Etýður í snjó – Þrjár kynslóðir ísbjarna

Með áhugaverðari bókaklúbbum seinni tíma er án efa bókaklúbbur AngústúruEtýður í snjó eftir Yoko Tawada er sjötta bókin sem kemur út í bókaröð klúbbsins og er Elísa Björg tilnefnd til Íslensku þýðingaverðlaunanna 2019 fyrir þýðingu sína á bókinni. Jafnframt er þetta fyrsta bókin eftir Tawada sem þýdd hefur verið á íslensku.

Bókin er um margt áhugaverð. Hún er sambland að áróðri og furðusögum, sorgin er undirliggjandi og enginn endir góður ef svo má  að orði komast.

Sögð er saga þriggja kynslóða ísbjarna, rússnesku ömmunnar, dótturinnar og svo dóttursonarins. Fyrsti hluti sögunnar er sagður frá sjónarhóli ömmunnar. Hún verður fyrir slysni frægur rithöfundur sem flýr austurblokkina yfir til Vestur Þýskalands en lendir upp á kant við nýnasista og flytur til Kanada. Eftir nokkur ár í Kanada flytur hún aftur í sósíalismann í Austur-Þýskalandi og allan þennan tíma er hún að skrifa sjálfsævisögu sína. Saga hennar markar mjög merkilegan tíma á síðustu öld eða eftirstríðsárin. Lýst er samskiptum rithöfundar við þennan ósýnilega alvald og alræði í hinu gamla Sovét. Þar réðu ákveðnar óskrifaðar reglur sem lífshættulegt gat verið að brjóta. En þrátt fyrir þá ógn sem vofir yfir skáldinu austan megin þá er frjálsræðið í Kanada litlaust til lengdar.

Höfundur lýsir vel þeirri kúgun sem skapandi fólk þurfti að búa við á tímum kommúnismans í Austur Evrópu. Það sem var skrifað varð að vera skrifað á ákveðinn hátt og í ákveðnum tilgangi og sýna ákveðinn sannleika, rétta sannleikann.  Og þar sem amman var fræg þá átti að nota hana til að skrifa réttann sannleika, ekki bara í Sovétríkjunum heldur líka vestan megin. Hún mátti til dæmis ekki skrifa á þýsku, þeir vildu textann hennar á móðurmálinu, rússnesku, svo þeir gætu þýtt yfir með sínum hentugleika.

Ólíkt fyrsta hluta er annar hluti skrifaður út frá sjónarhóli mannsins en þjálfari ísbjarnarins Tosca er Barbara, sem segir söguna. Tosca, dóttir ömmunnar, er dansari í sirkus og er ráðin þar eftir að níu ísbirnir taka höndum saman í sirkusnum og stofna stéttarfélag. Eins og fyrsti hluti fjallaði um kúgun og þá staðreynd að stundum virðist flótti eina leiðin út, þá snýst annar hluti um þær leiðir sem hægt er að nota til að rísa upp gegn kúgunni. Í fyrsta hluta gat amman átt í samskiptum við mennina eins og hún væri mennsk sjálf en í öðrum hluta getur Tosca eingöngu átt í samskiptum við Barböru og aðeins í gegnum drauma.  Þar birtist annarskonar kúgun þar sem samband Barböru við björninn er mjög náið, samband sem er ekki samfélagslega samþykkt.

Síðasti hluti bókarinnar er sagður frá sjónarhóli Knúts, dóttursonarins sem var í raun frægur ísbjörn er fæddist í dýragarði í Berlín 2006.  Móðir hans, Tosca,  hafnar syni sínum nýfæddum og Matthías tekur hann upp á sína arma. Matthías er umhverfisverndunarsinni og ásamt lækninum Christian ala þeir ísbjörninn upp fyrir opnum tjöldum fjölmiðla, en lífshlaup Knúts og tilfæringar mannanna með hann er liður í að vekja heiminn til umhugsunar um loftslagsbreytingar og alvöruna sem fylgir þeim.

En það eru ekki aðeins loftslagsbreytingar sem er megin þemað í þessum þriðja hluta. Tawada deilir á vaxandi kapítalisma, kapítalisminn er nýttur til að koma á framfæri boðskap sem þó í raun er í mótsögn við allt sem kapítalisminn snýst um.  Fólk er endalaust hvatt til að kaupa varning með allskyns slagorðum og björninn Knútur er notaður til að hvetja til kaupanna. Ísbjörninn er fangi mannanna sem nýta sér hann til að vekja athygli á erfiðum aðstæðum ísbjarna á norðurskautinu. Allur varningurinn sem er seldur til styrktar umhverfisvernd er mengandi framleiðsla þegar uppi er staðið.

Allir hlutar bókarinnar eiga það sameiginlegt að velta fyrir sér uppruna og stöðu einstaklingsins í samfélögum. Ádeilan endurspeglast líka í samtölum Knúts við Michael, eftirmann Matthíasar en Michael heldur því fram að allt sem sé ónáttúrulegt sé mönnunum eðlislægt að hata, stéttaskipting sé náttúruleg og því eðlileg.

Hver erum við og hverjum tilheyrum við er spurning sem allir birnirnir þrír velta fyrir sér og má segja að sé rauði þráðurinn í gegnum allar sögurnar þrjár. Í samtali Knúts við kanadískan úlf í þriðja hluta kemur þetta skýrt fram. „Það er ekkert líkt með ykkur Matthíasi. Hann hefur örugglega numið þig á brott sem ungabarn. Sjáðu bara mína stóru fjölskyldu. Allir fjölskyldumeðlimir steyptir í sama mót.“  En allir birnirnir uppgötva að fjölskylda er ekki endilega sú fjölskylda sem þú fæddist inn í og er tengd þér blóðböndum heldur sú sem elskar þig þrátt fyrir alla erfiðleika, þrátt fyrir að þú sért allt öðruvísi en allir hinir.

Etýður í snjó er bók sem hefur ótal marga þræði. Ég kem til með að finna eitthvað nýtt í henni í hvert skipti sem ég les hana. Og eins furðulegt og það hljómar að lesa sögur um menn, sagðar frá sjónarhorni ísbjarna þá gleymir maður þeirri staðreynd á fyrstu blaðsíðunum.  Það getur verið gott að sjá hlutina frá öðru sjónarhorni, glöggt er gests augað og allt það. Hinn mennski heimur er skoðaður með utanaðkomandi augum í þessari bók og ekki allt fallegt sem kemur í ljós. Grimmd mannsins gagnvart dýrum á sér stundum engin takmörk og öllum er hollt að líta í eigin barm, hræsnin er oft nær manni en maður heldur.

Lestu þetta næst

Að rækta garðinn sinn

Að rækta garðinn sinn

Nýverið kom út íslensk þýðing Kristínar Jónsdóttur á skáldsögunni Vatn á blómin eftir franska...

Barnið er svangt

Barnið er svangt

Sól_Ey, Lokaverk af sviðshöfundabraut við LHÍ eftir Egil Andrason. Stofa L220 er lítil og...

Höfugur ilmur

Höfugur ilmur

Meðan leikhúsgestir streyma inn í Kassann í Þjóðleikhúsinu stendur Unnur Ösp bakvið örþunnt og...