Sögur frá Tulipop – Sætaspætan

Penni: Katrín Lilja

Önnur bókin úr bókaflokknum sem geymir sögur frá Tulipop kom út í september. Bókin ber heitið Sögur frá Tulipop – Sætaspætan og er skrifuð og myndlýst af Signýju Kolbeinsdóttur. Í fyrra kom út bókin Sögur frá Tulipop – Leyniskógurinn. Sveppasystkinin Búi og Gló og skrímslið Freddi eru orðin íslenskum börnum nokkuð kunn í gegnum teiknimyndir sem hafa verið sýndar á RÚV og skemmtilegt að sjá myndabækur bætast við Tulipop flóruna.

Björgun sætuspætu

Freddi finnur sætuspætu í skóginum og ætlar að éta hana, enda eru sætuspætur helsta skrímslafæðan. En þá kemur Gló askvaðandi og dásamar fuglinn, sem er ófleygur en svo krúttlegur og sætur. Freddi þorir fyrir vikið ekki að éta fuglinn. Gló sannfærir Fredda um að þau þurfi að bjarga sætuspætunni með öllum tiltækum ráðum. Þau þurfa að kenna honum að fljúga! Kennslan felst meðal annars í því að sleppa fuglinum úr mikill hæð, fleygja honum af stað og hvetja hann góðlega áfram. Þegar ekkert gengur ákveða Freddi og Gló að eina ráðið sé að fara upp á hæsta tindinn og vonast til að fulginn fljúgi þaðan. Þegar sætaspætan sér hafið getur hún loksins flogið, með nýfundum félaga sínum.

Litirnir endurspegla söguþráðinn

Bókin er mjög litrík og falleg. Verurnar eru krúttlegar og Tulipop heimurinn er töfrandi veröld. Litapallettan sem er ríkjandi í bókinni er gul, bleik og fjólublá. Bókin er því gleðileg og létt yfir henni. Þegar Gló og Freddi fara að klífa fjallið kárnar gamanið og litapallettan verður dekkri, sem gefur í skyn hættu. En að lokum leysist vandamálið og litirnir verða aftur léttir. Sjálf hef ég gaman af litagleðinni sem fylgir bókinni. Einnig er hægt að sjá alls kyns skemmtileg smádýr og furðulegar plöntur á hverri opnu. Það er því af mörgu að taka þegar horft er til myndanna, en þær eru fyrst og fremst gleðilegar.

Textinn í bókunum er oftar en ekki fullur af kímni. Persónurnar eru skemmtilegar og fyndnar og Gló er greinilegur leiðtogi í öllum sögunum. Það er gaman að lesa bókina með börnum, en stundum hefði mátt skera niður textann og einfalda málið svo grey foreldrarnir þurfi ekki að romsa of miklu upp úr sér. Bækurnar henta vel fyrir börn á aldrinum 4-8 ára. Þau eldri ættu vel að geta lesið bókina sjálf og haft gaman af. Fyrir enskumælandi þá er bókin einnig fáanleg undir nafninu The Muffinpuffin.

Lestu meira

Í ástarsorg í Víetnam

Í ástarsorg í Víetnam

Það má með sanni segja að heimurinn hafi minnkað töluvert í pestarástandinu sem ríkir í heiminum. Ferðalög á milli landa liggja niðri að mestu og sjálf hef ég ekki ferðast út fyrir Íslandsstrendur síðan 2019, eins og eflaust flestir landsmenn. Það því dýrmætt að geta...