Fyrsta bók Maríu Elísabetar kom út hjá Unu útgáfuhúsi í nóvember. Bókin er samansafn af sjö smásögum þar sem lesandi fær að gæjast inn í líf fjölbreyttra persóna úr íslenskum raunveruleika.

Þemu sagnanna eru fjölbreytt en í hverri þeirra eru samskipti í fyrirrúmi og leit persónanna að sínum stað í lífinu. Sambönd á milli fjölskyldumeðlima, vina og jafnvel ókunnugs fólks eru skoðuð á skarpan og meðvitaðan hátt. Sögurnar hitta einhvernveginn allar í mark sem er alls ekki sjálfsagt í  smásagnasöfnum.

Íslenskur raunveruleiki

Höfundi tekst að staðsetja sögurnar vel í rammíslenskum raunveruleika, umhverfið og andrúmsloftið er vel mótað. Sem dæmi má nefna lýsingarnar af íslensku næturlífi sem eru mjög raunsæar. Auðvelt er að tengja við upplifanir Steinunnar í sögunni „Frjáls andi“ en hún virðist ekki alveg finna sig í eigin skinni. Hún er að læra hagfræði en er úti á djamminu með listrænum vinahópi vinkonu sinnar. Henni finnst hún ekki heima með þeim eða í umhverfi sínu. Sagan gerist á ónefndum bar í miðbæ Reykjavíkur en auðvelt er að geta til um hver hann er. Hún er ung kona með brotið hjarta og brotna sjálfsmynd.

Frá sjónarhorni barna

Tvær sögur eru frá sjónarhorni barna, „Mannleysa“ og „Ég er ekki kona, ég er sjö ára“ en í báðum sögum er sjónarhornið nýtt til að framandgera vandamál fullorðinna og varpa ljósi á barnlegt sakleysi og uppgötvun þeirra. Í „Mannleysu“ eignast ung stúlka besta vin eftir að strákur flytur inn með einstæðri móður sinni í blokkkina hennar og segir henni sögu af draugastúlku sem býr í rúminu hans. Í sögunni er fjallað um þunglyndi, framhjáhald og óhugnalegar aðstæður, allt frá sjónarhorni barnanna. Í „Ég er ekki kona, ég er sjö ára“ eru það systur sem eru í aðalhlutverki en önnur þeirra bíður í ofvæni eftir fyrstu blæðingunum á meðan sú yngri eltir hana eins og skugginn og hlustar á furðusögur eldri systurinnar. Móðir þeirra er með kvennaboð á neðri hæðinni og verða til skörp skil á milli raunveruleika ungra stúlkna og miðaldra kvenna. Það er alltaf áhugavert að skoða heiminn út frá sjónarhornum barna og í þessum sögum er það gert einstaklega vel.

 

Sögurnar eru fullmótaðar og hefur höfundi tekist að skapa djúpar og breyskar persónur í hverri einustu sögu. Smásagnasafnið hefur einnig mjög heildstæðan blæ sem gerir það enn sterkara. Herbergi í öðrum heimi er mjög sterkt byrjendaverk og er furða að fleiri bækur hafi ekki nú þegar komið frá höfundinum.

Lestu þetta næst

Út í geim

Út í geim

Ég er stjörnufræðinörd og hef horft á fleiri heimildarmyndir um fjarlægar plánetur á...

Sumarleg og fjörug sandkaka

Sumarleg og fjörug sandkaka

Nýlega kom út Mamma Sandkaka, lífleg og fallega myndlýst barnabók eftir Lóu Hlín Hjálmtýsdóttur....

Flugur á sad beige vegg

Flugur á sad beige vegg

Við erum stödd á fyrstu frumsýningunni á stóra sviðinu á leikárinu. Það er verið að fara sýna...