Hrun heimsmyndar Hallgríms

Sæunn Gísladóttir

Á sunnudagseftirmiðdegi ákvað ég að veðja á það að Stóra bókin um sjálfsvorkunn væri góð baðbók; Þegar ofan í baðið er komið er erfitt að skipta um bók og því ljóst að vanda þarf valið. Ég reyndist sannspá þennan sunnudag og sökkti mér hratt ofan í baðvatnið sem og bókina. Stóra bókin um sjálfsvorkunn er fyrsta skáldsaga Ingólfs Eiríkssonar, en þrátt fyrir ungan aldur hefur hann þegar sent frá sér ljóðsöguna Klón: Eftirmyndasaga og ljóðabókina Línulega dagskrá. Ingólfur hlaut Nýræktarstyrk Miðstöðvar íslenskra bókmennta fyrr á þessu ári fyrir skáldsöguna.

 

Sambandsslit í gær, geðdeild í dag

Bókin segir frá Hallgrími, ungum manni á þrítugsaldri sem í kjölfar sambandsslita hrökklast heim úr leiklistarnámi í stórborg í Bretlandi til að fara á geðdeild. Sagan hefst í miðri atburðarrás þar sem Hallgrímur er á flugvellinum á leiðinni heim og strax á fyrstu síðu kemur fram að í gær hafi fimm ára sambandi þeirra Aðalheiðar lokið og hann sé nú á leið á geðdeild. Þegar heim er komið er ljóst að Hallgrímur þjáist af sjálfsvígshugsunum og er mikil sjálfsvinna fyrir höndum.

Vísbendingar úr fortíðinni

Í bókinni er flakkað fram og til baka í tíma í stuttum köflum, Hallgrímur minnist æskunnar, fyrstu daganna í erlendu stórborginni þegar allt lék í lyndi og samtímis þess fylgist lesandinn með Hallgrími á heimili foreldra sinna á Íslandi að takast á við geðheilsu sína. Strúktúrinn virkar vel, það er eins og Hallgrímur sé stöðugt að detta inn og út úr fortíðinni í hausnum á sér og lesandinn fylgir honum eftir, í von um vísbendingar úr fortíðinni sem skýra ef til vill núverandi ástand hans. Í gegnum söguna segir frá nánu sambandi Hallgríms við móðurbróður sinn Gísla og einnig er sterk nærvera móðursystur hans, skáldsins Grímu, alltumliggjandi. Dulúð ríkir yfir fortíð þessara systkina og gömul fjölskylduleyndarmál brjótast upp á yfirborðið.

Mörk hugsana og raunveruleika

Stíllinn er góður og áreynslulaus og flæðir lesandinn auðveldlega í gegnum kaflanna með tilheyrandi spennu um hvað koma skal. Það eru margar fallegar línur í bókinni án þess þó að það trufli flæðið. Þegar á líður í bókinni verða hugsanir Hallgríms tættari og fer hugur hans enn hraðar úr einu í annað og mörkin milli hugsana og raunveruleikans verða óskýrari; Þannig upplifir lesandinn með honum hvernig Hallgrímur er hægt og rólega að missa jarðtenginguna.

Efnistök bókarinnar eru ekki sérstaklega frumleg en Ingólfur fer létt með að koma vel uppbyggðri sögu frá sér, með aðalpersónu sem auðvelt er að þykja vænt um og trúverðugum samtölum. Aðrar persónur hefðu mátt fá meira rými, en þar sem sagan er sögð frá sjónarhorni Hallgríms einkennir alltaf ákveðin fjarlægð þær. Bókin er auðlesin og því tilvalin baðbók! Það verður spennandi að fylgjast með hvað kemur frá Ingólfi næst.