Rithornið: Dóttir hafsins

Kona um nótt

Forkafli úr Dóttir hafsins sem kemur út í september 2020 hjá útgáfunni Björt. 

Eftir Kristínu Björgu Sigurvinsdóttur 

 

Rannveig gat ekki verið þarna stundinni lengur. Hún varð að komast burt og það strax. Hún tók á rás út úr stofunni og vonaði innilega að maðurinn elti sig ekki. Hún reif upp hurðina á torfbænum, sem hafði verið eins og fangelsi undanfarin ár, og vindurinn kom í fangið á henni eins og frelsið uppmálað. Unga konan hikaði eitt augnablik áður en hún hljóp út í kalt vetrarloftið. Hún hljóp yfir hlaðið þar sem hún nam loks staðar til að ná andanum. Rannveig lagði lófann á auman vangann, hana sveið enn eftir höggið. Hún trúði varla að maðurinn hefði slegið sig, og það fyrir að hafa eignast stúlku en ekki dreng. Hjúskapurinn hafði verið fyrirfram ákveðinn en hún vissi að hún gæti aldrei elskað hann. Hann var heigull og skíthæll. Skyndilega þrýstust tárin fram í augnkrókana og söknuðurinn heltók hjartað. Elskulega stúlkubarnið hafði sofið svo vært í fangi hennar fyrir örfáum augnablikum. Að skiljast við dótturina var nánast óbærilegt en hún gat ekki tekið hana með sér. Rannveig huggaði sig við að barnið væri öruggt í faðmi vinkonu hennar. Stúlkan fengi að alast upp við ást og gleði, meira gat móðir ekki beðið um.

„Rannveig!“ var hrópað í fjarska en Rannveig hunsaði köllin. Hún myndi ekki hætta við, ekki í þetta sinn. Hún kreppti hnefana og rétti úr bakinu áður en hún tók aftur til fótanna. Fjaran var skammt undan.

Veðrið versnaði með hverju skrefi sem hún tók og á örskammri stundu var skollinn á stormur. Rannveig fagnaði óveðrinu og skeytti því engu þótt kjólfaldurinn blotnaði. Drunurnar í öldunum leiddu hana áfram og stuttu síðar tók grátt og úfið hafið á móti henni. Hún hljóp þvert yfir svarta fjöruna og út á bryggjuna, sem reis virðuleg upp úr sjónum. Í gegnum stormgnýinn bárust köll vinnukvennanna sem höfðu elt hana út í nóttina. Þær hættu sér ekki út á bryggjuna í óveðrinu en Rannveig var hvergi hrædd. Hún stóð á bryggjusporðinum og hrópaði nafn út í storminn. Eitt augnablik var eins og veröldin héldi niðri í sér andanum en svo gerðist hið ómögulega. Sjórinn hopaði frá bryggjunni svo sást í svera bryggjustólpana. Konurnar gripu andann á lofti þegar gríðarstór alda reis eins og veggur upp úr hafinu. Rannveig rétti hendur á móti náttúruöflunum eins og hún væri að heilsa gömlum vini. Þá hvolfdist aldan yfir bryggjuna, umvafði Rannveigu og dró hana með sér í djúpið.

Vinnukonurnar stóðu frosnar af skelfingu með útréttar hendur þangað sem húsmóðir þeirra hafði staðið. Nú stóð enginn þar svo þær drógu hendurnar rólega að sér. Andartaki síðar datt allt í dúnalogn. Stjörnurnar blikuðu ein af annarri á heiðum himninum og sjórinn varð spegilsléttur, venjulegur vetrarmorgunn rann upp eftir yfirnáttúrulega nótt.

 

[hr gap=”30″]

 

Kristín Björg útskrifaðist sem lögfræðingur frá Háskóla Íslands árið 2018. Hún byrjaði að skrifa fyrir Lestrarklefann í nóvember 2019 enda er hún mikil bókaormur. Hér að ofan má lesa fyrstu blaðsíðurnar í fantasíuskáldsögu hennar Dóttir hafsins. Bókin er frumraun Kristínar og er væntanleg í bókabúðir í september 2020. Hægt er að fylgjast með höfundasíðu hennar á facebook og instagram undir nafninu: kristinbjorgsigurvins.

 

 

 

 

 

 

Hér má sjá bókina sem kemur í allar betri bókabúðir í september.

Lestu þetta næst

In memoriam

In memoriam

Deyr fé, deyja frændur, deyr sjálfur ið sama. En orðstír deyr aldregi hveim er sér góðan getur (úr...