Systkinin Þórarinn og Sigrún Eldjárn hafa sent frá sér nýja ljóðabók fyrir börn. Bækur sem þessar hafa lengi verið í uppáhaldi hjá okkur fjölskyldunni, alveg frá því ein amman gaf bókina Óðhalaringla á heimilið. Bókin var lesin í hengla og myndirnar skoðaðar þar til blekið dofnaði.

Gleði og hringavitleysa

Þórarni bregst ekki bogalistin í orðum að þessu sinni, fremur en áður. Hann er bráðfyndinn og innilegur. Í nokkrum ljóðum sér maður glitta í afa, sem nýtur afahlutverksins. Þannig verða sum ljóðin persónulegri en önnur. En hans sérsvið er  orðaleikur. Hann hefur ótrúlegt lag á að hringsnúa lesandanum fram og aftur þar til hann veit ekki hvort hann er hér eða þar, eins og í samnefndu ljóði.

Sigrún myndlýsir bækurnar snilldarlega. Með myndunum túlkar hún ljóðin fyrir unga lesendur, setur orðin í samhengi. Á sama tíma heldur hún augunum föstum við síðurnar því myndirnar örva hugaraflið og sumar vekja spurningar. Uppáhald okkar mæðgina (þar sem ungi lesandinn er á fjórða ári) er myndin af fingrunum sem eru annað hvort heitir eða kaldir. Það þarf að bera eigin hendi saman við myndina, velta fyrir sér teikningum. Finna! Þannig tekst Sigrúnu að fá barnið með í upplifunina af bókinni og gera bókina eftirsóknarverða. Þetta eru jafnan fyrstu ljóðin sem við lesum í bókinni. Síðar í bókinni hefur Sigrún teiknað mynd af eldgleypi. Saman hafa Sigrún og Þórarinn gert sögu ljóslifandi fyrir ungum lesendum og það er hægt að hlæja saman, því grænn, blár og bleikur reykur úr rassi er alltaf fyndinn.

Lesum ljóð fyrir börn!

Fyrir nokkru síðan átti ég samtal við leikskólakennara. Hún var mér ansi ósammála um að krakkar hefðu gaman af ljóðum og vísum. Ég náði ekki að segja það við hana þá, svo ég segi það nú: Krakkar hafa ekki gaman af ljóðum og vísum ef þau eru aldrei kynnt fyrir þeim. Séu þau kynnt fyrir ljóðunum, hrynjandinni, orðanotkuninni og örðuvísi formi þá ætti ekkert að vera því til fyrirstöðu að ljóðin heilli. Með ljóðum er orðanotkun fjölbreyttari og oft tvíræð. Ljóðin dýpka skilning á tungumálinu og auka orðaforða. Ég mæli heilshugar með ljóðaforminu fyrir börn.

Bókin er fallega appelsínugul (sem kemur sér vel, það er uppáhaldslitur hins unga álitsgjafa) og minnir á sumarið og heita daga sem eru framundan. Bókin er tilvalin sumargjöf til ungra lesenda.

Lestu þetta næst

Köld slóð

Köld slóð

Eva Björg Ægisdóttir sigraði Svartfuglinn með glæpasögu sinni Marrið í stiganum árið 2018 og hefur...