Rithornið: Eftir flóðið

Rebekka Sif Stefánsdóttir

Eftir flóðið

Eftir Janus Christiansen 

 

Vegna stöðugra stríðserja mannkyns og ótal annarra synda ákváðu guðirnir að halda guðaþing á himnum og gera eitthvað í málunum í eitt skipti fyrir öllu. Ýmsar hugmyndir voru reifaðar. Þór hóf hamarinn sinn á loft og sagðist geta greitt Jörðinni eitt bylmingshögg og þyrlað mannkyninu upp í loft eins og rykögnum, en Óðni leist ekkert á ungæðisháttinn í Þór og bað hann vinsamlegast að leggja hamarinn frá sér um stundarsakir og hafa sig hægan á meðan hans eldri menn fyndu farsæla lausn á þessum leiðindamálum. Algjör tortíming kæmi ekki til greina. Að lokum sættust guðirnir á úrlausn Njarðar, sjávarguðsins mikla, sem gekk út á að drekkja heiminum í risastórri flóðbylgju, en hlífa samt einu pari, karli og konu, til að viðhalda mannkyninu. Sjávarguðinn hellti úr fötu sinni mitt ofan í víðfeðmasta haf jarðar svo gríðarstór flóðbylgja gáraðist á hafinu miðju og stefndi í allar áttir líkt og þegar steini er kastað í lygna tjörn. Njörður bað Skaða, konu sína, að sjá til þess að risabárur hafsins skoluðu einu pari, karli og konu, upp á þurrlendi svo mannkynið skyldi nú ekki deyja út.

En það var galli á gjöf Njarðar. Eftir flóðið sátu eftir ein kona og tveir karlar, í stað eins, á hæstu hásléttu jarðar. Karlarnir fóru strax að deila um hvor þeirra væri nú hinn eini sanni útvaldi á meðan konan reyndi hvað hún gat að stilla til friðar. En hún mátti sín lítils þegar hnefarnir fóru á loft. Eftir undangengnar stríðshörmungar höfðu vonir hennar kviknað á nýjan leik, en nú helltust yfir hana gífurleg vonbrigði og enn meira vonleysi en fyrir flóðbylgjuna miklu. Hún dró sig í hlé, hætti öllum afskiptum af þessum hellisbúum, og settist niður með hnén upp að bringu og horfði dreymin út á víðáttur sléttunnar. Um stundarsakir hafði hún loks séð fyrir sér langþráðan frið, en svo … þetta: tveir karlar að metast. Guðirnir ráku upp stór augu þegar þeir sáu hvað gekk á þarna niðri og vissu ekki sitt rjúkandi ráð. Í sömu andrá beindu þeir augum sínum að Nirði sem sat sneyptur við guðaborðið og yppti bara öxlum án þess að mæla eitt aukatekið orð. Þó grunaði hann að Skaði, kona sín, hefði átt sök á máli; að hún hefði gert þetta af ásettu ráði til að ná sér niðri á honum eftir allar nístingsköldu og rennvotu næturnar sem hann bauð henni upp á. Það hafði oftar en einu sinni kastast í kekki milli þeirra út af heimkynnum hans en aldrei gaf hann sig. Hvernig átti hann, sjávarguðinn mikli, að lifa á þurru landi í heitu loftslagi, víðsfjarri sjávarilminum? Honum hryllti við tilhugsuninni. Hann leit í kringum sig í von um að finna konu sína, en hún virtist á bak og burt. Hann vissi ekki hvað hann átti til bragðs að taka og andvarpaði því í staðinn og starði hálfskömmustulegur niður í gaupnir sér.

Hér stefndi allt í óefni. Á sléttunni hnakkrifust karlarnir og spottakorn frá sat konan dauf í dálkinn og vildi ekkert með þá tvo hafa. Hún var greinilega búin að gefast upp á þeim og framtíð mannkyns var í húfi.

Mennirnir tveir skiptust á hrakyrðum og hnefahöggum í deilu sem stóð linnulaust yfir í sjö daga og sjö nætur. Hvorugur gaf svo mikið sem þumlung eftir. Báðir töldu þeir sig vera þann útvalda og á áttunda degi, þegar allt virtist ætla að stefna í eitthvert óásættanlegt jafntefli, ákváðu þeir að heyja einvígi til að fá úr þessu skorið fyrir fullt og allt. Þeir sóttu hestana tvo sem skolað hafði verið upp á sléttuna og náðu sér í sitthvorn rekaviðardrumbinn. Þeir ætluðu að útkljá sín mál í burtreiðum. Á meðan þeir tálguðu drumbana í beittar lensur skeggræddu guðirnir um hvað skyldi nú til bragðs taka svo leysa mætti þennan hnút.

„Aha!,“ hrópaði Njörður, sjávarguðinn mikli, sem var votur um hárið og með eldrauðar kinnar. Hann skaust eins og eldibrandur úr sæti sínu með vísifingurinn út í loftið og sagði hátt og snjallt: „Ég hef fundið lausn á þessari þaraflækju!“ Ráðalausir guðirnir litu á hann án þess að mæla orð. Njörður kallaði á son sinn, frjósemisguðinn Frey, og bað hann um að töfra fram náttúruna í þessum aumingjans sálum þarna á jörðu niðri. Fá þær til að elskast á ný. Frey var ekki til setunnar boðið, hann var áfjáður í að sanna sig fyrir föður sínum og hinum guðunum, og rauk því af stað til jarðar með sverðið á lofti. Hann reyndi allt hvað hann gat til að tendra frjósemisbálið innra með þeim en ekkert virkaði. Hvorki myndarlegt sverðið né óviðjafnanleg fegurð hans hafði svo mikið sem minnstu áhrif. Það var eins og að kasta sandkorni í úfinn sjó. Daufur í bragði sneri Freyr til baka og sagði guðunum tíðindin, að hann gæti aðeins haft áhrif á ytri náttúruna, jörðina sjálfa, en ekki hina innri náttúru mannsins. Aftur stungu guðirnir saman nefjum og skeggræddu málin.

Á jörðu niðri voru karlarnir tveir að leggja lokahönd á lensurnar. Hér átti að berjast upp á líf og dauða. Þá hrópaði Njörður aftur upp yfir sig: „Aha! Ég hef fundið lausn á þessari marglyttustöppu!“ Guðirnir hættu að skrafa og horfðu enn og aftur á útitekinn sjávarguðinn. Njörður kallaði á dóttur sína, ástargyðjuna Freyju, og bað hana um að kveikja með þeim ástarbál. Freyja vildi allt gera til að þóknast elskulegum föður sínum og sótti sínar bestu gullörvar. Guðunum leyst ágætlega á ráðahaginn og veltu fyrir sér hvernig skyldi nú fara að, en þá ráku þeir augun í það sem var í þann mund að fara fram á jörðu niðri. Mennirnir voru komnir á hestana og lagðir af stað úr sitthvorri áttinni með lensur beittari en nokkurt spjót. Guðirnir tóku andköf og í óðagotinu kallaði skapari allra guða: „Flýttu þér, Freyja, flýttu þér! Spenntu bogann og skjóttu örvum þínum.“ Freyja reif upp bogann og kom einni gullör fyrir. Hestarnir skeiðuðu fulla ferð fram og í írafárinu skaut hún einni ör, reif upp aðra í sömu andrá og hún hafði sleppt þeirri fyrri, miðaði hvað hún gat og sleppti. Svúshh og aftur svúshh heyrðist þegar Freyja sleppti örvunum. Það fór ekki betur en svo að önnur örin geigaði en hin hitti lánlausa konuna og í sömu svipan mættust hestarnir og lensurnar stungust báðar í hjartastað mannanna tveggja og rifu þá á hol. Þeir lágu eftir óvígir á meðan konan yfirkomin af harmi, með ástarör Freyju standandi úr afturendanum, grét sáran yfir missinum.

Guðirnir stóðu á öndinni og eitt augnablik mátti heyra saumnál detta. Svo litu þeir til Njarðar, en hann hafði látið sig hverfa í allri ringulreiðinni.

Í örvæntingu sinni leituðu þeir á náðir seiðgyðjunnar. „Hvað getum við gert?“ spurðu þeir hana. „Ósköp fátt sem þig getið gert,“ svaraði seiðgyðjan ískrandi röddu. „En þið ættuð frekar að spyrja mig hvað það er sem ég geti gert.“ Guðirnir litu hver á annan og brún þeirra lyftist ögn. Kannski var þá til leið úr þessum ógöngum. Eftir stundarþögn spurðu þeir seiðgyðjuna: „Er það eitthvað sem þú getur gert?“ Íbyggin hrærði hún í potti sínum og guðirnir vissu ekki hvort hún hefði heyrt spurninguna eða væri að brjóta heilann yfir henni. Loks svaraði hún, eftir að því er virtist óbærilega langa þögn: „Það er hugsanlega eitt. En þá verðið þið að útnefna mig tímagyðjuna, hreyfiafl alls sem er.“ Guðirnir hvískruðu sín á milli. Þeir virtust efins, en heyrðu þá skyndileg angistaróp sem bárust frá jörðu niðri og varð litið til hinnar örvæntingarfullu konu. Hún stumraði yfir mönnunum tveimur og vætti þá tárum sínum svo þeir urðu álíka votir og sjálfur sjávarguðinn sem fór nú huldu höfði. Þegar allt kom til alls var það einvörðungu á valdi skapara alls sem er að uppfylla þessa ósk. „Gott og vel,“ svaraði yfirskaparinn með semingi. „Þú verður hér með útnefnd tímagyðjan og munt drottna yfir tímanum,“ sagði hann. „Abrakadabra. Ertu núna ánægð?“ sagði hann í kæruleysistón og hálfsár yfir því að þurfa að veita öðrum en sjálfum sér svona mikil völd. Það ískraði í seiðgyðjunni, sem nú var orðin tímagyðjan, og hófst hún handa við að búa til seyði sem gæti virkað á ástandið á jörðu niðri. Hún henti kynstrin öll af undarlegheitum ofan í stóran pott og hrærði í. Eftir stöðugar pottahræringar í átta daga og átta nætur kallaði hún guðina á fund sinn og rétti þeim pottinn með seyðinu. „Hellið þessu yfir heiminn,“ sagði hún og hélt á brott án frekari útskýringa. Guðirnir gerðu sem hún fyrirskipaði og helltu úr pottinum yfir heiminn. Fyrst um sinn virtist allt við sama heygarðshornið en skyndilega tók sólin að hægja á sér eins og hún gengi í gegnum ósýnilegt seigfljótandi síróp sem varð æ þykkara, allt þar til hún stöðvaðist rétt eitt augnablik áður en hún fór að snúast í hina áttina. Eins og gangverk klukku þegar tannhjólin fara að snúast í gagnstæða átt og vísarnir með. Eftir rúma átta hringi í kringum jörðina fór sólin aftur að hægja á sér þar til hún stöðvaðist á ný og hóf svo að snúast í rétta átt líkt og ekkert hefði í skorist. Guðirnir, steini lostnir, störðu bara á, löngu búnir að gleyma ætlunarverki sínu. Strítt hófatakið vakti þá til lífsins og einn þeirra kallaði: „Flýttu þér, Freyja, flýttu þér! Spenntu bogann og skjóttu örvum þínum.“ Í þetta sinn gafst Freyju rétt nægur tími til að miða og skjóta gullörvum sínum. Örvarnar hittu marks í afturenda reiðmannanna, rétt áður en lensur þeirra mættust. Þeir reistu þær snögglega upp í loft svo hvorugum varð meint af og er þeir riðu framhjá mættust augu þeirra eitt andartak og óútskýranlegir töfrar kveiktu bál innra með þeim. Þeir stöðvuðu hesta sína, hoppuðu af baki og gengu hröðum skrefum í átt til hvors annars. Þeir horfðu dolfallnir hvor á annan og litu ekki undan fyrir en þeir lygndu aftur augunum um leið og varir þeirra mættust í eldheitum kossi. Guðirnir fylgdust agndofa með. Óðinn hélt hann sæi ofsjónir, gapti af undrun og dró augað í pung, og Þór missti takið á hamri sínum sem féll niður til jarðar með þvílíkum dynk að þrumur heyrðust úr fjarska og allt lék á reiðiskjálfi. Sprungur mynduðust og eldgos urðu til. Regnúði fyllti loftið þegar Skaði, kona Njarðar, grét af hlátri, svo undurfagur og fullskapaður regnbogi myndaðist yfir sléttunni. Skjálftinn hristi sinnulausa konuna úr draumórum hennar. Hún leit í kringum sig, sá mennina tvo í ástaratlotum og vissi ekki hvort hún ætti að hlæja eða gráta. Ástfangna parið gaf umhverfi sínu engan gaum, hvorki hamförunum né konunni sem horfði stórundrandi á úr seilingarfjarlægð, heldur gengu þeir hönd í hönd undir regnbogann, til vesturs, í átt að sólsetrinu.

 

[hr gap=”30″]

 

Janus Christiansen útskrifaðist úr meistaranámi í ritlist árið 2015. Hann hefur starfað við þýðingar síðastliðin ár, aðallega nytjaþýðingar en hefur einnig prófað sig áfram í bókmenntaþýðingum. Þýðing eftir Janus hefur birst í Smásögur heimsins, Afríkusafninu.