Krakkar í klemmu í fjórðu Kennara-bókinni

Glæpasögur eru vinsælar, seljast eins og heitar lummur um allan heim. Það er því ekkert skrýtið að börnin okkar hafi tekið því fagnandi þegar fyrsta Kennara-bókin kom út. Kennarinn sem hvarf eftir Bergrúnu Írisi Sævarsdóttur hlaut Barnabókaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur þegar þau voru veitt í fyrsta sinn í apríl 2019. Þar kynnti Bergrún Íris landsmenn fyrir röggsömu börnunum í 6. BÖ, sem þurfa að bjarga Báru, kennaranum sínum, eftir að henni er rænt af engum öðrum en skólastjóranum þeirra. Síðan þá hafa komið út þrjár bækur um krakkana í bekknum en ávallt er kastljósinu beint að mismunandi persónum úr bekknum. Þannig höfum við kynnst hinni bráðgeru Heklu Þöll, innflytjandanum Söru og Fannari, sem er á einhverfurófinu. Eins og áður hefur verð sagt um bækur Bergrúnar, þá felst styrkleiki þeirra í mikilli þekkingu höfundar á hugarheimi barna, áhugamálum og hugðarefnum.

Ástin í grunnskóla

Í fjórðu bókinni, Kennarinn sem fuðraði upp, er kastljósinu beint að félögunum Óla Steini og Axel. Strákarnir eru fyrirferðamiklir í bekknum, eiga erfitt með að mæta á réttum tíma og fara eftir fyrirmælum og áttu það til að stríða öðrum börnum. Í þessari sögu slettist þó upp á vinskapinn því Óli Steinn verður ástfanginn.

Uppbygging bókanna er sú sama og í fyrri bókum; Bergrún Íris kynnir til leiks persónurur bókarinnar, lesandi kynnist þeim og þeirra innstu hugarkimum og að lokum stillir hún upp ráðgátu eða hættu sem börnin lenda í. Þetta fyrirkomulag gerir það að verkum að krakkar sem lesa bókina vita í hvað þeir eru að fara, þetta er örugg bók. Í þetta sinn fór ansi stór hluti bókarinnar í hugarheim Óla Steins og ástarmál hans. Að sama skapi var til umræðu afbrýðisemi og vinátta. Fáar barnabækur fjalla um hvolpaást eins og á milli Óla Steins og Söru. Þau eru að þreyfa sig áfram, kynnast eigin tilfinningum og það getur verið erfitt. Þetta er tilfinninga rússíbandi – vandræðin, óöryggið, fiðrildin í maganum og bleiku skýin þegar allt gengur upp. Það er mikilvægt að bækur spegli raunveruleika barnanna, og hér hefur Bergrúnu Írisi tekist það, enn og aftur, þótt hún kryddi svo raunveruleikann með brjáluðum kennurum og dularfullum ráðgátum. Kjarninn er sannur, tilfinningalíf og reynsluheimur sögupersónanna er ekki fjarri raunveruleikanum.

Skólaferðalag, eða hvað?

Miklu púðri er eytt í tilfinningalíf Óla Steins og Axels, ástarmálin og brostna vináttu eða kannski frekar breytta vináttu á milli piltanna. Framvinda spennusögunnar er því ekki mjög sýnileg fyrr en um miðja bók, þegar Axel heyrir Engilbert kennara ræða við dularfulla persónu í síma um fyrirætlanir sínar. Þá hefst spennusagan. Krakkarnir eru ginntir að yfirgefnu húsi undir því yfirskini að þau séu í skólaferðalagi, dagsferð. Húsið er hins vegar í eigu Engilberts kennara sem vinnur að því að gera húsið upp, en hefur eingöngu gert upp kjallara hússins. Ferðalagið fer þó ekki betur en svo að krakkarnir enda læstir ofan í níunda-áratugar, nostalgíu kjallara. Hvernig komast þau út?

Miðað við aðrar bækur í kennaraseríunni þá er þessi örlítið hægari og spennan hefst seint. Á móti kemur að ástarmálin hjá Óla Steini halda lesandanum nokkuð vel. Ég hefði þó viljað sjá spennuna koma inn fyrr, hættuna vera meira yfirvofandi í gegnum bókina en raunin varð. Því er þó eki að neita að allar líkur eru á að þessi bók eigi eftir að halda einhverjum börnum við lesturinn í sumar, því bókin er tilvalin í útileguna og sumarlesturinn.

 

 

Lestu þetta næst

Lygar eða skemmtisögur?

Lygar eða skemmtisögur?

Í seríunni um Bekkinn minn eftir Yrsu Þöll Gylfadóttur er íslenskur raunveruleiki eins og hann...

Út í geim

Út í geim

Ég er stjörnufræðinörd og hef horft á fleiri heimildarmyndir um fjarlægar plánetur á...