Eygló Sunna Kjartansdóttir er fjórtán ára og með brennandi áhuga á bókum. Hún las Vampírur, vesen og annað tilfallandi eftir Rut Guðnadóttur, en bókin hlaut Íslensku barnabókaverðlaunin árið 2020.
Dularfull veikindi stærðfræðikennara
Bókin byrjar á Millu sem er að fá “titillinn” gangavörður skólans. Í byrjun bókar vikna grunsemdir um að Kjartan, stærfræðikennari Millu sé kominn með einhver veikindi lík kórónuveirunni (eða eitthvað meira?). Í öðrum kafla fær lesandi að kynnast Lilju og Rakel, bestu vinkonum Millu, og á þetta þríeyki eitt sameiginlegt. Þær gjörsamlega þola ekki dönskukennaran sinn! Það kemur svo í ljós að slatti af krökkum á unglingastigi eru að veikjast talsvert á einhvern undarlegan hátt. Þar á meðal stóra systir Millu, Ösp. Milla, Rakel og Lilja fara þá að kanna málin og kemur þá í ljós margt sem þær vissu ekki um Kjartan stærfræðikennara sinn og ýmislegt sem vinkonurnar hafa falið hverri frá annarri.
Stundum er ekki allt sem sýnist
Mér fannst bókin mjög skemmtileg og spennandi. Rut nær að vefja unglingadrama, húmor og slatta af kaldhæðni fullkomlega saman og orðar þetta líka svo vel þokkabót. Ég náði að tengja vel við persónurnar og fannst mér líka gaman að fylgjast með uppbyggingu persónuleika þeirra. Vanalega eru aðalpersónur úr flestum bókum sem ég hef lesið allar eins og alltaf með alltof mikla dramatíska skoðun á lífinu en Rakel, Milla og Lilja horfa hinsvegar á skemmtilegu hliðarnar á ævintýrinu sem þær lentu í. Bókin hefur þann boðskap að það er aldrei æskilegt að dæma bókina eftir kápunni og stundum er ekki allt sem sýnist. Bókin hefur líka þann boðskap að aldrei vanrækja vináttu sína því þá getur maður misst fólkið sem manni þykir vænt um. Mér fannst gaman að lesa bókina og setja mig í spor unglinganna sem koma fram í sögunni og hugsa hvað ég myndi gera í þeim aðstæðum. Fannst samt að það mætti númera kaflana og fá aðeins að sjá sögu Kjartans og sjónarhornið hans.
[hr gap=“30″]
Lestrarklefinn þakkar Eygló Sunnu fyrir umfjöllunina og hvetur unga lesendur til að senda línu á netfangið lestrarklefinn[hjá]lestrarklefinn.is.