Martraðakennd tilvera travesta

Í þessari myrku og mögnuðu bók fær lesandinn að kynnast kynlífsverkakonum, eða travestum, sem hópast saman í Sarmiento-garðinum í Córdoba, Argentínu, til að sinna vinnu sinni. Garðurinn er griðarstaður þeirra þar sem þær geta verndað hvor aðra og sterk vináttubönd myndast. Bókin inniheldur stórt persónugallerí en sumum persónunum fær lesandinn aðeins að kynnast í örskamma stund. Í miðpunkti er unga travestan Camila og fær lesandinn innsýn inn í þennan drungalega en jafnframt töfrandi heim í gegnum augu hennar. 

Rýnum aðeins í verkið Drottningarnar í garðinum eftri Camila Sosa Villada. Birta Ósmann Þórhallsdóttir sá um þýðingu. 

 

Hópur travesta er á röltinu. Þær eru í skjóli trjánna. Þær virðast hluti af sömu lífverunni, frumum sama dýrsins. Hreyfa sig eins og hjörð. Kúnnarnir aka hjá á bílunum sínum, hægja ferðina þegar þeir sjá hópinn, velja eina og kalla hana til sín með bendingum. Sú útvalda svarar kallinu. Þannig gengur þetta nótt eftir nótt. (bls. 7)

Bókin er hjúpuð töfraraunsæi, frásögnin er átakanleg en furður sem birtast í sögunni passa að lesandinn sökkvi ekki of djúpt ofan í myrkan kjarnann. Hauslausir menn eru jafn eðlilegur partur af tilverunni og ungbarnið sem finnst grátandi ofan í skurði sem fær nafnið Blik augnanna. Í þessum heimi hrærist Camila sem gengur í háskóla á daginn en á næturnar leitar hún kúnna í garðinum. Camila kemur frá smábæ þar sem hún mátti þola mikið einelti og ofbeldi vegna kvenleika síns, „Dag einn er ég í fjölskylduboði og pabbi segir: ,Ef ég ætti son sem væri annaðhvort hommi eða í dópi, myndi ég drepa hann. Til hvers að eiga þannig son?’“ (bls. 81). Faðir Camilu beitir móður hennar ofbeldi og hikar ekki við að ógna Camilu. Líf hennar hefur verið ein martröð.

 

Vináttubönd í martraðakenndri tilveru

Það er kannski gott orð til að lýsa bókinni, hún er martraðakennd, tilvera travestanna er uppfull af ofbeldi, ógn og erfiðleikum. Frásagnirnar í bókinni eru eins og óhugnanleg ævintýri þar sem raunveruleikinn er sveigður og yfirnáttúrulegir hlutir eiga sér stað. En vináttan er þó rauður þráður, og ástin, sem fær þó aldrei að njóta sín. Ein aðalfígúra verksins er Encarna frænka sem býður allar travestur velkomnar í bleika húsið sitt, „hýrasta heimili bæjarins,“ (bls. 13), þar eiga þær allar skjól. Encarna er sögð hundrað sjötíu og átta ára gömul, hún er illa farin af áratugalöngu ofbeldi, jú og iðnaðarsílíkoninu sem hún mótar líkamann með. Tilgangur hennar verður barnið, Blik augnanna, en þó að móðurhlutverkið veiti henni alla þá hamingju sem hún hefur þráð, eru travestur aldrei látnar óáreittar.

Drottningarnar í garðinum er margslungið bútasaumsteppi þar sem stuttar sögur af travestum sem valsa inn og út úr lífi Camilu blandast saman við hennar eigið óreiðukennda líf. Erfið fortíð hennar er rifjuð upp og sár nútíminn birtist inn á milli. Þetta er enginn léttlestur, þetta er bók sem gleypir mann og spýtur manni svo aftur út. Áhrifamikill textinn heldur lesandanum dáleiddum í gegnum átakanlega frásögn sem ég hafði mjög gaman af, enda suður-amerískar bókmenntir í uppáhaldi hjá mér.  

Lestu þetta næst

Glöggt er gests augað

Glöggt er gests augað

Fyrir nokkrum árum komst ég að því að finnsk kona að nafni Satu Rämö, sem búsett væri á Ísafirði,...

Jarðsyngdu mig

Jarðsyngdu mig

Ég fékk ljósbláa bók að gjöf. Framan á kápu stendur aðeins titill verksins með smáu, hvítu letri....

Fangelsi hugans

Fangelsi hugans

Hvað ef þú værir geimvera? Og geimskipið þitt hefði skilið þig eftir á jörðinni, í venjulegri,...

Anniemenni

Anniemenni

Anniemenni (e. Annie bot) eftir Sierra Greer  Annie er vélmenni. Hún er með hleðslustöð í hælnum,...

Með iðrun úti

Með iðrun úti

Þrjár stúlkur á sautjánda ári pyntuðu skólasystur sína og kveiktu í henni í rólega breska...

Þú ert Blú!

Þú ert Blú!

Ég er mætt á söngleikinn Vitfús Blú og vélmennin. Ljósin kvikna og þrjár verur stíga á mitt sviðið. Þetta eru örlagaskvísurnar sem segja og syngja söguna með ákveðni og stæl. Sagan fjallar um nýjan heim, árið er 3033 og vélkvendið Algríma Alheimsforseti ætlar sér að taka yfir heiminn. En samkvæmt fornum spádómi eru örlög mannkynsins í höndum hins unga Vitfúsar Blú. Hann er eins konar messías sem þarf að bjarga öllum, þrátt fyrir að vera frekar klaufskur og einfaldur. Það er augljóst að verkið og sýningin er unnin með miklu hjarta alveg frá fyrstu drögum, mikil orka streymir frá leikhópnum og leikgleði einkennir verkið.