Þrír skilnaðir og jarðarför eftir Kristján Hrafn Guðmundsson kom út á dögunum en þetta er fyrsta bók höfundar. Um er að ræða smásagnasafn sem samanstendur af sjö smásögum, þar af einni, Fólk og fjöru, sem er í þremur pörtum í gegnum bókina. Til gamans má geta að þetta er einnig fyrsta bók sem forlagið Áróra gefur út. Handritið hlaut Nýrækarstyrk Miðstöðvar íslenskra bókmennta árið 2019. Í umsögn úthlutnarnefndar kom meðal annars fram að höfundi tekst „að miðla samspili gleði og alvöru af sérstakri næmni.“ Ég tek undir þennan dóm en um er að ræða skemmtilegt smásagnasafn með nokkrum sérlega vel heppnuðum sögum sem lofar góðu fyrir næstu bækur höfundar.

Titillinn Þrír skilnaðir og jarðarför minnir óneytanlega á hina dásamlegu rómantísku gamanmynd Four weddings and a funeral og eiga verkin tvö ýmislegt sameiginlegt, sér í lagi tengingu persónanna sem koma fram. Oft geyma smásagnasöfn sjálfstæðar og ótengdar sögur og því má fletta upp í þeim og velja sér einhverja sögu til lesturs hverju sinni.

Á vissan hátt eru sögurnar í þessari bók frekar eins og kaflar í stórri skáldsögu því tengingar eru milli sagnanna og ýmissa persóna.

Ég las sögurnar í þeirri röð sem þær birtast og myndi mæla með að lesendur gerðu slíkt hið sama til þess að upplifa þessar tengingar. En svo má kannski bara snúa dæminu við og byrja frá endanum; bókin býður alla veganna upp á mismunandi lestrarleiðir. Fólk og fjara er þó saga sem að mínu mati er best að lesa frá parti I til III.

Ýmislegt undir yfirborðinu

Það er mikil kúnst að skrifa góðar smásögur. Sögurnar sem hér um ræðir eru allar mjög raunsæjar og segja frá hversdagslegum hlutum en atvik í sögunum koma þó lesandanum á óvart. Undantekningin er síðasta hluta sögunnar Fólk og fjara í lok bókarinnar sem virðist eiga sér stað í framtíðinni. Fram kemur í eftirmála bókarinnar að sú saga sé innblásin af smásögu eftir Svövu Jakobsdóttur sem heitir „Þegar skrúfað var frá krananum í ógáti“ og birtist fyrst í safni Svövu Veisla undir grjótvegg.“ 

Kristján Hrafn fjallar á auðlesinn hátt um viðfangsefni sem margir lesendur ættu að kannast við og aðstæður sem maður tengir við en tekst jafnframt að koma að sterkum tilfinningum hjá lesenda. Á vissan hátt minntu viðfangsefnin sem hann tekur fyrir mig á Kláða eftir Fríðu Ísberg en sögurnar í báðum söfnum eiga það sameiginlegt að vera hversdagslegar á yfirborðinu en margt liggur undir. Sögurnar þóttu mér misgóðar, en mér fannst sagan „Lagerstjórinn“ standa upp úr. Sú saga birtist fyrst í Tímariti Máls og menningar árið 2019. Hver lesandi mun þó líklega eiga sína uppáhalds sögu sem hittir sérstaklega í mark hjá þeim.

Mun færri smásagnasöfn einkenna jólabókaflóðið en skáldsögur. Ég fagna því þess vegna að fá aukna fjölbreytni inn í jólabókaflóðið í formi þessarar bókar. Kristján Hrafn lofar góðu sem skáld og hlakka ég til að lesa fleiri sögur eftir hann í framtíðinni.

Lestu þetta næst

Eins konar dans

Eins konar dans

Moldin heit er önnur skáldsaga Birgittu Bjargar Guðmarsdóttur en fyrir hana hlaut hún...