Truflaður framtíðartryllir

Ætli þetta sé ekki uppáhaldskápan mín í flóðinu?

Það hefur alltaf verið einhver drungi og mystería yfir skrifum Steinars Braga og er því sérlega gaman að taka upp bók eftir hann í skammdeginu. Í þetta sinn ber hann á borð framtíðartryllir, vísindaskáldsögu, sem gerist í hjarta Reykjavíkur. Lesandinn fylgir Höllu, forvitnum félagsfræðingi, yfir í nýja vídd sem hefur verið kölluð Truflunin.

Tvær víddir á tveimur tímum

Halla hefur verið valin í hálfgjöran sjálfsmorðs leiðangur til að kanna þessa nýju vídd. Fleiri agentar hafa verið sendir inn og margir þeirra látist á fyrstu augnablikunum, sumir þó lifa af og eru að rannsaka eiginleika þessarar víddar sem á sér stað á öðru tímaplani en raunveruleikinn sem kallaður hefur verið Umheimur. Á nokkrum mínútum í Trufluninni líða nokkrar vikur í Umheimi. Þessi flækja gerir það að verkum að bókin gerist mjög hratt, en á sama tíma mjög hægt, þar sem agentar fá upplýsingar og ítarlegar greiningar á atburðum senda frá Umheimi sem unnar hafa verið á mörgum vikum eða mánuðum, en aðeins klukkutímar hafa liðið í Trufluninni. Sjálf var ég mjög hrifin af þessu en hef sjálf ekki lesið aðra bók sem inniheldur slíka heima þar sem samskipti geta átt sér stað á þennan hátt og á svona mismunandi tímaplönum. Árið er 2034 í Umheimi en 2030 í Trufluninni.

Rannsókn í furðuheimi

Halla hefur fengið það verkefni að finna verkstjóra sem fær ekki frekara nafn en F. Hún skar úr sér staðsetningarflöguna og lét sig hverfa eftir að hafa sent óhugnaleg skilaboð til Umheims. Halla er mjög ringluð eftir komuna í Truflunina og á erfitt að átta sig á tilgangi sínum og öllu því sem er að gerast. Halla kemst þó á slóð F og fer rólega að véfengja heiminn og öll þau samtöl sem hún á við aðra. Það er eitthvað skakkt, eitthvað sem hún áttar sig ekki alveg á að vantar. Rannsóknin tekur yfir og hún er send á milli staða til að leita vísbendinga um hvarf F.

Mikil vinna hefur verið lögð í allskonar rannsóknarvinnu fyrir flókinn heim bókarinnar, hann er tæknilegur og mikil þekkingarleit á sér stað sem setur kröfur á lesandann til að vera vel vakandi yfir lestrinum. Það er erfitt að segja eitthvað um þessa bók án þess að segja of mikið. Ég held samt að hvað sem ég segi muni bara lesa tilvonandi lesanda bókarinnar enn meira. Sem lesandi er maður mjög áttavilltur og stöðugt í leit að svörum líkt og Halla, en í hvert skipti sem hún fær einhverskonar svör flækist málið bara enn meir. Forvitinn lesandi mun ekki geta lagt bókina frá sér fyrr en hann fær svörin sem hann leitar að. Hver er hin raunverulega Truflun?

Bókin er sálfræðileg og vísindaleg athugun á manneskjunni og heiminum sem við búum í. Hvað ber framtíðin í skauti sér? Tengingar við samtímann eru til staðar, vísað er í kórónuveiruna sem heldur því miður áfram að dreifast þessa dagana og meðal annars er minnst á Gretu Thunberg og afleiðingar loftslagsvandans.

 

Truflunin drungaleg og spennuþrungin bók sem tekur lesandann í ferðlag um heim sem hefur verið mögulega yfirtekinn af tækni eða jafnvel öðrum yfirskilvitslegum verum. Bókin er virkilega vel skrifuð og það er mjög jákvætt að fá þessa bók inn í flóru íslenskra skáldsagna.

 

Lestu þetta næst

Í heimi Juliu Quinn

Í heimi Juliu Quinn

  Nú þegar þriðja serían af Bridgerton fer bráðum í loftið er kannski kominn tími til að ég...