Þegar samfélag bregst barni

Samþykki eftir Vanessu Springora olli fjaðrafoki í Frakklandi árið 2020 þegar hún kom út, enda er um að ræða sjálfsævisögulega frásögn þar sem þekktur rithöfundur, G., beitir unglingsstúlkuna V. kynferðisofbeldi. Bæði eru þau þekkt í frönskum bókmenntaheimi í dag en Vanessa Springora er vinsæll ritstjóri þar í landi.

Vanessa, mín myrka?

Ég viðurkenni að ég var frekar hissa þegar ég fékk þessa bók í hendurnar og byrjaði að lesa. Fyrr í sumar las ég Vanessa, mín myrka þar sem umfjöllunarefnin eru ekki ólík og nöfn stúlknanna þau sömu! Textatengslin eru í raun sláandi. Í báðum bókum eru það eldri bókmenntamenn sem táldraga (e. groom) 14 ára stúlkur, misnota þær í lengri tíma og fá þær til að halda að um sé að ræða raunverulega ást.

Það sem er frábrugðið hér er að móðir V. gefur sína blessun á sambandi dóttur sinnar og rithöfundarins G. sem er á sextugsaldri. V. segir að móðir hennar hefði þurft að búa í „samfélagi þar sem fólk var ekki jafn umburðarlynt.“ (bls. 54) Í raun vita furðulega margir af misnotkuninni en athafast ekkert í málinu. Það kemur meira að segja fram að undirskriftarlisti hafi verið birtur í virtu frönsku dagblaði þar sem frægir fræðimenn, heimspekingar og bókmenntafræðingar á borð við Simone de Beauvoir, Jean-Paul Sartre og Michel Foucault skrifuðu undir yfirlýsingu þar sem „hvatt var til þess að kynferðislegt samband milli manneskju undir lögaldri og fullorðins einstaklings yrði ekki lengur talið saknæmt…“ (bls. 54) Hér sjáum við einnig orðræðuna sem er notuð, sagt er manneskja undir lögaldri, ekki barn. En það er einmitt það sem V. var, barn.

Á tímum þar sem níðingum er fagnað

Frásögnin er sláandi, Vanessa Springora skefur ekki af neinu í textanum og varpar fram minningum sínum um ofbeldið óhrædd og algjörlega hreinskilin. Á sama tíma og hún segir frá reynir hún að skilja af hverju þessu var leyft að gerast. Af hverju enginn fullorðinn til að verndaði hana frá þessum barnaníðingi? Það var svo alvitað að G. væri barnaníðingur að það hreinlega stóð í bókunum hans. Hann birti meira að segja fjöldan allan af bréfum sem hann skrifaði til „ungra ástkvenna“ og sömuleiðis bréf sem hann fékk frá þeim. Þar á meðal bréf frá V.. Samfélagið tók honum sem heillandi kvennaflagara sem var hylltur fyrir ástarævintýri sín. Enda voru bækurnar hans margverðlaunaðar.

Þessi frásögn skilur lesandann með ógeðfellt bragð í munni. Samþykki er virkilega átakanleg lesning um hvernig bókstaflega allir, foreldrar og franskt samfélag í heild, brugðust barnungri stúlku.

Lestu þetta næst

Lending á Ísafirði

Lending á Ísafirði

Kareem er á leiðinni á Ísafjörð eftir að hafa verið á flótta mjög lengi. Hann og fjölskyldan hans...

Litskrúðug gleðisprengja

Litskrúðug gleðisprengja

Söngleikurinn Fíasól gefst aldrei upp var frumsýndur laugardaginn 2 desember í Borgarleikhúsinu....