Þegar Kertasníkir hefur skriðið aftur til fjalla á Þrettándanum fréttum við ekkert af jólasveinunum fyrr en 11. desember. Sjálf hef ég litið svo á að jólasveinarnir leggist i dvala, feli sig fyrir sól og hita. Þeir eru nú einu sinni einhvers konar tröll. Eða svo hélt ég! En Eva Rún Þorgeirsdóttir og Blær Guðmundsdóttur hafa flett hulunni af sumarverkefnum jólasveinnanna í nýjustu bók Ljósaseríunnar Stúfur fer í sumarfrí. Áður hafa komið út bækurnar Stúfur hættir að vera jólasveinn og Stúfur leysir ráðgátu.
Stúfi dauðleiðist uppi í fjöllunum á sumrin. Það er allt hálf dauft og eini leikurinn sem þeim bræðrum dettur í hug að leika er Stafakast, sem verður fljótt leiðinlegt. Stúf langar að upplifa ævintyri. Til allrar hamingju hefur hann kynnst Lóu.
Á ferðalagi með jólasveini
Stúfur sendir vinkonu sinni póst með bréfdúfu þeirra jólasveina, Jólakettinum. Hann vill gjarnan gera eitthvað með henni yfir sumarið, breyta til. Það vill svo til að Lóa er einmitt á leið til Ítalíu daginn eftir og í svarbréfi sínu býður hún honum Stúfi með sér. Stúfur stekkur á tækifærið og fer með fjölskyldunni til Ítalíu, þrátt fyrir smá efasemdir foreldra Lóu um það að ráðlegt sé að taka jólasvein með í sumarfríið. Stúfur upplifir margt í fyrsta sinn. Hann fer í flugvél, fær sér ís, fer út að borða. Svo upplifir hann líka alvöru sumarhita! Lóa og Stúfur skemmta sér vægast sagt vel saman á Ítalíu. Og þau borða mikinn ís!
Einföld hversdagssaga
Eva Rún Þorgeirsdóttir skrifar sögurnar um Stúf og blandar saman hæfilegu magni af lærdómi og húmor. Blær Guðmundsdóttir sér um myndlýsingar. Venjulega hafa bækur í Ljósaseríunni komið út með svarthvítum myndum, en að þessu sinni eru myndirnar í lit. Það kemur mun betur til skila öllum tómatsósuslettunum sem sullast út um allt þegar Stúfur fer í fyrsta sinn á veitingastað.
Þótt aðalsöguhetja bókarinnar sé jólasveinn, sem oftast sést ekki á sumrin, þá er sagan hversdagsleg þótt sumir viðburðir í bókinni séu ýktir. Þessa dagana eru margir á ferðalagi og fjölmörg börn sem eru að fara í fyrsta sinn til útlanda. Stúfur þarf ýmislegt að læra, til dæmis umgengnisvenjur á flugvöllum og hvað ber að gera á veitingastöðum. Bók sem þessi gefur ágætis innsýn í hvernig sumarfríið gæti orðið. Það eru strandarferðir, ísát, safnaferðir og annað skemmtilegt sem bíður barnanna. En það er líka stundum meiri hiti en við eigum að venjast og þá er gott að muna eftir stuttbuxum, léttri skyrtu og vatninu. Allt þetta lærir Stúfur.
Bókin hentar mjög vel í fríið fyrir lestrarhesta. Einnig er hægt að grípa með þrautabókina sem unnin er upp úr sögunni. Það er ágætis tvenna í fríið.
Ljósaserían
Bækur úr Ljósaseríunni eru sérstaklega hannaðar léttlestrarbækur fyrir börn sem hafa náð ágáætis tökum á lestri og vilja meiri sögu en ekki of þunga bók. Letur í bókunum er þægilegt, línubil gott og málsgreinar stuttar.
Hægt er að skrá sig í Ljósaseríuklúbbinn og fá heimsendar fjórar bækur á ári.