Rithornið: Fjórar örsögur

Fjórar örsögur

Eftir Svan Má Snorrason

 

Búðarferðin

Eftir að hafa daðrað við þunglyndið og þrifið klósettið þennan þunga sunnudag í febrúar tók Sigurgeir Páll þá ákvörðun að bregða sér í búðarferð; hætta sér út í óveðrið sem geisaði, þótt degi væri tekið að halla. Hann skrifaði á miða það helsta sem vantaði: nýmjólk, sælgæti og appelsínusafa. Hélt svo af stað fótgangandi, enda dekkin á jeppanum hans slitin. Skórnir hans Sigurgeirs Páls, en nafn þetta völdu foreldrar hans út í loftið, voru einnig slitnir, en þó ekki eins mikið og dekkin á jeppanum. Litlu mátti muna að hann rynni beint á rassinn þegar hann var búinn að ganga nokkur skref frá hvítu blokkinni sem hann bjó í, enda hættulegt að ganga í slitnum skóm þegar úti er sterkur vindur og hálka. Þessi búðarferð hressti hins vegar Sigurgeir Pál andlega, vonda veðrið hafði góð áhrif á hann. Og þegar við bættist að ungi, granni, ljóshærði og frekar andlitsfríði afgreiðslumaðurinn á kassanum í versluninni var kurteis, og að hann skyldi sjá gamla bekkjarsystur, án þess þó að tala við hana, sem hann var eitt sinn hrifinn af, var það niðurstaða Sigurgeirs Páls að þessi búðarferð hefði gert honum gott.

 

Epli á safni

Með hálfétið gult epli í annarri hendi og reiðhjólahjálm á höfðinu gramsaði hún með hinni hendinni í veskinu sínu, sem var svart á lit og greinilega ekki langt síðan hún festi kaup á því, í leit að kortinu sínu.

Á meðan grét fjögurra ára gamalt barn á meðan þolinmóður faðir þess reyndi að klæða það í úlpu.

Tuttugu og einni mínútu áður skilaði þéttvaxin kona bókum angandi af svitalykt; bækurnar voru sveittar en ekki konan.

Þegar konan með ríflega hálfétna eplið í annarri hendi virtist ekkert á leiðinni að finna kortið og biðröðin tekin að lengjast verulega greip ég í síðasta hálmstráið og náði að hætta að einblína á eplið og koma út úr mér einu óbrjáluðu setningunni sem í huga mínum var:

„Segðu mér bara kennitöluna.“

 

Reykingar

Þegar við æskuvinirnir þrír (tólf ára gamlir, árið 1983), báðum eiganda sjoppunnar á horninu á Helllisgötu og  Norðurbrautar í Hafnarfirði um að fá að hringja, þóttumst við bara hringja og teygðum okkur í sígarettupakka sem voru staðsettir rétt hjá símanum og héldum síðan í Hellisgerði að reykja.  Sjoppueigandinn rukkaði okkur aldrei fyrir símtölin en var einn daginn búinn að færa símann, þannig að það eina sem var nálægt honum var þurrmatur fyrir ketti. Reykingum var því sjálfhætt.

Í bili.

 

Minning

Það er haustið 1987 og ég sit í aftursæti lögreglubifreiðar með blóð á höndum, í jakka, skyrtu og buxum.

Nýkominn út af busaballi Flensborgarskólans sem haldið var í Festi í Grindavík, eins og hefð var fyrir á þeim árum. Balli sem var gegnsósa af ölvun, slagsmálum, fjöri og skemmdarverkum á klósettum. Ég er busi á leiðinni frá Grindavík á sjúkrahúsið í Keflavík. „Þú lifir þetta af“ segir við mig keflvískur landsliðsframherji í körfuknattleik sem á þessum tíma lék með heimaliðinu og starfaði sem lögregluþjónn á Suðurnesjum, en gerði síðar garðinn frægan með KR. Það er traust í röddinni og góðlátlegt bros á vör. Ég lít upp til hans, í tvennum skilningi. Ber virðingu fyrir honum og svo er hann stór. „Það verður allt í lagi, engar áhyggjur. Þetta verða aðeins nokkur spor og það er góður tími framundan“ segir hann við grindhoraðan unglinginn sem veit ekki hvort hann á að vera stoltur eða skömmustulegur; það er jú dálítið töff að vera skorinn, blóðugur og blindfullur á balli. En á hinn bóginn óttalega glatað að vera í raun á hálfgerðu ímyndunarfylliríi, hafandi hrasað og lent á glerbroti með hægri höndina. Með smáskurð, en fjandi djúpan, sem útskýrir allt blóðið. Engin dramatík – bara klaufaskapur. Í útvarpinu í lögreglubílnum hljómar lagið What Have I Done to Deserve This? með Pet Shop Boys og Dusty Springfield og frá þeirri stundu er lagið greypt í huga mér – lagið sem rammaði inn minninguna um skaðaða unglinginn í leit að sjálfsmynd sem keyrður var af lögreglunni inn í menntaskólaárin.

[hr gap=”30″]

Svanur Már Snorrason fæddist 25. maí árið 1971. Hann hefur gaman af skrifum og hefur lengi verið heillaður af smásagna- og örsagnaforminu.

Svanur hefur lengst af haft lifibrauð sitt af blaðamennsku og því að vera vörður bóka í Hafnarfirði.

Hann er stúdent frá Flensborgarskóla og er með BA-próf í almennri bókmenntafræði frá HÍ.

Lestu þetta næst

Dulmögnuð spennusaga

Dulmögnuð spennusaga

Nýlega kom út framhald bókarinnar Dauðaleit eftir Emil Hjörvar Petersen inn á Storytel. Bannhelgi...

Föst í Hulduheimi

Föst í Hulduheimi

Það er farið að líða á haustið. Úti er rökkur, rakt og kalt. Náttúran fellur í dvala og sjálf...

Drekar, dauði og erótík

Drekar, dauði og erótík

Hafi man eitthvað fylgst með bókaumræðum á samfélagsmiðlum á þessu ári þá er ansi líklegt að man...