1,4 kíló af hnignun

„Bók með prósentum í stað blaðsíðutals? Er það ekki svolítið typpalegt?“ spurði vinur minn eftir að ég lýsti í löngu máli uppsetningu og útliti bókarinnar sem ég var nýbyrjuð að lesa. Þetta voru frumlegustu viðbrögðin sem ég fékk þegar ég nefndi bókina Ljósgildran eftir Guðna Elísson, eða sást dröslast með hana um bæinn. En eitt er víst að allir höfðu skoðun á henni og sú skoðun var oft á tíðum er þessi bók ekki allt of þykk? Bókin er vissulega svolítill hlunkur, akkúrat 800 fallega innbundnar blaðsíður, 1,4 kg, og vekur athygli hvert sem hún fer.

Ljósgildran fjallar um dularfullt mannshvarf, ástir samlindra hjóna, sorg og missi, stjórnmálaástand Íslands, hrun og veirur og loftslagsvá og fylgir eftir skáldum, ævintýrapersónum og stjórnmálamönnum.

Lifandi, fyndin og gælir við súrrealisma

Eftir að hafa klárað hana er ljóst að hún á athyglina skilið, og þá frekar fyrir innihaldið en útlitið. Textinn er mjög lifandi og fyndinn og maður er mun fljótari að lesa hana en við væri að búast ef maður lætur þykktina hræða sig. Fyrir bókmenntafræðinga og fleiri lestrarperra er svo ótrúlegt magn af tilvísunum sem teygja sig um víðan völl, allt frá rússneskum heimsbókmenntum til Dante, hefðbundinna ástarsagna og vaðið er inn og út úr kanónunni. Einnig tengist bókin innbyrðis og vísar í sjálfa sig svo erfitt væri að stytta textann án þess að missa merkingu úr frásögn og framvindu. Bókin er heldur ekki hrædd við að gæla við súrrealismann, án þess þó að detta alveg ofan í hann, sem mér finnst gefa textanum skemmtilega ævintýralegan blæ, allt getur gerst án þess þó að nokkuð muni endilega gerast. Lýsingar á sálarlífi persónanna eru djúpar og áhrifaríkar og knöpp kaflaskipting á milli tilfinningalífs og hugsana aðalpersónanna gerir bókina eins og samansafn fullmótaðra smásagna sem mætti lesa sér en tengjast þó allar heildinni.

Ég reyndi að ákveða hverju mér fannst bókin líkjast, því ekki líkist hún mörgum íslenskum systrum sínum í stíl, stærð og stemningu. Það næsta sem ég komst einhverju var að hún minnir mig aðeins á feitar bandarískar bækur um kynslóðir og samtíma eins og Middlesex eða bústinn, rússneskan doðrant um eymd og sjálfsvíg. Samt ekki. Og ég á að baki margra ára bókmenntafræðinám til að komast að þessari djúpu niðurstöðu, takk fyrir.

Úthugsuð talnafræði

Að lokum er ekki hægt að minnast á bókina án þess að tala um uppsetninguna. Hver einasta síða er úthugsuð, sem og kaflaskiptingin og lengdin. Bókin mátti alls ekki enda á prímtölu (hvaða siðleysingi myndi líka enda skáldverk á prímtölu?) og hægt er að skipta henni í ótal jafna hluta. Á toppi talnafræðilegra pælinga á bak við uppsetningu tróna svo prósenturnar fyrrnefndu. Í ljós kemur að það að hafa prósentutölu sem segir til um framgang bókar er ekki eingöngu vísun í rafbækur og nútímann heldur gerast atburðir á prósentulega mikilvægum stöðum í bókinni. 25%, 50%, 75%, 33% og svo mætti lengi telja, öll kúl prósent hafa sinn stað og sína mikilvægu stund. Svo rétt eins og þegar maður les kvikmyndahandrit að spennumynd og veit að það verður sprenging á þriðju blaðsíðu veit maður að eitthvað merkilegt mun gerast í Ljósgildrunni þegar kynþokkafull prósenta er skammt undan.

Lokaniðurstaðan er: endilega lesið bókina. Markhópurinn eru allir og enginn, hún spannar vítt svið forms og stefnu og allir ættu að finna eitthvað í henni við sitt hæfi. Við skulum auk þess ekkert láta stærðina hræða okkur, lesum bókina bara eins og við myndum borða fíl, eitt prósent í einu. Svo er tilvalið að gefa foreldrum og systkynum Ljósgildruna í jólagjöf og ræða talnafræði og hnignun í fjölskylduboðum út næsta ár.

Lestu þetta næst

Fangelsi hugans

Fangelsi hugans

Hvað ef þú værir geimvera? Og geimskipið þitt hefði skilið þig eftir á jörðinni, í venjulegri,...

Anniemenni

Anniemenni

Anniemenni (e. Annie bot) eftir Sierra Greer  Annie er vélmenni. Hún er með hleðslustöð í hælnum,...

Með iðrun úti

Með iðrun úti

Þrjár stúlkur á sautjánda ári pyntuðu skólasystur sína og kveiktu í henni í rólega breska...

Þú ert Blú!

Þú ert Blú!

Ég er mætt á söngleikinn Vitfús Blú og vélmennin. Ljósin kvikna og þrjár verur stíga á mitt sviðið. Þetta eru örlagaskvísurnar sem segja og syngja söguna með ákveðni og stæl. Sagan fjallar um nýjan heim, árið er 3033 og vélkvendið Algríma Alheimsforseti ætlar sér að taka yfir heiminn. En samkvæmt fornum spádómi eru örlög mannkynsins í höndum hins unga Vitfúsar Blú. Hann er eins konar messías sem þarf að bjarga öllum, þrátt fyrir að vera frekar klaufskur og einfaldur. Það er augljóst að verkið og sýningin er unnin með miklu hjarta alveg frá fyrstu drögum, mikil orka streymir frá leikhópnum og leikgleði einkennir verkið.

Ljóðræn hrollvekja

Ljóðræn hrollvekja

Þegar bækur sitja í huga manns lengi eftir lestur þá hefur maður dottið niður á góða bók, það er...