Náttúruhamfarir, einangrunarstefna og myrk framtíðarsýn

Sendiboðinn er önnur bók Yoko Tawada sem kemur út í áskrifarseríu Angústúru. Í fyrra kom út bókin Etýður í snjó sem Lilja Magnúsdóttir rýndi í fyrir Lestrarklefann. Sendiboðinn gerist í dystópísku framtíðarsamfélagi í Japan þar sem gamall maður, Yoshiro, annast dóttursonarson sinn Mumei. Gamla fólkið virðist lifa að eilífu en börnin byrja að hrörna langt fyrir aldur fram. Það er sorg og samviskubit gamla fólksins að þurfa að horfa upp á börnin, barnabörnin og barnabarnabörnin veslast upp og missa allan mátt. Náttúruhamfarir af mannavöldum hafa oldið því að Japan er lokað og ríkisstjórnin hefur komið á einangrunarstefnu.

Brothætt börn

Bókin er einhverskonar samansafn af vangaveltum persónanna og er söguþráðurinn ekki fyrirferðarmikill. Sjónarhornið flakkar á milli persóna þannig að lesandinn fær að gæjast inn í höfuð Yoshiros, Mumei, konu Yoshiros, kennara Mumeis og fleiri persóna. Yoshiro fær mesta plássið til að tjá sig í gegnum bókina en hans helsta hugðarefni er heilsa Mumeis sem veldur honum miklum áhyggjum, drengurinn er gífurlega brothættur: „Um leið og sólin gægðist ofurlítið gegnum skýin sprakk húðin á honum af þurrki. Og ef hann gegnblotnaði í regnskúr að kvöldi skalf hann allur og nötraði. Sömuleiðis var hver matarbiti sem upp í hann fór áskorun í einvígi.“ (bls. 118) Yoshiro elskar Mumei af öllu hjarta og gerir allt til að auðvelda honum lífið.

Ritskoðun tungumálsins

Áhugavert fannst mér umfjöllunin um tungumálið í bókinni, í þessu nýja samfélagi í Japan eru reglurnar endalausar og bannorðin mörg. Ekki má nefna erlendar borgir og mörg orð hafa verið tekin úr tungumálinu. Þetta minnti mig á bókina 1984 þar sem yfirvaldið byrjaði einnig að ritskoða almenning með því að eyða orðum úr tungumálinu en 1984 er ein frægagsta dystópía sem hefur verið skrifuð. Mumei er forvitinn um öll þessi orð sem hann skilur ekki og hafa horfið úr tungumálinu: „Öll þessi orð – þau sem voru dauð og hin sem voru það ekki en enginn notaði lengur – voru geymd í höfðinu á langafa. Gömlum borðbúnaði og ónýtum leikföngum fleygði hann samstundis en ónothæf orð geymdi hann í skúffum í heilanum og henti þeim aldrei.“ (bls. 142)

Óskiljanleg óreiða

Frásögnin fer úr einu í annað og er svolítið óreiðukennd. Kannski er það markmiðið þar sem þessi nýju veruleiki mannfólksins eru óreiðukenndur og óskiljanlegur. Ekki er vitað nákvæmlega af hverju börnin hrörna á þennan hátt og eru leiðbeiningar til umönnunaraðila óljósar og breytast sífellt. Langamma Yoshiros og kennari hans eru bæði partur af hópi sem mun velja sendiboða til að smygla úr landi svo hægt sé að rannsaka líkamlegu kvillana sem hrjá börn landsins, til að koma í veg fyrir að slíkt hendi önnur börn í heiminum. Seinna í bókinni kemur í ljós Mumei er útvaldi sendiboðinn en ekkert verður úr þeirri för. Bókin er stutt og endar snögglega. Það er ekki mikið útskýrt í bókinni sjálfri og er lesandinn í myrkrinu mest alla bókina að velta fyrir sér hvað hafi gerst, af hverju þessar hamfarir urðu og af hverju börnin deyja fyrir aldur fram. Í eftirmála bókarinnar kemur fram að Tawada hafi sjálf minnst á í viðtölum að hún sé að fjalla að einhverju leiti um hamfarirnar í Japan sem urðu árið 2011 og höfðu skelfilegar afleiðingar. Einnig er Japan eina þjóðin sem hefur þurft að upplifa það að verða fyrir kjarnorkuárásum, sársaukinn sem Japanir hafa þurft að þola er mikill.

 

Því miður naut ég lestursins ekki nógu mikið, óreiðan var of mikil og söguþráðurinn of lítill. Helsti kostur bókarinnar er tungumálið en bókin var skrifuð á japönsku þar sem Yoko bjó hiklaust til orð yfir allskyns fyrirbæri og var því töluvert flókið að þýða bókina. Þrátt fyrir flækjustigið er textinn oft á tíðum mjög flottur og myndrænn og vakti hrifningu mína.

Lestu þetta næst

Barnið er svangt

Barnið er svangt

Sól_Ey, Lokaverk af sviðshöfundabraut við LHÍ eftir Egil Andrason. Stofa L220 er lítil og...

Höfugur ilmur

Höfugur ilmur

Meðan leikhúsgestir streyma inn í Kassann í Þjóðleikhúsinu stendur Unnur Ösp bakvið örþunnt og...

Tíminn teygir úr sér

Tíminn teygir úr sér

X eftir Alistair McDowall Klukkan er 20:07 og Ray er að fá sér að borða. Gilda orðar áhyggjur...

Hægt og hljótt

Hægt og hljótt

Hvítalogn er fimmtánda skáldsaga Ragnars Jónassonar og önnur bókin í þríleiknum um lögreglumanninn...