Rut Guðnadóttir hreppti íslensku barnabókaverðlaunin árið 2020 með bók sinni Vampírur, vesen og annað tilfallandi sem var fjörug bók um þrjár stelpur í áttunda bekk sem grunar að stærðfræðikennarinn þeirra, hinn litlausi Kjartan, sé vampíra. Bókin kom á óvart og var ferskur blær inn í unglingabókaflóruna. Þá bók fengum við ungling til að skrifa um líka.

Drekar í Smáralindinni

Í ár heldur saga Millu, Lilju og Rakelar áfram í bókinni Drekar, drama og meira í þeim dúr. Það vill svo til að stelpurnar, sem eru núna orðnir níundabekkingar, ramba á dreka í Smáralindinni – af öllum stöðum. Það skapar auðvitað fullt af vandræðagangi og drama. Að ekki sé talað um það hve mikið drama fylgir því að vera ástfangin unglingsstelpa!

Rut fléttar lipurlega saman hinu yfirnáttúrulega og venjulega. Heimurinn sem hún spinnur í kringum unglingsstúlkurnar þrjár býr alla jafnan ekki yfir neinu yfirnáttúrulegu, en stelpurnar virðast þó alltaf ramba á það. Þær eru því alveg jafn hissa og lesandinn yfir öllu því sem á sér stað. Þá er ekki bara það yfirnáttúrulega sem er að angra þær, því þótt það sé töluvert vesen að þurfa að berjast gegn illum öflum og passa upp á dreka, þá er hrikalega erfitt að vera unglingur. Rut nálgast það efni af virðingu. Í fyrri bók Rutar kom í ljós að Lilja og Rakel eru lesbíur. Það var skemmtilegur vinkill og Rut dregur þann þráð lengra í þessari bók. Stelpurnar eru á árum sjálsuppgötvunar og tilrauna og það kom mér skemmtilega á óvart hvar sá þráður endaði í þessari bók.

Hvað næst?

Bókin er mjög svipað uppbyggð og fyrri bók Rutar, en þó finnst mér eins og viss byrjendabragur hafi að mestu slípast af. Eftir stendur bók sem rís hratt í byrjun, er nokkuð róleg fyrir miðbikið (þótt allt dramað sé svo sem ekki rólegt, það snýst bara ekki um dreka) og endar svo með miklum hvelli í lokin. Eiginlega verð ég að fá að vita hvernig næsta ár verður hjá þríeykinu! Í hverju lenda þær í tíundabekk? Hvaða furðudýr mun skjóta upp kollinum næst? Uppvakningar? Varúlfar? Ferðalög til annarra vídda? Eitt er víst, með forvitni þessara þriggja vinkvenna að vopni þá eru Rut allir vegir færir.

Drekar, drama og meira í þeim dúr er fjörlega unglingasaga þar sem hinu yfirnáttúrulega er fléttað skemmtilega saman við raunveruleika unglingsstúlkna.

Lestu þetta næst

Barnið er svangt

Barnið er svangt

Sól_Ey, Lokaverk af sviðshöfundabraut við LHÍ eftir Egil Andrason. Stofa L220 er lítil og...

Höfugur ilmur

Höfugur ilmur

Meðan leikhúsgestir streyma inn í Kassann í Þjóðleikhúsinu stendur Unnur Ösp bakvið örþunnt og...

Tíminn teygir úr sér

Tíminn teygir úr sér

X eftir Alistair McDowall Klukkan er 20:07 og Ray er að fá sér að borða. Gilda orðar áhyggjur...

Hægt og hljótt

Hægt og hljótt

Hvítalogn er fimmtánda skáldsaga Ragnars Jónassonar og önnur bókin í þríleiknum um lögreglumanninn...