Rithornið: Klemma

Klemma

Eftir Sigríði Helgu Jónasdóttur

 

Það var eins og hjartað í mér væri að springa. Lungun réðu engan veginn við áreynsluna og mér leið eins og ég væri að kafna en ég hljóp samt áfram. Ég var óstöðvandi þrátt fyrir að vera ekki mikill hlaupari og feitari en hinir krakkarnir í bekknum. Ég hafði gengið heim til Kidda stuttu áður og notið fuglasöngsins og hreina loftsins á leiðinni. Náttúran var alveg gleymd núna því ég var of upptekin af því sem ég var að hlaupa frá.

Ég var ekki vön að hlaupa frá vandamálunum en í þetta skiptið leyfði ég mér það. Ég ætlaði bráðum að snúa við og gera eitthvað í málinu. Annað hefði verið rangt. En ég var ekki tilbúinn strax. Ég kæmist ekki upp með það sem ég hafði gert ef ég færi ekki til baka. Jafnvel þó ég færi til baka var óvíst að ég myndi sleppa án afleiðinga. Mamma myndi örugglega setja mig í áralangt straff og bróðir minn … hann myndi aldrei tala við mig aftur.

Ég spurði sjálfa mig hvað ég ætti að gera við líkið? Hvernig gæti ég bætt bróður mínum skaðann eða átti ég að láta sem ekkert hafði gerst og fela líkama Týs. Ég gæti bitað hann niður í smátt. Eða ég gæti fryst hann og fengið lengri tíma til að hugsa mig um. Kannski gerði ég of mikið úr málinu. Ef til vill væri best að ég myndi hringja í Kidda, eða mömmu og láta vita af því sem hafði gerst, taka afleiðingunum?

Hann réðst á mig, ég var bara að verja mig. Ég þekki nokkra sem eiga hunda og ég gæti gefið hundunum þeirra kjötið og beinin. Þá gæti ég látið hann hverfa.

Það var pollur á leið minni og í stað þess að stoppa stökk ég yfir hann. Sem betur fer, það hefði verið hættulegt að hlaupa ofan í pollinn því það var klaki undir vatninu. Ef ég hefði fótbrotið mig hefði ég ekki getað gert neitt til að redda mér úr vandræðunum. Eða hefði það sem gerðist kannski ekki virst eins alvarlegt út af fótbrotinu? Hvers vegna réðst hann á mig? Hann sem var alltaf svo góður.

Þegar ég gekk inn í litla húsið hans Kidda hafði ég engar áhyggjur, mig hlakkaði til að hitta Tý. Stóribróðir minn gat ekki sótt hann sjálfur vegna þess að hann var í sóttkví í Reykjavík og mátti ekki ferðast. Hann bað mömmu um að leyfa Tý að koma til okkar og gista yfir nóttina. Svo átti hún að leggja af stað með hann morgunninn eftir til Reykjavíkur. Ég átti meira að segja að koma með og halda á Tý í bílnum svo hann yrði rólegur.

Kiddi hafði fengið Geir, vin sinn til að passa á meðan, Kiddi og Elsa voru í útlöndum. En Geir gat ekki passað lengur. Mömmu þótti skrítið að Geir skildi ekki hafa viljað keyra Tý til okkar á leiðinni á Selfoss, en eins og hún sagði þá var ekkert við því að gera. Kiddi og kærastan voru í íbúðinni hennar. Þeim hafði þótt betra að vera saman þessar tvær vikur sem þau þurftu halda sig frá öðru fólki. Líklega myndi Kiddi flytja fljótlega til Reykjavíkur og búa með henni. Þá myndi litla húsið sem hann hefur búið í, síðan hann varð nægilega gamall til að búa einn, vera tómt. Ég var ekki nema tólf ára og yrði að bíða í nokkur ár eftir að fá að búa í húsinu. En ég hlakkaði til. Ég hafði lengi látið mér dreyma um að búa í þessu litla sumarhúsi á landareign foreldra minna. Húsinu fylgdi ekkert landsvæði nema lítill garður umhverfis það. Það hentaði bróður mínum vel því hann var ekki í búskap, hann var í svona heimavinnu, verktaki sem vann í gegn um tölvuna sína.

Ég var viss um að þetta yrði ekkert mál. Týr var alltaf svo ljúfur og góður við mig. Hann var með svolítil læti en aldrei það mikil að maður hefði ástæðu til að stressa sig.

Hann urraði á mig og beraði tennurnar þegar ég kom inn um dyrnar. Það var eins og hann hefði breyst í skrímsli á meðan Kiddi var í burtu. Ég varð dauðhrædd því ég hafði aldrei lent í því áður að það væri urrað á mig og ég skildi ekki hvað hafði breyst. Þegar hann stökk á mig og læsti tönnunum í úlniðinn á mér greip ég lítið handlóð sem bróðir minn hafði einhverra hluta vegna skilið eftir í forstofunni. Ég lamdi Tý með því og það small í höfðinu á honum. Hann féll í gólfið.

Það tók mig svolítinn tíma að átta mig. Það fyrsta sem ég gerði var að frjósa. Ég stóð þarna og horfið á hreyfingarlausan líkamann og óskaði þess að hann bærði á sér. Eina blóðið sem ég sá var úr sjálfri mér. Tý blæddi ekki því það kom engin rifa á húðina. Loksins þegar ég mundi hvernig ég átti að hreyfa mig hljóp ég út um dyrnar. Ég var næstum dottin niður tröppurnar því það var svo mikil hálka. Ég gleymdi að fara varlega.

Ég þurfti að ákveða hvað ég ætlaði að gera áður en ég færi heim. Mamma átti von á mér á hverri stundu. Líklega væri best að ég léti ekki sjá mig, ég myndi strjúka að heiman og enginn gæti verið reiður við mig því ég færi farin. Ég myndi hunsa skilaboðin og hringingarnar frá mömmu og hún myndi sjálf fara að sækja Tý.

Átti ég þá að skilja hann eftir og leyfa mömmu að finna hann? Eða hefði ég átt að láta hann hverfa svo hún héldi að hann hefði strokið? Ég hefði líka getað sagt við mömmu að hann hafi verið dauður þegar ég kom og þá væri engin ástæða til að keyra alla leið til Reykjavíkur með hann í bílnum. Kiddi myndi halda að Geir hafi drepið hann.

Aumingja Kiddi, ég veit að hann elskaði Tý. Þeir voru eiginlega alltaf saman og Kiddi sá til þess að honum liði vel. Hvað skildi hann vilja að ég gerði við Tý? Hefði ég átt að grafa hann? Eða frysta svo Kiddi geti gert það sjálfur þegar hann kæmi heim?

Það var risastór hálkublettur á malarveginum sem ég hljóp eftir. Ég varð annað hvort að beygja fram hjá honum og halda áfram eða snúa við og hlaupa aftur að húsinu þar sem líkið var. Ég valdi að hlaupa áfram.

Leiðin að húsinu hans Kidda var lengri en ég var vön að ganga en mamma sagði að ég hefði gott af því. Svo þurfti Týr líka göngutúr áður en hann myndi gista hjá okkur. Svona grey þurfa hreyfingu annars verða þeir svo leiðinlegir. Mamma var viss um að hann myndi væla alla nóttina ef hann fengi ekki göngutúr. Ég leit á handlegginn á mér á hlaupunum og sá að það lak blóð niður úlnliðinn og fram á fingurna á mér. Mér brá því ég fann ekki fyrir verkjum og hélt að sárin væru ekki svo djúp.

Áður en ég vissi af var ég komin heim á hlað og hugsaði með mér að það væri best að ég stoppaði og fengi mér að borða. Ég var svöng eftir allt hlaupið og svo langaði mig líka í sturtu. Ég þyrfti að setja eitthvað yfir sárin. Ég myndi fara til baka og redda þessu með Tý seinna. Kiddi og mamma þurftu ekki að vita af honum strax. Kannski var líka best fyrir Kidda að koma sér vel fyrir í sófanum með Elsu og hafa kósí um kvöldið. Vonandi myndi hann ekki hringja eða senda spurningar um Tý. Ég vissi ekki hvernig ég ætti að svara ef hann og mamma myndu spyrja mig.

Ég reyndi að láta sem minnst á mér bera þegar ég kom inn um dyrnar. Mig langaði alls ekki að mamma sæi blóðið, þá myndi hún vita að eitthvað hafði gerst. En hún heyrði í mér og kallaði.

„Stella!“

„Já?“

„Hvernig gekk með Tý?“

„Ágætlega!“ avaraði ég á leiðinni upp stigann. Mér tókst að komast upp á efri hæðina án þess að hún sæi að ég væri ein. Sem betur fór hafði ég unnið mér inn smá tíma til að hugsa mig um. Ég fór í sturtuna og skolaði af mér svitann og blóðið. Ég byrjaði að finna fyrir verkjunum í sturtunni. Mig hefði aldrei grunað hversu sárt það væri að hreinsa sárin. Eftir þetta gæti ég aldrei horft á svipuð atriði í kvikmynd án þess að finna til með þeim særða. Ég hafði engin sárabindi svo ég vafði klósettpappír utan um sárin og festi með plástrum sem ég fann inn í skáp. Síðan beið ég inn í herbergi þar til ég heyrði að mamma fór út í fjós. Loksins hafði ég tækifæri til þess að laumast í eldhúsið og ná mér í bita.

Þó ég væri sársvöng hafði ég enga matarlyst. Ég skildi þetta ekki því svona lagað hafði aldrei komið fyrir mig áður. Ég sat yfir disknum og þrælaði einum og einum bita ofan í mig. Ég gat bara notað annan handlegginn við að borða og finna til matinn því mér var svo illt í úlnliðnum. Að geta ekki notað líkamann eins og ég var vön var næstum jafn erfitt fyrir mig og sársaukinn.

Ég hlít að hafa gleymt mér við eldhúsborðið því allt í einu heyrði ég að mamma var komin upp á pallinn við útidyrnar. Á meðan hún stappaði snjóinn af stígvélunum þaut ég af stað í gegn um húsið og upp stigann. Sem betur fer náði ég aftur í herbergið áður en hún opnaði dyrnar.

Ég heyrði í mömmu fara inn á baðherbergi og þvo sér um hendurnar. Ég hlustaði eftir því að hún skrúfaði fyrir kranann og svo heyrði ég að hún gekk fram í stofu og kveikti á sjónvarpinu. Hádegisfréttirnar ómuðu um húsið, eða var þetta upplýsinga fundurinn vegna Covid veirunnar? Það var ómögulegt að átta sig á því.

Ég vissi ekki hvað ég ætti að gera svo ég tók til þess ráðs sem hafði virkað best fram að þessu. Það var að þykjast vera lasin. Þegar hún kæmi upp að spyrja um Tý myndi ég svara ræfilslega að ég hefði ekki náð að ganga alla leiðina heim til Kidda. Þá myndi mamma fara og ná í Tý sjálf og finna hann á gólfinu. Kannski myndi hún meira að segja halda að Týr hafi dáið sjálfur. Ég var allavega viss um að hún myndi ekki halda að ég væri að ljúga. Geir fengi skammirnar og ég væri laus allra mála. Samviskan var vandamál. Það væri ekki sanngjarnt að annar þyrfti að taka afleiðingum þess sem ég hafði gert. En ég gat ekki játað, ég var svo hrædd.

Ég kom mér upp í rúm og undir sængina. Svo beið ég, í að minnsta kosti klukkutíma ef ekki að eilífu. Loksins heyrði ég marrið í stiganum. Á meðan ég beið eftir að mamma kæmi inn um dyrnar táraðist ég. Ég var svo hrædd og hafði svo mikið samviskubit. Út af tárunum var ég orðin svolítið blaut í andlitinu þegar mamma kom og sá mig undir sænginni. Það var ágætt því ég held að ég hafi litið út fyrir að vera í alvörunni veik.

„Hvað er að sjá þig?“

„Ég held að ég sé lasin.“

„Nú, nú. Hvað er að angra þig?“

„Ég er slöpp og mér er kalt.“

„Þú ert nú ekki heit. Hvar er Týr?“

„Ég komst ekki alla leið að sækja hann. Mér leið svo illa.“ Þá stóð mamma upp og gekk að dyrunum. Þegar hún var komin þangað sagði hún að hún ætlaði að fara og sækja Tý sjálf, ég átti bara halda áfram að hvíla mig.

Auðvitað gat ég ekki sofnað á meðan mamma var úti. Ég var svo stressuð að mér varð illt í maganum. Ég gat ekki slakað á og hugsað um annað en það sem myndi gerast þegar hún kæmi aftur. Ætti ég kannski að nota tækifærið og pakka í tösku? Ég gæti verið farin áður en hún kæmi til baka. En þá þyrfti ég að nota báða handleggina.

Eftir smá stund gafst ég upp á að liggja uppi í rúmi. Ég stóð upp og fór að glugganum sem sneri í áttina  að veginum sem liggur að bústað bróður míns. Ég sá að mamma gekk hratt og var næstum komin alla leiðina. Ég horfði á hana þangað til hún fór inn um dyrnar og lokaði á eftir sér. Það liðu nokkrar mínútur áður en hún kom aftur út. Ég sá að hún hélt á einhverju í fanginu. Hún var of langt í burtu til þess að ég gæti séð almennilega hvað hún var með en það hlaut að vera Týr.

Í stað þess að finna stað til að grafa líkið gekk hún heim. Ég fylgdist með henni alla leiðina og sá á göngulaginu að böggullinn var þungur. Hvers vegna var hún að halda á honum heim þegar hann var dauður?

Loksins þegar hún kom heim heyrði ég til hennar. Hún var að tala við sjálfa sig. Röddin hljómaði eins og hún væri að babla við lítið barn en ég heyrði ekki orðaskil því hún var of lágvær. Ég þorði ekki niður. Ég lagði annað eyrað við gólfið til þess að heyra til hennar. Svo heyrði ég lítið bofs á milli orða. Var Týr lifandi? Ætti ég að athuga það? Ég opnaði rifu á dyrnar og gægðist út. Auðvitað myndi ég ekki sjá neitt svona fyrst mamma og Týr voru niðri. Ég heyrði samt betur. Lágvært ýlfur barst upp í herbergið mitt.

Ég ákvað að laumast niður, hægt og rólega en vera samt með sængina utan um mig svo mamma fattaði ekki að ég hafði verið að ljúga um að vera lasin. Ég þurfti líka að fela sárabindið. Á leiðinni niður rak ég meidda handlegginn utan í horn og táraðist.

„Mamma?“

„Já?“

„Er allt í lagi með Tý?“

„Hann var svolítið vankaður þegar ég kom og sótti hann, eins og eitthvað hafi komið fyrir hann, en ég held að hann verði í lagi. Er í lagi með þig? Þú lítur út eins og þú hafi verið að gráta.“

„Ha. Já, já, líður bara svoldið illa.“ Ég laumaðist aftur upp því brosið sem vildi koma á varirnar, þrátt fyrir sársaukann, ætlaði ekki að hætta við.

Vegna þess að ég hafði sagst vera lasin fékk ég ekki að koma með mömmu að skila Tý daginn eftir. Ég þurfti að bíða heima, átti að taka því rólega og slaka á í sófanum eða í rúminu mínu.

En ég gat ekki slakað á þó mér væri farið að líða eins og ég væri í alvörunni lasin. Ég hafði svo miklar áhyggjur af því að kannski myndi þeim gruna eitthvað. Týr var líka skapstyggari en venjulega. Hvað ef ég hafði eyðilagt hann einhvern vegin með að lemja hann í hausinn? Hann yrði þá skrítinn eins og hundurinn hennar ömmu var eftir að hann lenti undir bíl. Það þurfti að svæfa hann því hann var alltaf svo vitlaus.

Týr urraði þegar hann sá mig um morguninn og lét eins og hann væri hræddur við mig. Mömmu fannst þetta örugglega skrítið en sagði samt ekki neitt. Ég held að hún hafi verið að hugsa um hvers vegna hann væri hræddur við mig. Mamma hafði lítið talað frá því hún kom heim með Tý. Ég var viss um að það væri vegna þess að henni grunaði að ég hafði gert eitthvað en ég var ekki viss.

Það var auðveldara en ég hélt áfram að fela handlegginn fyrir mömmu áður en hún fór til Reykjavíkur því hún hafði svo mikið að hugsa um. Ég hafði hann bara undir sænginni þegar hún sá til.

Mamma var í burtu allan daginn. Ég var hissa því ég vissi að hún gæti ekki stoppað neins staðar á leiðinni. Hún mátti ekki vera nálægt bróður mínum og það var ráðlagt að maður færi ekki í búðir eða neitt svoleiðis nema það væri algerlega nauðsynlegt. Það var næstum komin kvöldmatartími þegar hún kom heim. Það fyrsta sem hún sagði þegar hún kom inn úr dyrunum var að ég ætti að setjast niður. Hún ætlaði að tala við mig. Þá varð ég svo hrædd að ég titraði.

„Ég er viss um að þú ert búin að spá í hvers vegna ég var svona lengi. Það er vegna þess að ég þurfti að fara með Tý á dýraspítalann á Selfossi áður en ég keyrði til Reykjavíkur. Ég gerði það vegna þess að hann er búin að haga sér svo undarlega síðan ég sótti hann í gær og eins og þú veist má bróðir þinn ekki fara út.“

„Já.“

„Þeir skoðuðu hann vel og sögðu mér að Týr hafi verið beittur ofbeldi og að hann hefði innvortis blæðingar. Líklega hefur hann fengið höfuðhögg nýlega en … þú þarft ekki að vita þetta allt saman. Við bróðir þinn tókum ákvörðun um að svæfa hann á spítalanum. Ég fór þess vegna ekki til Reykjavíkur, heldur fór ég til Geirs sem passaði Tý á meðan Kiddi var úti með Elsu. Ég talaði við hann og þú getur verið viss um að hann kemur ekki til með að meiða fleiri dýr á okkar bæ því hann má ekki koma hingað aftur.“ Eftir að hafa fengið þessar fréttir magnaðist samviskubitið og ég byrjaði að gráta. Mamma skildi það þannig að ég væri svona leið yfir öllu sem hafði gerst.

„Ma-Mamma.“

„Æ elskan mín, Týr þjáist ekki lengur.“

„Það er gott. En … það er svoldið … sem ég þarf að segja þér.“

„Nú?“

„Það var ég sem meiddi Tý, ekki Geir.“

„Æ elskan auðvitað varst það ekki þú. Þú sást hann ekkert.“

„Jú. Ég fór til hans í gær, og hann stökk á mig, réðst á mig og beit mig. Ég lamdi hann með lóð og hann datt á gólfið og ég hljóp í burtu. Ég var svo hrædd. Fyrirgefðu mamma.“

„Greyið mitt. Ef Týr hefur ráðist á þig hefur það bara verið vegna þess að Geir var búin að fara svo illa með hann, hann var orðin hræddur við fólk. Leyfðu mér að sjá hvar hann beit þig.“

„En þú sagðir höfuðáverkar.“

„Já en það er ekki allt. Hann var mun meira meiddur en bara á höfðinu, ég vildi bara ekki útskýra það nánar fyrir þér því það er óþarfi að þú heyrir þetta. Sýndu mér Stella.“

„Af hverju réðist hann þá ekki á þig líka?“ sagði ég um leið og ég lyfti upp sænginni svo hún sæi umbúðirnar.

„Hann gat það ekki, hann var of máttfarin.“ Mamma fletti pappírnum í burtu og fitjaði upp á nefið. Það var ekki góð lykt af sárunum og handleggurinn var bólginn. Ég hafði fundið slátt í honum síðustu klukkustundirnar.

„Æ.“

„Hvað er að sjá þetta barn. Hvers vegna sagðir þú mér ekki frá þessu!“

„Ég var hrædd um að þú myndir fatta þetta með Tý.“

„Varstu í alvörunni svona hrædd? Við mig og Kidda?“ Ég svaraði ekki með orðum, kinkaði bara kolli.

 

[hr gap=”30″]

 

Sigríður er fædd á Selfossi árið 1983. Hún lauk meistaranámi í ritlist í júní 2020 við Háskóla Íslands. Sigríður hefur alla tíð haft mikla ástríðu fyrir hinu skrifaða orði.

Lestu þetta næst

Er þetta gaman?

Er þetta gaman?

Er þetta gaman?  Félagsskapur með sjálfum mér í Tjarnarbíó Á sviðinu er legubekkur, örfáar bækur,...

Sögur til næsta bæjar

Sögur til næsta bæjar

Sagnagerð er lúmsk kúnst sem þarf að rækta. Í janúar kom saman hópur af upprennandi höfundum í...