Bergrún Íris Sævarsdóttir er margverðlaunaður barnabókahöfundur. Hún hlaut Barnabókaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur fyrir bókina sína Kennarinn sem hvarf og Íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir Langelstur að eilífu. Í ár er hún með tvær bækur í jólabókaflóðinu, Kennarinn sem hvarf sporlaust og Töfralandið, ásamt nokkrum endurbættum útgáfum af eldri bókum.

Töfrar bókanna

Í Töfralandinu fylgir lesandinn litlum búttuðum strák í náttfötum, sem fyrir töfra (eða ímyndunarafl) minnkar og getur kannað bækurnar í hillunum. Hann svífur á milli bókanna og segir lesandanum hvaða töfrar búa í þeim. Nokkrar ljóðlínur eru á hverri síðu sem vekja lesandann til umhugsunar. Til dæmis skríða tröll og forynjur úr bókunum, maður fer á flakk með Ronju og Birki en er þó aldrei í hættu því bókin ver mann fyrir öllu. Þetta er bók um bækur og eftir því sem lesandinn verður eldri og lesnari þá fær Töfralandið meiri dýpt, rétt eins og gerist þegar fleiri bækur eru lesnar. Þetta er bók sem vex með barninu.

Með bókina í rúminu

Bergrún Íris er dásamlegur myndhöfundur og myndirnar eru hlýjar, litríkar og fallegar en vekja ekki síður lesandann til umhugsunar. Myndirnar segja jafn mikið og ljóðið. Þótt þær veki oftast öryggi og hlýju þá eru nokkrar síður sem álitsgjafa Lestrarklefans (þriggja ára) finnst vert að vara við. Til dæmis þegar tröllin koma út úr bókinni. Það er ansi ógnvekjandi síða. En að sama skapi er síðasta síðan svo falleg, þar sem barnið sofnar með bókina í fanginu. Oftast enda lestrarkvöldin þannig, eftir lestur bókarinnar. Bókin endar í fanginu á barninu, sem vill skoða hana aftur og aftur og aftur og aftur. Töfralandið er nefnilega bók sem heldur áfram að gefa.

Bókin er í fallega nettu broti, sem fer mun betur í barnahöndum en margar aðrar myndabækur í stærra broti. Það er alla vega auðveldara að lesa hana uppi í rúmi. Í Töfralandinu vísar Bergrún Íris í nokkrar þekktar íslenkar og erlendar barnabækur. Þessar vísanir eiga án efa eftir að vekja upp lestraráhuga seinna meir, þegar ungir lesendur dagsins í dag verða eldri.

Töfralandið er bók sem minnir okkur á töfra bókanna. Bækur eru sannkallað töfraland, sem allir ættu að ferðast til.

 

Lestu þetta næst

Stormasamt hjónabandslíf

Stormasamt hjónabandslíf

Gift eftir Tove Ditlevsen er minningarbók sem segir frá hjónabandslífi danska rithöfundarins sem...

Ótrúlegt aðdráttarafl

Ótrúlegt aðdráttarafl

Sú hefð hefur skapast á mínu heimili að enda daginn alltaf á að lesa. Kvöldlestur er hluti af...

Ameríka er líka blekking

Ameríka er líka blekking

Fólk var hneppt í þrældóm frá mismunandi svæðum í Afríku nýlendutímans. Það var flutt í gegnum...

Júlían er fullkominn

Júlían er fullkominn

Aumingja Efia er bara átta ára og stjúpmamma hennar pínir hana til að lesa með sér barnabækur til...