Rithornið: Úthverfablús

Brot úr ljóðabókinni Úthverfablús

Eftir Sjöfn Hauksdóttur

1. maí

Skvísaður upp á nýjum sumardekkjum, umhverfisvænni en rétt áðan, þó tæplega, keyrir nettur fólksbíllinn niður ólétta konu og kolefnisjafnar þannig tilvist sína

 

Sumar

Það er ekki einu sinni sól
en henni var spáð fjandinn hafi það
og það er næstum 11 stiga hiti
svo við sitjum úti eins og pöddur
á ermalausum bolum og
með brett upp að hné
þvælum í okkur volgum bjór og niðurbrotnum pulsum
gnístum tönnum framan í blíðuna
og biðjum guðina sem reiddust okkur forðum um bleik nef og að hann
haldist þurr.

 

16. júní

Sumarið er komið
og rennur í stríðum rjómaístaumum niður fingur og andlit
ómálga barns í kerru

áður en það er snarlega þurrkað upp
með regnskýi, blótsyrðum
og einmana blautþurrku
í hendi olíuborinnar móður á leið á djammið.

 

[hr gap=”30″]

 

Sjöfn Hauksdottir er ljóðskáld, bókmenntafræðingur, listamaður og grimmur-bridge-spilari. Önnur ljóðabók hennar, Úthverfablús, kemur út í næstu viku hjá Kallíópu útgáfu. Útgáfuhóf bókarinnar verður haldið miðvikudagskvöldið 24. júní á Radisson 1919 kl. 19-21.

Lestu þetta næst

Nútíma Agatha Christie

Nútíma Agatha Christie

Gestalistinn eftir breska spennusagnahöfundinn Lucy Foley kom út í íslenskri þýðingu í apríl 2022....

Hvorki fugl né fiskur

Hvorki fugl né fiskur

Á dögunum las ég bókina American Wife eftir Curtis Sittenfeld sem vakti mikla athygli við útgáfu...