Bókin sem íslenskunemum sárvantaði

 

Sem kennari íslensku fyrir innflytjendur get ég sagt að allt sé ekki alltaf svo bjart í okkar bransa; það sárvantar kennara, kennsluefni, ílag (þ.e. mállegu áreitin í formi talaðs máls og texta), og námskeið í íslensku sem öðru máli og það sérstaklega fyrir lengra komna. Þess vegna er algjör unun að fá þessa bók, sem er sjálfstætt framhald bókarinnar Árstíðir  (2020), í hendurnar því hún inniheldur ekki tuttugu, þrjátíu eða fimmtíu, heldur níutíu og eina sögu fyrir alla hugsanlega lesendur sem eru lengra komnir í íslenskunámi.

Bók um alla fyrir alla á einföldu máli

Fyrir hvern þann erlenda íslenskunema sem ætlar að auðga þekkingu sína með lestri er afar mikilvægt að hann velji sér texta við hæfi. Margir byrjendur velja ævintýri þar sem auðvelt er að fylgja söguþræði en ævintýrin geta innihaldið málfræði eða orðaforða sem hentar ekki byrjendum. Lengra komnir nemendur reyna að ná tökum á klassík eins og Sjálfstæðu fólki eftir Laxness en löng orð, sérkennileg málfræði og málfar Laxness almennt geta fljótt dregið kjark úr þeim. Þannig að það er erfitt fyrir nemendur að fara einhvern milliveg, því eitthvað auðvelt veitir ekki nægilega hvatningu og eitthvað erfitt hræðir þá. Dagatal er ætlað lengra komnum nemendum í íslensku og því er bókinni skipt í sex getustig þannig að allir geta valið eitthvað við hæfi.

Annar þáttur í tungumálanámi með lestri er lesefni sem vekur áhuga lesandans og tengist upplifun hans. Dagatal er skipt í tólf hluta/mánuði eins og nafnið gefur til kynna. Hver saga fjallar um atburði sem gerast í hverjum mánuði fyrir sig. Umfang þessara sagna er merkilegt. Til eru sögur af fornnorrænni goðafræði og hefðum, bæði íslenskum og erlendum. Sögur af daglegu lífi, bæði í nútímanum og á liðnum dögum. Sögur af undarlegum íslenskum orðum og baráttu íslenskunema við að nota þau. Sögur af depurð og hreinni gleði. Léttar sögur og sögur sem takast á við alvarlegt efni eins og þunglyndi.

Eitthvað nýtt í hverri sögu

Einn af bestu eiginleikum þessarar bók er að þú veist aldrei hvers konar texti bíður þín á næstu síðu. Þar getur verið auglýsing, samræða, vinnutölvupóstur, Messenger skilaboð, dagbókarfærsla, ljóð, bréf og margt-margt fleira. Hins vegar er eitt sem sameinar þá alla: þeir eru hnyttin og hnitmiðuð leið til að fanga augnablik í lífi á Íslandi.

Persónurnar breytast frá sögu til sögu en það er eitt satt við þær allar – þær eru fjölbreytileikinn sem er Ísland. Ungir sem aldnir, karlar og konur, skrifstofufólk og verslunarfólk, úr fjölskyldum af mismunandi stærð og gerð, með ólíkan bakgrunn, hinsegin og ekki, með íslensku að móðurmáli og öðru máli. Hversdagleiki þessara persóna varpar ljósi á fjölbreytileika lífsins á Íslandi, skilning og misskilning, sigur og tap í samskiptum fólks og þau fjölmörgu tækifæri sem gefast til að njóta lífsins.

Skref í átt að fjölbreyttari íslenskukennslu

En það mikilvægasta við þessa bók er, held ég sem útlendingur, íslenskukennari og íslenskunemi sjálf, að þessi bók fer yfir mörk þess sem við venjulega búumst við í tungumálanámi. Við lesum vissulega öll sögur úr kennslubókunum okkar, en þær eru yfirleitt allar eins, það er næstum alltaf einhver útlendingur, einn eða í dæmigerðri kjarnafjölskyldu, sem vinnur láglaunavinnu og á í erfiðleikum með að læra íslensku (ég horfi á þig, Íslenska fyrir alla). Karítas kynnir fyrir lesendum sterkari fyrirmyndir og hversdagslegar aðstæður sem oft gleymast en eru hvetjandi til að læra tungumálið. Vissulega eiga sumar sögur enn eftir að rætast sem veruleiki í íslensku samfélagi, en tilvist þessarar bókar ein og sér er mikil breyting í átt að jafnræði og umburðarlyndara fjölþjóðlegu samfélagi á Íslandi.

Lestu þetta næst

Martraðakennd en stórskemmtileg sorgarvegferð

Martraðakennd en stórskemmtileg sorgarvegferð

Sorg og sorgarúrvinnsla, að sættast við dauðann, að sættast við það að vera ófullkomin manneskja með ófullkomin tengsl við aðra. Þetta eru aðalumfjöllunarefni Birnis Jóns Sigurðssonar í nýjasta leikverki hans Sýslumaður dauðans sem er nú í sýningu í Borgarleikhúsinu. 

Góðmæðraskólinn

Góðmæðraskólinn

Varst þú að eignast barn? Ertu bugað heima með ungviðið og langar bara í smá pásu frá serjósi,...

Glöggt er gests augað

Glöggt er gests augað

Fyrir nokkrum árum komst ég að því að finnsk kona að nafni Satu Rämö, sem búsett væri á Ísafirði,...

Jarðsyngdu mig

Jarðsyngdu mig

Ég fékk ljósbláa bók að gjöf. Framan á kápu stendur aðeins titill verksins með smáu, hvítu letri....