Fyrir jólin kom út önnur bókin sem gerist í heimi Tulipop, Sögur frá Tulipop – Leyniskógurinn. Fyrri bókin kom út árið 2012 og heitir Mánasöngvarinn. Sveppasystkinin Búi og Gló eru orðin íslenskum börnum nokkuð kunnug í gegnum teiknimyndir sem hafa verið sýndar á RÚV síðustu mánuði. Bókin er samin og myndskreytt af Sigýju Kolbeinsdóttur.

Systkinin Búi og Gló eru miklar andstæður. Gló er sjúk í ævintýri en Búi vill frekar liggja í hengirúmi og borða eitthvað gott – eins og ber. Þegar Gló segir honum að inni í skóginum leynist stærðarinnar boltaber þakin strásykri er hann skyndilega lagður af stað inn í Leyniskóginn. En þar eru engin boltaber, aðeins skrímsli sem Gló vill hitta. Búi er óttalegur heigull, eða í það minnsta töluvert óviljugari til að lenda í ævintýrum en Gló, og verður því skelfingu lostinn. Þegar undarlegur froskur stekkur svo til þeirra fara er Gló ólm að eignast hann. En er hann krúttlegur eða leynir froskurinn á sér? Og hvar er skrímslið?

Stundum þegar barnabækur eru byggðar á sjónvarspþáttum (sem ég er ekki alveg viss um að sé raunin hér, en mig grunar það) vill það verða svo að eitthvað þarf að víkja úr söguuppbyggingunni. Senur eru klipptar niður, myndirnar segja minna af sögunni en þyrfti og textinn er ófullnægjandi og einfaldaður. Að öllu þessu sögðu þá er hægt að segja með vissu að sú er ekki raunin með Leyniskóginn. Textinn er ríkulegur, málfar fallegt, myndirnar stórkostlega ævintýralegar og dularfullar. Það er hægt að sökkva sér inn í myndirnar, sem nær stökkva af síðunni í öllum regnbogans litum. Og svo er lúmskur húmor í bókinni sem er hægt að hafa mjög gaman af – börn og fullorðinir. Endirinn á bókinni er svolítið snöggur en gefur þó til kynna að ef til vill sé þessi bók sú fyrsta í seríu bóka. Brotið er rétt rúmlega í A4 stærð svo bókin fer vel í hendi fullorðinna og barna í kvöldlestrinum og allir geta séð vel á myndirnar. Myndirnar eru nokkuð dökkar á lit, með skærum litum inn á milli en þess hefur verið  gætt að hafa ljósa liti undir stöfunum til að auðvelda lesturinn.

Álitsgjafar Lestrarklefans, tveggja og hálfs árs og sjö ára, eru báðir mjög ánægðir með bókina. Hún sé ævintýraleg, falleg og fyndin.

Lestu þetta næst

Mjóifjörður kallar

Mjóifjörður kallar

„Ég get nú ekki sagt að ég hafi kunnað vel við mig á frumkvöðlanámskeiðinu en mér þótti gaman að...

Heillandi jóladraumar

Heillandi jóladraumar

Íslenski dansflokkurinn býður upp á Jóladrauma þessa aðventu. Um er að ræða danssýningu fyrir börn...

Næturbrölt

Næturbrölt

Í fyrra lásum ég og drengurinn minn bókina Tannburstunardagurinn mikli og vorum hæstánægð. Næsta...

Að ánetjast eldri konum

Að ánetjast eldri konum

Ég hef verið áðdáandi Evu Rúnar núna í þónokkur ár. Ljóðabækurnar hennar og örsagnasöfn hafa verið...