkvæmt spjaldtölvunni hafði tré fallið á hús í Fjólugötunni svo ég varð að halda áfram.
Ég gekk að altarinu og heyrði brak fyrir aftan mig. Hljóðið var of lágt til að vera út af vindinum. Ég lagði aftur frá mér bakpokann og setti upp snjógleraugun. Ég kveikti á hitamyndavélinni í þeim og sneri mér hægt í átt að bekkjunum. Myndin í gleraugunum varð eins og blanda af mismunandi bláum litum en í miðjum salnum var rauð klessa. Þetta var manneskja. Kannski tvær.
„Hver er þarna?“ kallaði ég en enginn svaraði. Ég reyndi aftur á ensku og ekkert heyrðist. „Ég er með byssu,“ sagði ég á ensku. Auðvitað var það ekki satt en á svona stundum var gott að vera var um sig.
Tvær hendur birtust milli bekkja aftarlega í kirkjuskipinu. Þær voru grannar með þeldökka húð. Fljótlega birtist höfuð af manni eða réttar sagt dreng. Hann gat ekki verið mikið eldri en tólf ára, með þykkt snöggklippt hár og kinnfiskasogið andlit. Við hlið hans stóð upp stúlka sem var kannski fimm ára. Hún var með hárið í tveim fléttum og bollukinnar. Þau voru lík, ábyggilega systkini.
„Þetta er allt í lagi,“ sagði ég á ensku. Ég tók af mér snjógleraugun og gekk nær. Þau voru bæði klædd í þykkar peysur en var augljóslega kalt. „Ég ætla ekki að gera ykkur mein. Eru þið svöng?“ Ég opnaði bakpokann og tók upp tvö orkustykki. Strangt tiltekið var bannað að gefa flóttafólki mat en enginn þurfti að komast að þessu.
Stúlkan leit á bróður sinn sem kinkaði kolli. Hún hljóp til mín, greip orkustykkin og hljóp síðan aftur til baka og rétti bróður sínum bæði. Strákurinn hámaði annað í sig á mettíma en neitaði að taka við hinu. Stúlkan otaði því samt áfram að honum. „Þú verður að borða, ég get ekki fengið allt.“
„Þetta er allt í lagi, ég á fleiri,“ sagði ég.
Strákurinn lét ekki segja sér þetta tvisvar og hámaði seinna orkustykkið í sig. Þau settust á bekkinn og fylgdust grannt með mér er ég kom nær. Ég hefði átt að láta stjórnstöðina vita af þessu um leið en hvað gátu þessi krakkagrey gert. Ég gat í það minnst verið góð við þau í augnablik. „Ég heiti Kristín,“ sagði ég og sýndi þeim á mér hendurnar.
„Símon,“ sagði strákurinn, „og þetta er Anna systir mín.“ Hann benti á stelpuna.
„Hæ,“ sagði hún og vinkaði.
„Komið þið í gegnum hliðið?“ spurði ég og rétti þeim tvö orkustykki til viðbótar. Strákurinn hámaði sitt þriðja á meðan stelpan opnaði bréfið róleg og tók lítinn bita.
Strákurinn kinkaði kolli. „Við stálumst í gegn. Það voru óeirðir í næstu götu svo að verðirnir sáu okkur ekki.“
„Óeirðir?“ Fjallað var um vatnsskortinn í Philadelphia á fréttaveitunum en það var ekkert skrifað um vandamál í New York.
„Já, út af kosningunum.“ Ég hafði heldur ekki heyrt af þeim. Það var eins og ég væri algerlega einangruð frá umheiminum í þessu vetrarríki. Ég bað Símon um að segja mér meira af sögu þeirra.
Þau voru fædd og uppalin í Bronx hverfinu en þar hafði ríkt mikil hungursneyð síðustu ár. Ástandið var orðið svo slæmt að múgur fólks réðst á dýragarðinn og slátraði dýrunum. Ég gat varla ímyndað mér það. Hvernig hafði æstur múgur eiginlega yfirbugað ljón eða fíl og hvað þá étið þau. Símon hafði sjálfur náð legg af antilópu. „Ég get ímyndað mér að sjálfdauð belja smakkist betur,“ sagði hann en þetta var það síðasta sem hann hafði borðað og það voru rúmlega fjórir dagar síðan. „Ég sá samt alltaf til þess að Anna hefði eitthvað að borða,“ sagði hann. „Einhver varð að gera það og við eigum engan annað að. Pabbi dó fyrir nokkrum mánuðum og mamma yfirgaf okkur eftir að Anna fæddist.“
Þetta var ótrúlegt. Bandaríkin voru vissulega ekki ríkasta land í heimi en þau voru samt hluti af Vesturveldum og lifðu á fornri frægð. Hvernig var eiginlega ástandið í fátækari löndum eins og Bretlandi ef þetta var staðan í New York? Ég vildi ekki ímynda mér það.
„Eftir þetta vissi ég að það var aðeins tímaspursmál,“ sagði Símon. „Við Anna þurftum að komast eitthvert annað. Alveg sama hvert.“ Hann vissi að hliðið til Íslands væri illa varið og eftir kosningarnar mynda allt fara til fjandans. „Það var að minnsta kosti vaninn,“ sagði hann. „Annað hvort fjölmennti fólk út á götu til að mótmæla eða fagna eftir að úrslitin voru tilkynnt.“ Símon hafði því beðið við hliðið með systur sinni og stolist í gegn þegar verðirnir voru annars hugar.
„Það er aldeilis sagan,“ sagði ég og hugsaði um hliðið fyrir framan kirkjuna. Það voru ábyggilega milljón manns sem biðu hinu megin og vildi komast í gegn. Hér var nóg húsnæði enda allir farnir til sólarlanda. Kannski væri hægt að hjálpa fólkinu þó það væri ekki nema í nokkra mánuði en Íslendingarnir myndu aldrei samþykkja það. Þeir myndu frekar brenna hliðið en að hleypa flóttafólkinu í gegn. Íslenska menningu varð að gæta. Ég gat svo sem skilið það sjónarmið þó ég væri ósammála því en það var svo margt annað hægt að gera.
Síminn í eyranu pípti. Ég kom við eyrnasnepilinn til að svara. „Kristín.“ Símon virtist ætla að segja eitthvað en ég lyfti upp vísifingri til að skipa honum að hafa hljótt.
„Hæ, Kristín, þetta er Pétur,“ heyrðist á hinum enda línunnar. „Við vorum að fá skilaboð frá New York um óheimilaða ferðalanga. Ertu ekki enn þá upp í Hallgrímskirkju?“
„Jú, en ég hef ekki orðið var við neitt,“ sagði ég. „Er Kaninn ekki bara að vera vænisjúkur eins og vanalega?“
„Líklegast,“ sagði Pétur, „en mér þykir betra að vera viss. Við erum fjórir á leiðinni til þín. Gengur betur að leita ef við erum fleiri.“
„Ókei, takk fyrir það,“ sagði ég. „Hvenær er von á ykkur?“
„Svona korter,“ sagði hann. Ég horfði á krakkana. Hvar gat ég falið þau? Ef Pétur myndi finna Símon og Önnu yrði þeim fleygt í gegnum hlið án þess að spyrja kóng né prest.
„Frábært,“ sagði ég og kvaddi.
„Við viljum sækja um pólitískt hæli,“ sagði Símon og brosti. Það var gott og blessað en enginn myndi taka mark á þeirri umsókn hér. Mögulega myndi einhver kíkja á það að sumri til en þau fengju samt alltaf neitun. Ég kinkaði því kolli og lét eins og allt væri í besta lagi.
Best væri að koma þeim til Yakutsk í Síberíu en hliðið þangað var upp í Grafarvogi og snjósleði minn var á Lækjartorgi. Ég gæti aldrei komið krökkunum niður Skólavörðuholtið í tæka tíð án snjóþrúga og auk þess myndu þau frjósa í hel á leiðinni í gegnum borgina. Pétur kæmi aftur á móti á snjóbíl sem ég gæti notað. Það þyrfti samt að koma krökkunum inn í bílinn án þess að hinir sæju til. Ég settist niður við hliðina á þeim og hugsaði. Pétur og hinir landamæraverðirnir voru með hitamyndavélar svo Símon og Anna gátu ekki falið sig inni í kirkjunni eða í nærliggjandi húsum. Það hlaut samt að vera til einhver lausn.
Ég setti upp gleraugun og kveikti á hitamyndavélinni. Allt í kringum okkur var kalt og bláleitt nema á annarri hæðinni var orgelið gulleit eins og það væri hitað upp. Það var kannski ekki jafn heitt og mannverur en systkinin gætu falið sig þarna, að minnsta kosti til að byrja með. „Fylgið mér,“ sagði ég og stóð á fætur. Þau eltum mig upp stigann og næstu hæð kirkjunnar. Ég benti þeim á að setjast við orgelið sem var þakið hitateppum. „Þið þurfið að bíða hér.“
„Af hverju?“ spurði Anna. „Getum við ekki fengið pólitískt hæli?“
„Ekki strax,“ svaraði ég, „en ég er að vinna í því.“ Ég brosti mínu breiðasta og reyndi að hughreysta hana.
Símon ruglaði hárinu hennar. Síðan leit hann á mig og kinkaði kolli til að sýna þakklæti sitt. Ég hljóp aftur niður í kirkjuskipið, tók saman dótið mitt og fór út. Veðrið hafði breyst á þessum stutta tíma. Allt var orðið stillt og himinninn heiðskír. Þegar ég kom að hliðinu til New York sá ég ljósin á snjóbíl sem keyrði upp Skólavörðustíginn. Drunurnar úr vélinni ómuðu um hverfið. Ekki það að mótorinn var nánast hljóðlaus en Pétur hafði keypt eitthvað tæki sem lék eftir hávaða bensínvélar. Hann hélt því fram að flóttafólk væri hrætt við lætin sem var líklegast satt. Að minnst kosti líkaði mér nægilega illa við þessi óhljóð.
Ég settist niður við hliðina á Leifi Eiríkssyni og beið. Snjórinn frussaðist upp með fram beltunum á snjóbílnum sem hægði á sér þegar ljóskeilurnar lentu á mér og stoppaði svo á gatnamótunum fyrir framan kirkjuna. Bílstjórahurðin opnaðist og út steig feitlaginn maður. Hann stökk niður af beltinu. Snjórinn náði honum næstum upp í klof. Pétur lét þetta ekkert á sig fá og óð skaflinn til mín.
„Það er blessuð blíðan,“ sagði hann. Klukkan var farin að ganga ellefu og það var byrjað að birta.
„Það fer að hvessa seinni partinn,“ sagði ég. „Eins og alla daga.“
„Ertu búin að finna eitthvað?“ Hann tók af sér snjógleraugun og nuddaði sér milli augnanna. Nef hans var óeðlilega bogið eins og það hefði brotnað ítrekað og andlitið tekið af drykkju.
„Nei, en ég bara búin að fara í gegnum kirkjuna og þar er enginn.“
„Andskotinn,“ tautaði hann og veifaði hendinni að snjóbílnum. Þrír aðrir stigu út. Einn stökk upp á þakið og opnaði tengdamömmubox sem var þar á meðan hinir tveir náðu í fimm kassa af drónum og lögðu á jörðina.
„Varla er allt þetta nauðsynlegt?“ spurði ég. „Ég meina, drepst fólkið ekki bara úr hungri eða kulda ef við látum það í friði.“
„Bara ef það væri svo einfalt,“ sagði Pétur. „Það er kaldara í New York en hér og flestar matvörubúðirnar eru fullar af mat, þannig að úrræðagott fólk getur alveg komist af í nokkra daga eða mánuði.“
Tvö vélmenni stóðu upp úr tengdamömmuboxinu og stukku niður á jörðina. Bæði voru með tvær hendur og tvo fætur en það var eina sem var líkt með þeim og mönnum. Fjögur rauð ljós kviknuðu á svörtum búkum þeirra, þau fóru niður á fjóra fætur og hlupu síðan af stað. Ég horfði á þau hverfa einhvers staðar norðan megin við kirkjuna.
Suð heyrðist frá drónunum sem svifu upp frá kössunum í tuga vís. Þeir dreifðu sér úr sér í þrjú hundruð metra hæð og mynduðu eftirlitsnet. Eftir að þessu var lokið stóðu hinir landamæraverðirnir við snjóbílinn eins og illa gerðir hlutir. Pétur leit um öxl og kallaði til þeirra. „Væri ekki fínt að leita aðeins betur niður á Laugavegi? Þið gætuð kannski fundið bjór handa okkur í leiðinni.“ Hinir þrír gáfu hver öðrum fimmu og hlupu svo niður í Skólavörðustíginn. Ég hafði oft séð þetta áður. Hvert einasta tækifæri var notað til að verða sér út um meira áfengi enda vetrarbyrgðir í stjórnstöðinni löngu búnar. Landamæraverðir fóru því ránshendi um verslanir í leit að meira. Í öll þessi ár hafði engin kvartað. Kannski var Íslendingum bara sama.
Pétur sneri sér að mér. „Vélmenni finna þetta lið, tekur kannski einhvern tíma en það hefst. Eigum við ekki að tylla okkur inn í bíl og hlýja okkur?“
Ég kinkaði kolli. Hversu lengi myndu vélmennin ráfa um Skólavörðuholtið áður en þau myndu leita í kirkjunni? Ég steig upp á beltið á snjóbílnum og settist inn. Fyrir ofan framrúðuna var röð af skjám sem sýndu hitamyndir frá drónunum. Allt virtist vera blátt nema einstaka þröstur sem fikraði sig milli trjánna. Myndin af Hallgrímskirkju var líka björt. Ég hafði passað mig á að skilja eftir kveikt á öllum ljósum inni og svo voru það líka hitateppin á orgelinu. Húsið var því eins og gul klessa í bláu hafi. Það var auðvelt að sjá Símon og Önnu ef maður gaf sér tíma en Pétur virtist ekki nenna því. Ég vonaði að hann treysti mér en var viss um að ástæðan væri frekar leti.
„Bara ef vélmennin mættu skjóta þessa flóttamenn,“ sagði hann. „Þá gætum við bara farið heim. Við gerðum það í gamla daga, vissirðu það?“ Ég hafði heyrt af því en áleit það bara vera gróusögur. Hann tók upp vasapela, fékk sér sopa og bauð mér. Ég hristi höfuðið og hélt áfram að horfa á skjáina. „Ertu viss, þetta yljar.“ Hann fékk sér sopa.
Hvorugt okkar sagði nokkuð í drykklanga stund. Sólin gægðist yfir sjóndeildarhringinn.
„Hvaðan ertu aftur?“ spurði hann.
„Ég er fædd og uppalin í Varsjá en þú?“
„Quebec. Þar er líka skítkalt.“ Hann fékk sér annan sopa og benti á myndina af kirkjunni á skjánum. „Þú gleymdir að slökkva ljósin.“
Ég svaraði ekki. Ég var of upptekinn að fylgjast með Símon og Önnu. Þau voru augljós bara ef maður horfði nógu vel. Anna hreyfði sig meira að segja reglulega. Það var ekki við öðru að búast af svona lítilli stúlku. Ég fann hvernig mér hitnaði.
„Jæja, ætli að það sé ekki best að ég slökkvi þau,“ sagði Pétur og fékk sér stóran sopa af vasapelanum. „Djöfull yljar þetta.“
„Nei, ég skal fara,“ sagði ég og brosti. „Það var ég sem skildi eftir kveikt.“
Hann svaraði ekki, opnaði og steig út. „Nei, vertu hér. Mér finnst gott að fá mér göngutúr.“
„Ég kem með þér,“ sagði ég og teygði mig að hurðinni.
„Nei, einhver þarf að fylgjast með myndavélunum,“ sagði Pétur og benti á skjáina. „Ekki það að vélmennin eiga eftir að finna þetta lið innan tíðar.“ Hann steig af beltinu og gekk í átt að kirkjunni. Ég horfði í kringum mig. Hvað gat ég gert? Auðvitað mynda hann finna krakkanna og auðvitað myndu þau segja til mín. Þeim yrði svo hent aftur til New York og ég yrði rekin. Fjandinn.
Á skjánum birtist Pétur sem rauð klessa sem gekk rólega með fram kirkjunni. Ég horfði í kringum mig. Það var ekkert inni bílnum nema einhver tæki og tveir sjúkrakassar. Ég rótaði í draslinu en fann ekkert annað nema brennivín. Það var það eina sem samstarfsfélagarnir mínir hugsuðu um. Pétur gekk inn um bakdyrnar. Ég fylgdist með honum fara inn í kirkjuskipið. Ljósin slokknuðu. Hvert þeirra var nú bara lítill gulur punktur í hitamyndavélinni en Pétur var enn augljós rauð klessa. Hið verra var að krakkarnir voru nú enn augljósari. Annað hvort myndi hann sjá þau núna eða þegar hann kæmi aftur í snjóbílinn. Hvort sem var þá var ég í djúpum skít.
Ég opnaði brennivínsflöskuna og fékk mér sopa. Pétur gekk rólega inn kirkjuskipið. Hvað var hann að gera þarna inni í myrkrinu. Bara ef hann kæmi út aftur. Ég fékk mér annan sopa. Kannski gæti ég drukkið nógu mikið til að sofa hjá honum. Ég sá fyrir mér drykkjuþrútið andlitið hans og fékk hroll. Ekkert magn af áfengi gæti látið mig gera það. Ég hugsaði um framtíðina. Ég yrði líklega send aftur heim til Póllands, sem var ekki slæmt. Aftur á móti þyrfti ég að búa heima hjá mömmu og pabba. Ég sór þess að gera það aldrei aftur þegar ég flutti út. Þau voru líka stolt af mér. Ég var með góða vinnu þrátt fyrir að vera ómenntuð, þannig var afar sjaldgæft í þessum heimi. Það færi með þau ef ég kæmi heim með skottið milli lappanna.
Pétur veifaði höndunum í átt að orgelinu. Ég hélt niður í mér andanum. Sekúndurnar liðu. Anna færði sig ögn. Aftur veifaði Pétur höndunum. Ég reyndi að ímynda mér hvað hann væri að gera. Það kom bara eitt til greina, hann var búinn að finna þau. Ég starði á myndavélina og beið. Loks stóð Símon á fætur. „Andskotinn,“ sagði ég og renndi höndunum niður andlitið.
Þetta var búið. Ég rótaði aftur í bílnum og opnaði sjúkrakassana. Það var ekkert í þeim fyrsta en í þeim seinni var neyðarblys. Ég gæti neytt Pétur í gegnum hliðið til New York. Hann yrði strax handtekinn og fengi ekki að koma til baka fyrr en eftir nokkra klukkutíma þegar það væri búið að staðfesta skilríki hans. Á meðan gæti ég keyrt krakkana upp í Grafarvog. Við gætum svo öll beðið um hæli í Yakutsk. Ég myndi auðvitað missa vinnuna en ég þyrfti ekki að flytja aftur til mömmu og pabba og gæti bjargað krökkunum. Það var eitthvað. Ég var hvort eð er búin að glata vinnunni.
Ég greip neyðarblysið og hljóp út. Pétur gekk með fram kirkjunni og krakkarnir á undan honum. Anna hélt utan um axlirnar á sér og skalf. Hún hrasaði í djúpum snjónum en Pétur rykkti í hárið á henni og dró hana á fætur. Símon sagði eitthvað, ég heyrði ekki hvað og Pétur otaði hnefanum framan í drenginn. Ég opnaði neyðarblysið og faldi það við bakið á mér.
„Sjáðu hvað ég fann,“ sagði Pétur og ýtti í Símon. „Kristín mín, varla voru þessir krakkar starfsins virði.“ Hann hristi höfuðið. „Ég meina hvað ætlaðirðu eiginlega að gera? Fara með þau upp í Grafarvog?“
Ég beindi neyðarblysinu að honum. „Nákvæmlega og það er ennþá áætlunin.“
Pétur horfði á mig og andvarpaði. „Hvað ætlarðu að gera, skjóta mig?“ Hann hló. „Svona hættu þessari vitleysu, ef þú sefur hjá mér skal ég leyfa þér að halda starfinu. Hendum krökkunum í gegn og gleymum að þetta hafi gerst.“
„Nei,“ sagði ég og veifaði blysinu í átt að hliðinu til New York. „Þú ferð í gegnum hliðið og við förum upp í Grafarvog.“
Hann andvarpaði. „Ekki svo vitlaus áætlun en það er smá galli. Heldurðu að Íslendingarnir leyfir þér bara að komst upp með þetta?“
Ég hafði ekki hugsað út í það. Alveg sama hvar ég byggi þá myndi einhver Íslendingur mæta með rukkun og heimta að ég myndi borga fyrir notkunina á hliðunum. Það voru þeir sem höfðu fundið þau upp og þeir leyfðu engum að ferðast ókeypis. Hvernig annars gat þessi litla þjóð skilið eftir heilt land ónotað í átta mánuði á ári. Það kostaði pening og Íslendingar áttu nóg af þeim.
„Farðu í gegnum hliðið,“ sagði ég.
„Haltu kjafti.“ Pétur greip Önnu og hélt henni þétt upp að sér. „Fyrr hálsbrýt ég þennan krakkafjanda.“
„Nei!“ öskraði Símon.
Pétur lagði höndina upp að hökunni á Önnu. Ég vissi ekkert hvað ég átti að gera. Stúlkan horfði á mig með tárfullum augum og allt í einu varð þetta augljóst. Ég togaði í spottann á neyðarblysinu. Skyndilega varð allt baðað í rauðri birtu. Ég sá ekkert. Anna öskraði. Varla hafði ég hitt í hana. Ég skýldi á mér augun og reyndi að sjá. Höfuðið á Pétri var alelda og í miðju þess var neyðarskotið. Það var eins og skærrauður kolamoli. Símon greip systur sína og þau hlupu til mín. Pétur stóð í nokkrar sekúndur og datt svo í snjóinn.
„Hvað í andskotanum,“ sagði einhver á ensku fyrir aftan mig. Grönn kona í rytjulegri dúnúlpu með hvíta ullarhúfu stóð við hliðið. Yfirboð þess gáraðist. Hún hafði komið frá New York. Við horfðum hvor á aðra í góða stund.
„Hvar eru hliðverðirnir?“ spurði ég. Símon og Anna földu sig á bak við mig.
„Þeir létu sig bara hverfa,“ sagði konan. „Ert þú landamæravörður?“
Ég kinkaði kolli. „Þér er samt velkomið að koma hingað. Hann hefði bannað það en—“ Ég leit um öxl. „Hann hefur víst lítið að segja núna.“
„Má ég ná í fleiri?“ spurði hún.
„Endilega,“ sagði ég. „Það er til nóg matur og öll húsin eru tóm.“
Hún sneri við og fór aftur í gegnum hliðið. Stuttu síðar byrjaði straumurinn. Okkur tókst að opna aðalinnganginn á kirkjunni en hún fylltist fljótt. Við fórum þá að finna pláss fyrir fólkið í nærliggjandi húsum. Þegar samstarfsmenn mínir komu til baka voru þúsundir komnar í gegnum hliðið. Þeir gátu því ekki gert neitt nema hjálpað. Enginn þeirra spurði hvað hefði komið fyrir Pétur. Við vorum þarna í marga daga, það virtist vera endalaus straumur af fólki en að lokum kláraðist hann. Við slökktum þá á hliðinu og á öllum hinum sem voru víðs vegar um landið. Við vildum ekki að neinn kæmi fyrr en flóttafólkið væri búið að koma sér fyrir.
Fyrsti Íslendingurinn steig á land fjórða maí. Við stoppuðum hann við landamæraeftirlitið í Reykjavíkurhöfn og útskýrðum að það væri því miður ekki pláss fyrir hann lengur. Landið var upptekið. Hann sneri því við alveg eins og allir hinir sem komu. Mér skildist að þau hefðu fundið sér annað heimili. Fréttamenn fóru svo að koma og erindrekar frá öðrum löndum. Þetta var víst merkilegt enda árhundruð síðan að land hafði verið hernumið og þetta var ekkert annað en innrás. Samt var bara eitt dauðsfall og ótal margir fengu betra líf.
Ég hugsa oft um Pétur og hvað honum hefði fundist um þetta allt. Líklegast hefði hann verið ósáttur því hann hugsaði bara um vinnuna en það var ekki lengur þörf á henni. Vissulega komu vetrarstormar árlega en borgin og landið allt var fullt af lífi alla daga ársins.
[hr gap=”30″]
Einar er fæddur í Reykjavík og uppalinn í Vesturbænum. Hann gaf út skáldsöguna Hvítir múrar borgarinnar árið 2013 og skáldsöguna Sýndarglæpir árið 2019. Auk þess hefur hann gefið út 15 smásögur frá árinu 2013. Árið 2017 lauk hann meistaranámi í ritlist frá Háskóla Íslands. Hann býr núna og starfar í Kaupmannahöfn ásamt konu og dóttur.