Ástir og sorgir vændiskvenna í demantaborginni

On Black Sisters’ Street eftir nígeríska höfundinn Chika Unigwe var ofarlega á leslista sumarsins. Eins og oft verður á sumrin sátu þyngri bækur á hakanum en ég náði að klára þessa áhugaverðu bók rétt í tæka tíð fyrir haustlægðir. Bókin sem kom fyrst út árið 2009 fjallar um fjórar konur sem koma frá Afríkuríkjum til Antwerpen í Belgíu til að freista gæfunnar um betra líf. Þær starfa allar í rauða hverfinu og búa á Zwartezusterstraat (þ. Svartasystrastræti) og þrjár af konunum bindast sterkum böndum þegar sú fjórða er myrt.

Verðlaunabók

On Black Sisters´ Street er þriðja bók höfundarins og hlaut góðar viðtökur við útgáfu, Unigwe hneppti meðal annars bókmenntaverðlaun Nígeríu (e. Nigeria Prize for Literature) fyrir hana, ein virtustu verðlaun afrískra bókmennta. Ég hlaut þessa bók að gjöf og var spennt að kynnast nýjum höfundi, en einnig fannst mér viðfangsefnið athyglisvert: flestir sem hafa komið til stórborga Evrópu hafa séð rauðu hverfin en ef til vill ekki staldrað við og íhugað baksögur einstaklingana sem þar starfa.

Dapurlegar baksögur

Bókin er sögð frá sjónarhorni persónanna fjögurra: Sisi, Joyce, Ömu og Efe sem allar starfa fyrir sömu konu í demantaborginni Antwerpen. Hún hefst á glaðlegum nótum frá sjónarhorni Sisi sem sér framtíðina fyrir sér í björtum ljóma stuttu áður en líf hennar tekur skyndilega enda. Dapurlegri kaflar taka svo við en í þeim eru sagðar baksögur kvennanna og því hvernig þær enduðu allar á því að flytjast frá Nígeríu til Antwerpen til að starfa í rauða hverfinu.

Þó að umfangsefnið sé þungt og sorglegt er bókin lipurlega skrifuð og auðlesin, sér í lagi vegna vel skrifaðra samtala. Heilt yfir þótti mér bókin áhugverð í lestri og veita mér innsýn í óþekktan heim. Mér þótti uppbygging bókarinnar hins vegar dálítið sérkennileg. Langstærsti hluti bókarinnar fer í upprifjunarkafla á lífi kvennanna fjögurra. Baksögurnar voru margslungnar og raunsæjar og ljóst var að rithöfundurinn byggði þá á mikilli rannsóknarvinnu, en mér þótti þessi uppbygging ekki styðja við skáldsagnaformið á sem bestan hátt. Meiri framvindu vantaði í söguna og hefði ég viljað sjá mun meira um líf kvennanna í aðdraganda og eftir morðið á Sisi frekar en að fá mestmegnis söguna af uppvexti þeirra og hvernig þær enduðu allar í Antwerpen.

 

Það er margt gott í þessari bók, sérstaklega hvernig aðalpersónurnar eru settar fram ekki sem viljalaus fórnarlömb heldur sem konur sem hafa valið erfiða leið í von að betri framtíð. Bókin er tæplega 300 blaðsíður og aldrei þessu vant finnst mér að hún mætti vera lengri til þess að veita persónunum og sögunni meiri dýpt.

 

 

Lestu þetta næst

Martraðakennd en stórskemmtileg sorgarvegferð

Martraðakennd en stórskemmtileg sorgarvegferð

Sorg og sorgarúrvinnsla, að sættast við dauðann, að sættast við það að vera ófullkomin manneskja með ófullkomin tengsl við aðra. Þetta eru aðalumfjöllunarefni Birnis Jóns Sigurðssonar í nýjasta leikverki hans Sýslumaður dauðans sem er nú í sýningu í Borgarleikhúsinu. 

Góðmæðraskólinn

Góðmæðraskólinn

Varst þú að eignast barn? Ertu bugað heima með ungviðið og langar bara í smá pásu frá serjósi,...

Glöggt er gests augað

Glöggt er gests augað

Fyrir nokkrum árum komst ég að því að finnsk kona að nafni Satu Rämö, sem búsett væri á Ísafirði,...

Jarðsyngdu mig

Jarðsyngdu mig

Ég fékk ljósbláa bók að gjöf. Framan á kápu stendur aðeins titill verksins með smáu, hvítu letri....