Hlustun? Lestur? Hlustun?

heyrnatól hlusta

Síðasta sumar keyptum við fjölskyldan aðgang að Storytel. Ætlunin var að hlusta á sögur í bílnum í útilegum og ferðalögum. Plönin fóru ekki alveg eins og við ætluðum okkur, athyglin var stutt og óþreyja í aftursætinu olli því að ekki var hægt að hlusta að ráði. Þeir sem höfðu svo aðgang að appinu í símanum nýttu sér það lítið sem ekkert og ákveðið var að segja upp áskriftinni, enda enginn að nota hana.

Það besta við lífið er að þá má breyta um skoðun

Sjálf var ég með svolitila fordóma gegn hljóðbókum. Sá ekki hvernig þær gætu hvatt til lesturs, nýst til nokkurs annars en sem afþreying við ryksugun. Mér fannst hljóðbók taka af manni þá upplifun að lesa og túlka á eigin hátt textann. Þannig hefur hljómur og hljóðblær lesarans af manni einhverja upplifun, túlkun sem maður hefði ella lagt í orðin hefði maður lesið þau sjálfur. 

En það besta er að maður getur alltaf skipt um skoðun. Þegar miðjubarnið óskaði eftir aðgangi að Storytel í vor þá var ég í fyrstu efins. Sagði honum að hann gæti vel lesið bókina sjálfur. Samtalið féll niður í það sinn, en þegar hann hafði óskað ítrekað eftir aðgangi svo hann gæti hlustað á allar bækurnar sem hann veit að eru góðar þá létum við undan að lokum.  

Það sem ég bjóst við að gerðist var að drengurinn hlustaði á hluta af bók, blábyrjunina kannski, og léti svo kyrrt liggja. Það var ekki það sem gerðist. Hann sat og hlustaði klukkutímum saman, hann gekk um húsið með heyrnatólin á sér, hló upphátt, hlustaði fyrir svefn, þegar hann vaknaði, þegar hann fór í labbitúra. Eiginlega einu skiptin sem hann var ekki að hlusta var þegar hann var að leika við félaga sína.

Eiginlega einu skiptin sem hann var ekki að hlusta var þegar hann var að leika við félaga sína.

Hlustun leiðir til lesturs

Níu bókum síðar (öllum Kennara bókum Bergrúnar Írisar og öllum Stellubókum Gunnars Helga sem voru aðgengilegar og fleiri bókum) var ekki hægt að hætta. Hann er með langan lista af bókum sem hann langar að hlusta á, og hefur eiginlega ekki nægilega marga klukkutíma í sólarhringnum til að hlusta. En þegar allar bækur sem voru aðgengilega á Storytel í seríunni voru hlustaðar þurfti að halda áfram. Já, því í vor komu út nýja bækur í bæði Kennara-seríunni og í sögunni um Stellu og það var ekki hægt að bíða eftir að bækurnar kæmu á Storytel. Hann situr því með nefið niðri í bók núna sem hlýtur að teljast sigur í huga hvers foreldris.

Hlustunin leiddi til lesturs. Hljóðbækurnar kveiktu einhvern loga í sagnaþyrstum huga sem fékk hann til að leita sér að fleiri sögum og hann les núna mun meira en hann gerði í byrjun sumarfrís.

Staðgengill móður?

Á sama tíma og ég fagna nýfengnum áhuga drengsins á hljóðbókum nagar mig samviskubitið. Þar til fyrir ári síðan lásum við nefnilega saman bækur uppi í rúmi. Ég las fyrir hann og hann fyrir mig. Þetta var svolítil gæðastund hjá okkur. En eins og með svo margt annað, þá lognaðist hefðin út af og við hættum að eiga þessar stundir saman. Hann las bara sjálfur og þegar þörfin kviknaði aftur eftir lestrarstundunum þá orkaði ég ekki að hefja þær aftur. En það er hægt að fagna þessum nýfengna áhuga. Drengurinn fær lestur á bók sem hann hefði annars ekki lesið og við ræðum bækurnar saman á meðan hann hlustar og eftir að hann hlustar. Og ég fæ einn auka klukkutíma í sólarhringinn minn. 

Lestu þetta næst

Aðferðir til að lifa af

Aðferðir til að lifa af

Gáfaða dýrið er fimmta bók Sæunnar Kjartansdóttur en bókin kom út núna á vormánuðum 2024. Sæunn er...

Verur sem þjást

Verur sem þjást

Dani er venjuleg kona. Hún er komin níu mánuði á leið með dóttur sína Lotte, hún var að flytja...

Aldingarðurinn okkar

Aldingarðurinn okkar

Aldingarðurinn okkar Eden í Tjarnarbíó.  Í Tjarnarbíó hefur salnum verið breytt í náið rými....

Falskur léttleiki

Falskur léttleiki

Eyja er ung kona sem vinnur á fréttamiðli. Hún hefur verið í sambandi síðustu átta árin og býr...

Refarím og kanínukvæði

Refarím og kanínukvæði

Barnabækurnar Sokkarnir hans Rebba og Kanínan vill kúra eru nýlega komnar út í íslenskri þýðingu. Um er að ræða harðspjalda bækur með flipamyndum eftir breska höfundinn Julia Donaldson og hinn þýska myndhöfund Axel Scheffler.