Vampírur, vinaslit og viðkvæmir unglingar

Rut Guðnadóttir sigraði í handritakeppninni um Íslensku barnabókaverðlaunin í ár með ungmennabókinni Vampírur, vesen og annað tilfallandi. Fyrir um ári síðan var sérstaklega kallað eftir handritum að ungmennabókum í samkeppnina, enda mikil þörf á bókum fyrir ungmenni á íslenskum bókamarkaði.

Það tilfallandi

Lífið á unglingsárum er langt frá því að vera auðvelt – ekki síst þegar maður er nýbyrjaður í áttunda bekk, líkaminn tekur breytingum, hugurinn er á þeysiferð og maður uppgötvar að kennarinn manns sé vampíra sem sýgur lífsorkuna úr nemendum. Þetta er raunveruleiki Millu, Rakelar og Lilju í bók Rutar. Stelpurnar hafa verið vinkonur frá því þeir voru saman í leikskóla, en eins og oft vill verða þá hafa þeir allar breyst í gegnum árin. Þær eru að vaxa hvor frá annarri, hafa mismunandi áhugamál og fara jafnvel í taugarnar hvor á annarri. Það er alls ekki auðvelt að halda við vinskapnum! En þær þurfa að standa sameinaðar gegn vampíruógninni.

Flókið tilfinningalíf unglingsins

Persónusköpun Rutar er skemmtileg og það er greinilegt að hún hefur lagt mikla vinnu í að skapa heim í kringum hverja aðalpersónu bókarinnar. Milla er mjög samviskusamur námsmaður sem fær alltaf háar einkunnir og er með sérstakan áhuga á íslenskri tungu. Rakel er rebellinn – gengur bara í svörtu, hlustar á þungarokk og glímir við mikla sálarangist þar sem foreldrar hennar skildu og mamma hennar flutti til Ástralíu. Lilja er fullkomnunarsinni sem er að bugast undan mikilli pressu frá mömmum sínum að standa sig vel í flautunámi, skautum og skólanum. Sjálfri finnst Lilju hún ekki hafa neina stjórn á neinu nema matnum sem hún borðar. Lesandinn sér mjög djúpt inn í sálarlíf allra þriggja, þó kannski síst Millu sem er alltaf svolítið lokuð hvort eð er.

Ég hef heyrt út undan mér að ungmenni vilji fremur lesa bækur sem séu jarðbundnar og fjalli um þeirra reynsluheim. Hvort það er rétt, þurfa ungmennin sjálf að svara fyrir. Það kom mér satt að segja á óvart að Vampírur, vesen og annað tilfallandi skyldi falla í þann flokk, enda gefur nafnið til kynna að eitthvað ójarðneskt búi í bókinni. Grunsemdir Millu, um að kennarinn þeirra sé vampíra, væri mjög auðvelt að útskýra sem myndgervingu á áhyggjum hennar af veikindum systur hennar. Vampíran sé í raun vandamál þeirra stelpna sett saman í eina sameinaða ógn sem á einhvern hátt er auðveldara að tækla en ógnir unglingsáranna. Mikill hluti af bókinni fer einmitt í að ræða tilfinningalíf þeirra; það eru vinslit, uppgjör, rifrildi, ógnir og spenna. Allt er þetta skrifað af nokkru öryggi og frumraun Rutar á ritvellinum er nokkuð góð afþreying. Stíllinn er gamansamur og uppfullur af húmor og hnyttnum tilsvörum.

En, kæri lesandi, ef þú vilt ekki lesa afhjúpun á fléttu Rutar, þá skaltu ekki lesa lengra.

Þegar leið á lestur bókarinnar fóru að renna á mig tvær grímur. Ég var í raun orðin sannfærð um að vampíran væri ekkert meira en myndgerving og fannst bókin ekkert síðri fyrir vikið. Það er þörf á bókum sem fjalla um líf ungmenna, bókum sem tækla vandamál og erfiðleika og gleði og þrár þeirra. Mér fannst bókin svara ákveðnu kalli og ég fagnaði því. Svo miklu púðri var eytt í tilfinningalíf stelpnanna og á löngum köflum var ekkert rætt um yfirvofandi vampíruógn að ég hélt að stelpurnar myndu yfirgefa hugmyndina og sjá að það sé út í hött að kennarinn þeirra sé vampíra. En svo sneri Rut á mig! Vampíran var raunveruleg eftir allt saman og í lok bókarinnar þurfa stelpurnar að sameina krafta sína gegn gríðarstórri og fornri vampíru og berjast upp á líf og dauða. Til allrar lukku er hundurinn Sveppur þeim innan handar.

Vampírur, vesen og annað tilfallandi er fyndin og skemmtileg bók sem tekur á mörgum vandamálum sem fylgja því að vera unglingsstúlka. Bókin kom á óvart.

 

 

Lestu þetta næst

Fangelsi hugans

Fangelsi hugans

Hvað ef þú værir geimvera? Og geimskipið þitt hefði skilið þig eftir á jörðinni, í venjulegri,...

Anniemenni

Anniemenni

Anniemenni (e. Annie bot) eftir Sierra Greer  Annie er vélmenni. Hún er með hleðslustöð í hælnum,...

Með iðrun úti

Með iðrun úti

Þrjár stúlkur á sautjánda ári pyntuðu skólasystur sína og kveiktu í henni í rólega breska...

Þú ert Blú!

Þú ert Blú!

Ég er mætt á söngleikinn Vitfús Blú og vélmennin. Ljósin kvikna og þrjár verur stíga á mitt sviðið. Þetta eru örlagaskvísurnar sem segja og syngja söguna með ákveðni og stæl. Sagan fjallar um nýjan heim, árið er 3033 og vélkvendið Algríma Alheimsforseti ætlar sér að taka yfir heiminn. En samkvæmt fornum spádómi eru örlög mannkynsins í höndum hins unga Vitfúsar Blú. Hann er eins konar messías sem þarf að bjarga öllum, þrátt fyrir að vera frekar klaufskur og einfaldur. Það er augljóst að verkið og sýningin er unnin með miklu hjarta alveg frá fyrstu drögum, mikil orka streymir frá leikhópnum og leikgleði einkennir verkið.

Ljóðræn hrollvekja

Ljóðræn hrollvekja

Þegar bækur sitja í huga manns lengi eftir lestur þá hefur maður dottið niður á góða bók, það er...