Skrásetning og lestrarmarkmið

Ég tók hálf meðvitaða ákvörðun um að skrá ekki lesturinn minn niður á Goodreads né annars staðar árið 2021, ég bara nennti því ekki. Hugsaði að ég væri of mikið inni á öðrum samfélagsmiðlum. Ég var líka farin að finna fyrir einhverri pressu að þurfa að lesa. Og ég var farin að bera mig saman við aðra. Hugsaði sífellt, vá hvað aðrir lesa mikið, ég verð nú að girða mig í brók. Ég er jú bókmenntafræðingur, afhverju les ég ekki meira en ég geri? Afhverju les ég ekki gáfulegar bókmenntir. Eins og Fávitann eftir Dostojevskjí. Eða einhvern álíka þykkan doðrant. Ég er líka áhuga-bókagagnrýnandi og vinn á bókasafni, svo ég ætti nú að vera duglegri en ég er við lesturinn. Ég var farin að finna að pressan gerði það að verkum að lestraránægjan minnkaði. Ég fór í lás –  í öllu, líka í skrifum. Og allt út af einhverri pressu sem ég setti á sjálfa mig. 

 

Svo fannst mér líka eitthvað böggandi þessi þörf okkar fyrir að skrásetja allt í tíma og ótíma. Við skrásetjum daginn okkar á Instagram story, pússum hann aðeins til og birtum fyrir alla til að sjá. Við eigum helst líka að skrá markmiðin okkar, kílóatap og glæstar vonir í þar til gerða dagbók sem er svo hólfuð niður að hún lifnar við og gerir grín að þér í lok árs þegar flestar blaðsíðurnar eru hálf tómar. Og svo er það þetta, hvernig ekki er hægt að fara út að ganga eða hlaupa nema hafa snjallúr sem mælir árangur. Ekki lengur hægt að lesa nema hafa á því tölu í ákveðnu forriti, eða á samfélagsmiðlum. Hvað það er undarlegt hvernig við verðum að skrásetja, verðum að markaðssetja. Er iðjan þá hætt að vera stunduð iðjunnar vegna? Eða er hún farin að snúast einungis um skráninguna? Um ytra samþykki?

 

Ég er samt á báðum áttum með þetta. Klofin í tvennt. Mér finnst frábært og jafnvel bráðnauðsynlegt að hvatt sé til lesturs. Og þar sem við lifum nánast í gegnum samfélagsmiðla núna, þá óhjákvæmilega þarf þessi hluti að vera þar líka. Þó ég væri til í að Goodreads myndi uppfæra sig, vera í takt við breytingar (og helst ekki í eigu Amazon) en það er önnur umræða. Ég sjálf sé um Instagram reikning bókasafnsins sem ég vinn hjá og er þar með ýmsan lestrar- og bókatengdan áróður svo hvað er ég að kasta steinum úr glerhúsum? Það er bara þetta með hvort við upplifum þetta sem hvatningu eða pressu. Mögulega er það eitthvað sem við þurfum að eiga við okkur sjálf og kannski er það bara eitthvað innra með mér sem hnoðar þetta í litla streitu-kúlu sem mér finnst erfitt að kyngja. Eða hvað? Ég velti þessu fyrir mér. Er pressan á eigin árangur meiri í dag en hún hefur áður verið? Við megum aldrei vera minna en hundrað prósent. Við verðum alltaf að vera duglegust og best. Í einu og öllu. Og það þarf að sjást. Það verður að tilkynna allt. Það er heldur ekki nóg að njóta heldur þarftu að njóta hundrað prósent og helst vera margfalt betri einstaklingur en þú varst í fyrra.

 

Ég lenti í sóttkví á árinu, eins og svo margir aðrir, og ég hugsaði; núna er sko tími til að lesa eins og vindurinn. Það versta var að ég tók með mér bók sem kveikti engann áhuga hjá mér og mér fannst bara hundleiðinleg. En ég var eitthvað að reyna að bögglast við að lesa hana ein í sumarbústað vinar og kenndi sjálfri mér um. Djöfull er ég léleg, get ég ekki klárað þessa bók hérna einangruð í sveit eins og þenkjandi einstaklingur. Eins og skáldin og fræðimenn forðum. En ég áttaði mig á því þar og þá að ef ég vildi lesa meira og hafa gaman af að þá þyrfti ég að hætta að rembast við að klára einhver verk bara af því bara. Að ég mætti leggja bókina frá mér og aldrei nokkurn tímann opna hana aftur. Finna mér frekar nýtt verk sem talaði til mín. Einnig minnti ég mig á það að pressa á aldrei eins lítið erindi eins og í heimsfaraldri, þegar sjálfsmildi er líklega eina rétta svarið. 

 

En samt sit ég hérna og er nýbúin að búa til lestraráskorun fyrir gesti bókasafnsins (valkvætt, auðvitað) og svo hugsa ég þrátt fyrir allar fyrri fortölur hér í þessum eina og sama pistli, að mig langar svolítið að skrifa lista yfir þær bækur sem ég vil reyna að ná að lesa á árinu. En þær eru svo margar sem mig hefur lengi langað að lesa og hef ekki ennþá náð að koma mér í að gera. Ég er nú þegar komin lista með bókum á borð við Votlendi, Olía, ævisögu Sonju de Zorrilla og Super Sad True Love Story. Svo eru allar bækurnar úr nýliðnu jólabókaflóði sem ég hef ekki enn náð að lesa. Já, kannski tek ég næstum allt til baka sem ég sagði með að setja sér markmið í lestri. Markmið eru líka góð. Svo lengi sem þau eru ekki íþyngjandi.

Lestu þetta næst

Aðferðir til að lifa af

Aðferðir til að lifa af

Gáfaða dýrið er fimmta bók Sæunnar Kjartansdóttur en bókin kom út núna á vormánuðum 2024. Sæunn er...

Verur sem þjást

Verur sem þjást

Dani er venjuleg kona. Hún er komin níu mánuði á leið með dóttur sína Lotte, hún var að flytja...

Aldingarðurinn okkar

Aldingarðurinn okkar

Aldingarðurinn okkar Eden í Tjarnarbíó.  Í Tjarnarbíó hefur salnum verið breytt í náið rými....

Falskur léttleiki

Falskur léttleiki

Eyja er ung kona sem vinnur á fréttamiðli. Hún hefur verið í sambandi síðustu átta árin og býr...

Refarím og kanínukvæði

Refarím og kanínukvæði

Barnabækurnar Sokkarnir hans Rebba og Kanínan vill kúra eru nýlega komnar út í íslenskri þýðingu. Um er að ræða harðspjalda bækur með flipamyndum eftir breska höfundinn Julia Donaldson og hinn þýska myndhöfund Axel Scheffler.