Nú er þriðja bókin eftir Bergrúnu Írisi um kláru krakkana í BÖ-bekknum komin út en hún ber heitið Kennarinn sem kveikti í. Áður hafa komið út bækurnar Kennarinn sem hvarf og Kennarinn sem hvarf sporlaust.

Í þetta sinn er sagan sögð af Fannari, gáfaðasta dreng bekkjarins sem tekur öllu frekar bókstaflega. Hann telur sig þroskaðri en jafnaldrar sínir, þykir best að vera einn og tekur námið grafalvarlega. Þegar afleysingarkennarinn Engilbert birtist á fyrsta skóladeginum líst honum ekki á blikuna þar sem hann hefur ekki einu sinni kennararéttindi! Börnin verða þó spennt þegar Engilbert skipuleggur skemmtilegan ratleik fyrir þau eftir skóla en allt er ekki eins og það sýnist og börnin þurfa að leysa erfiðar þrautir og lenda í lífsháska!

Ein krumpa hér og þar

Fannar er yndisleg persóna, hann er drengur sem er á rófinu og er upplifun hans á heiminum einstök. Mér var hugsað til Furðulegs háttarlags hunds um nótt og þáttanna The Good Doctor við lesturinn. Lesandinn heldur með honum í baráttu hans gegn hrekkjusvínunum Axel og Óla Steini sem leggja hann í einelti daglega og fagna því þegar hann eignast að lokum vini og sýnir einkar mikið hugrekki. Ég verð að deila hér fallegri hugleiðingu Fannars úr bókinni: „Kannski eru menn eins og bækur. Sumir fullkomlega sléttir og því dálítið óspennandi. Aðrir eru þvældir og krumpaðir eftir mistök, ferðalög og ævintýri. Kannski er í lagi að ég hafi eina og eina krumpu hér og þar. Ekki fullkominn, en samt í fínu standi.“ (bls. 71)

Nútímabörn

Textinn hennar Bergrúnar flæðir vel og er auðlesanlegur. Það er eitthvað þægilegt við hann sem veldur því að varla er hægt að leggja bókina frá sér fyrr en maður er búinn. Mesti styrkleiki bókarinnar mikill skilningur höfundar á nútímabörnum, börnum sem horfa á Netflix, fara í Roblox og búa til myndbönd á TikTok. Þetta eru allt fyrirbæri sem eru nefnd í bókinni og krakkar munu strax tengja við.

Kennara-bækurnar hafa allar sömu formúlu, fyrst kynnist lesandinn aðalsöguhetjunni sem hefur ákveðna baksögu sem varpar ljósi á fjölbreytileika fjölskyldna og heimilslífs. Næst tekur við einskonar ratleikur eða gátukeppni sem illmenni bókanna hefur skipulagt. Á meðan á því stendur þroskast börnin og þá sérstaklega söguhetjan sem í lok bókar hefur lært eitthvað nýtt og öðlast dýpri sjálfsskilning. Þetta er formúla sem virkar mjög vel, hún inniheldur spennu, dýpt og ákveðinn léttleika, fyndni. Enda leyna vinsældir bókanna sér ekki. Kennarinn sem kveikti í er mín uppáhaldsbók úr seríunni en Bergrún Íris hefur fínpússað og fullkomnað formúluna með þessari þriðju bók með því að breyta nógu miklu til að koma lesandanum á óvart.

Kennarinn sem kveikti í er spennandi barnabók beint úr nútímanum sem talar tungumál barna dagsins í dag. Krakkar munu spæna hana í sig!

Lestu þetta næst

Mjóifjörður kallar

Mjóifjörður kallar

„Ég get nú ekki sagt að ég hafi kunnað vel við mig á frumkvöðlanámskeiðinu en mér þótti gaman að...

Heillandi jóladraumar

Heillandi jóladraumar

Íslenski dansflokkurinn býður upp á Jóladrauma þessa aðventu. Um er að ræða danssýningu fyrir börn...

Næturbrölt

Næturbrölt

Í fyrra lásum ég og drengurinn minn bókina Tannburstunardagurinn mikli og vorum hæstánægð. Næsta...

Að ánetjast eldri konum

Að ánetjast eldri konum

Ég hef verið áðdáandi Evu Rúnar núna í þónokkur ár. Ljóðabækurnar hennar og örsagnasöfn hafa verið...