Rithornið: Einn dagur við Mývatn

Einn dagur við Mývatn

eftir Sæunni Gísladóttur
Brot úr lengri fjölskyldusögu, sjá fyrri sögu hér.

Kristján, 1985

Elsku Kristján,

Ég er kominn á fullt í sumarverkefnið mitt hér. Það er ólýsanlegt að taka þátt í uppgreftri á munum sem voru í notkun langt á undan fæðingu Krists. Við á Íslandi erum stolt af því að finna eins og einn pening frá 15. öld. En þetta er af allt öðrum toga hérna í Egyptalandi! Ég sé alls ekki eftir því að hafa tekið þessu boði þó að ég viti að mamma sé ósátt við að ég hafi ekki farið norður á sjóinn til að geta sparað fyrir vetrinum. Ég hef alla ævina til að vinna mér inn pening og veit að ég mun búa að þessari reynslu lengi.

Dögunum hérna svipar nokkuð til dagshrynjandans á Íslandi. Við byrjum venjulega snemma á morgnana í uppgreftrinum enda er það kaldasti tími dagsins. Næturvaktirnar í frystihúsunum hafa búið mig vel undir þetta og ég er orðinn sjóaður í að fara að snemma að sofa og vera fljótur upp á morgnana. Það er unnið fram að hádegi en svo tekin pása yfir heitasta tíma dagsins. Eftir það er farið aftur af stað og unnið langt fram eftir kvöldi. 

Ég ætla ekki að ljúga að þér, þetta er ekki bara stritlaus vinna. Ég er búinn að komast upp á lagið með að reykja vatnspípur með heimamönnum og það kemur nú fyrir að það sé boðið upp á vín þrátt fyrir að flestir séu múslimar hér. Ég sendi þér hér með í bréfinu póstkort með mynd af pýramídunum í Gíza, en þá fékk ég loksins að sjá með eigin augum í síðustu viku eftir stanslaust suð um að fá að heimsækja þá frá því að ég lenti í Kaíró. Ég prakkaraðist að sjálfsögðu þar eins og annars staðar og kleif upp á toppinn á einum þeirra! Farðu vel með þig Krilli minn og ég hlakka til að fá þig í heimsókn í haust og sýna þér myndir úr ferðinni.

Þinn bróðir,
Palli

Kristjáni þótti vænt um að fá bréf frá bróður sínum en fylltist á sama tíma gremju yfir innihaldinu. Rétt eins og Páll var hann sjálfur í námi við háskólann en hafði látið undan þrýstingi frá móður sinni að koma norður yfir sumarið og vinna sér þar inn aur til að geta framfleytt sér næsta vetur. Hann öfundaði kjark bróður síns sem virtist alltaf fylgja hjartanu óháð mögulegum afleiðingum og allt gekk alltaf upp hjá honum. Kristján bjó heima hjá móður sinni á Akureyri tímabundið en hann vann við fiskvinnslu þar yfir sumarið. Dagarnir einkenndust af einhæfum handtökum og Kristján hafði átt erfitt með að kynnast fólkinu sem hann vann með. Hann var í vaktafríi og fannst fínt að fá smá hvíld frá líkamlegri vinnu í nokkra daga. Kristján las bréfið inni í stofu. Rýmið hafði lítið breyst frá því að hann mundi fyrst eftir sér. Stofan var hlaðin útskornum húsgögnum og málverkum eftir nafntogaða listamenn, en veggfóðrið var farið að rifna af og ljósakrónan fyllt með ódýrustu perunum. Það fáa sem hafði bæst við í hana á líftíma Kristjáns voru nýjar myndir af þeim bræðrum á ýmsum merkistundum í lífinu. Kristjáni var litið á stúdentsmyndirnar sem voru hlið við hlið í alveg eins silfruðum römmum ofan á píanóinu. Páll bar af á myndinni eins og í raunveruleikanum.

Kristján var ári eldri en Palli, en hafði alltaf upplifað sig eins og yngri bróður. Ekki hjálpaði að hann var bókstaflega litli bróðirinn því Páll var góðum 7 sentímetrum hærri, en ofan á það hafði hann alltaf verið óöruggari og átt erfiðara með að mynda tengsl. Kristján var viss um að Palli hefði strax náð að tengjast Egyptunum vinaböndum. Það skipti engu máli hvort hann var á sjó í Ólafsfirði eða við fornleifauppgröft í Egyptalandi, hvar sem hann drap niður fæti safnaðist að honum fólk. Það versta var að hann var líka svo góður bróðir, hlustaði á áhyggjur Kristjáns, bauð fram aðstoð þegar hann þurfti á henni að halda, og bauð honum alltaf að vera með sér og vinum sínum, hvort sem það var á Akureyri eða í bænum. Kristján gat því í raun og veru ekkert illt sagt um hann; það gat bara verið ansi þreytandi að eiga mann eins og Palla fyrir bróður.

Kristján staldraði ekki lengi við hugsanir um bréfið eða bróður sinn. Það var annað mál sem átti hug hans. Birna myndi fá niðurstöðu á sunnudaginn, eða var það á þriðjudaginn? Vaktavinnan hafði ruglað hann í ríminu og hann var búinn að gleyma hvaða dagsetningu hún hafði nefnt. Hann var á báðum áttum um það hvaða niðurstaða yrði best. Hann og Birna höfðu verið par í næstum tvö ár, eða allt frá því að hann flutti í bæinn. Þau höfðu hist daginn sem hann flutti inn á Stúdentagarðana Þá kynnti hún sig sem nágranna á sömu hæð. Hún var lífleg og hress þetta fyrsta kvöld, en hann dróst ekki strax að henni. Það voru helst spékopparnir sem voru lýsandi fyrir hana. Kristjáni fannst hún í fyrsta sinn sæt þegar þeir birtust þegar þau spjölluðu saman í annað sinn, þegar hann rakst á hana á leið út úr byggingunni nokkrum dögum síðar. Birna var í Kennó og ætlaði að verða stærðfræðikennari, það fannst Kristjáni, sem sjálfur var í verkfræðinámi, heillandi. Hann hefði aldrei komist í verkfræðinám ef ekki hefði verið fyrir frábæru stærðfræðikennarana í lífi hans. Þennan fyrsta vetur var hann einangraður í bænum. Páll var á lokaárinu í MA og bjó ásamt allri stórfjölskyldu þeirra bræðra fyrir norðan. Flestir í verkfræðinni voru frá höfuðborgarsvæðinu og höfðu komið ásamt bekkjarfélagum úr menntaskóla inn í námið. Það var bara einn annar strákur úr MA sem hafði farið samferða Kristjáni í námið, en hann hætti í því innan nokkurra vikna og sneri aftur norður.

Í októbermánuði þegar Kristján var orðinn eini Norðlendingurinn í náminu og daginn tekið að stytta fór hann að finna fyrir depurð í fyrsta sinn á ævinni. Kristján hafði aldrei verið hrókur alls fagnaðar en þessi leiði sem hann tengdi við nánast allt í lífi sínu var ný tilfinning. Á Akureyri hafði hann notið þess þegar veturinn kom. Farið á skíði við fyrsta tækifæri, en veðrið var allt öðruvísi í bænum. Snjórinn festist ekki og vindurinn virkaði harðari. Eitt kvöldið á þessum tíma rakst hann á Birnu þegar hann var á heimleið frá Þjóðarbókhlöðunni. Hún var glöð í fasi, nýbúin að halda kynningu fyrir samnemendur sína sem gekk mjög vel. Hún bauð honum inn til sín og færði honum glas með bjórlíki. „Þú virðist þurfa á þessu að halda!“ fullyrti hún. Kristján tók vel í drykkinn sem hafði þau áhrif að það losnaði um málbeinið. Það kom í ljós að Birna var líka utan að landi, að austan reyndar, en upplifun þeirra af borginni var á margan hátt svipuð. Það gerðist ekkert þeirra á milli þetta kvöld, en nokkrum dögum síðar fóru þau saman á stefnumót að sjá nýjustu Spielberg myndina.

Fyrr en varði voru þau Kristján og Birna orðin par. Þau elduðu saman flest kvöld, kíktu stundum í bíó og fóru reglulega í sundlaug Vesturbæjar, en það var eins konar félagsmiðstöð hverfisins. Kristján mundi ekki eftir því að þau höfðu tekið formlega ákvörðun um að skuldbindast hvort öðru. Hann kyssti hana á kinnina þegar bíókvöldinu var lokið og einhverjum dögum síðar þegar þau fóru saman á Mokka í kakó og vöfflur hélt hann í höndina hennar meðan þau supu úr sitt hvorum bollanum. Tveimur vikum síðar sváfu þau saman í fyrsta sinn. Kynlífið var gott en ósköp venjulegt. Kristján fékk fullnægingu, Birna ekki. Næstu mánuðir einkenndust af þægilegum, en ævintýralausum, dögum. Ef þau gistu heima hjá Birnu fór hún oft að skokka á morgnana og galdraði svo fram kaffi og bakkelsi sem hún vakti hann með. Þegar þau gistu hjá Kristjáni kynnti hann Birnu fyrir uppáhalds plötunum sínum og passaði sig að eiga alltaf rauðvín, því hún fékk brjóstsviða af hvítvíni. Kristján velti sambandinu ekki mikið fyrir sér og þegar komið var fram að vori og ljóst að hann myndi fara norður til að vinna um sumarið datt honum í hug að komið væri að sambandsslitum. Birna kom honum því í opna skjöldu þegar hún sagðist hafa fengið vinnu á Dalvík um sumarið. Hún ætlaði að passa börn þar og gæti komið í heimsókn á Akureyri um helgar. Sambandi fjaraði því ekki út, þvert á móti, hún kynntist fjölskyldu hans sem tóku henni vel og þau fóru á nokkrar útihátíðir yfir björtustu mánuði ársins og sneru svo aftur saman í bæinn þegar hann hóf annan vetur sinn í háskólanum.

„Matur!“ heyrðist kallað úr eldhúsinu. Kristján lét sér ekki segja það tvisvar. Hann hafði setið um stund djúpt hugsi eftir að hann sótti bréfið og hafði gleymt því hvað hann væri orðinn svangur. Mamma hans hafði lagt fallega á borð fyrir þau, með tauservíettum og öllu, þrátt fyrir að þau væru einungis tvö í mat.

„Hvað segirðu, ertu búinn að ákveða hvað þú ætlar að gera í fyrsta vaktafríinu?“ spurði hún létt í lund.

„Nei mest lítið, það var rosa gott að sofa út,“ svaraði Kristján.

„Ég sá að þú fékkst póst frá bróður þínum, er ekki allt gott að frétta af honum?“ spurði Soffía.

„Jú, hann er bara á fullu að grafa upp einhverja fjársjóði og reykja vatnspípur með kollegum sínum,“ sagði Kristján glettinn.

„Hvað í veröldinni er vatnspípa?“ spurði þá móðir hans en gaf honum ekki færi á að svara. „Hann mætti nú alveg senda mér bréf líka, hann Palli. En hann er eflaust svo upptekinn og veit að þú færir mér fréttir.“

„Já ætli það ekki,“ tók Kristján undir með henni.

Þau borðuðu svo saman súpuna í þægilegri þögn. Þau voru bæði hlédræg og oftast hélt Páll uppi samræðum þegar fjölskyldan var samankomin. Soffía hafði verið í myndlistanámi áður en synir hennar fæddust og í seinni tíð var hún farin að mála á ný. Hún tjáði sig best með listinni að mati Kristjáns, en hann var ekki búinn að finna sinni tjáningu farveg.

Eftir matinn ákvað Kristján að fara í göngutúr niður í bæ og kíkja við í bókabúð. Hann hafði aldrei velt því fyrir sér hvort Akureyri væri fallegur bær þegar hann var að alast þar upp. En strax eftir fyrsta veturinn fyrir sunnnan fann hann fyrir miklu stolti þegar hann kom aftur heim. Bæjarmyndin á Akureyri bar af, eða svo fannst honum. Kirkjan var enn þá fallegri en Hallgrímskirkja þó hann viðraði ekki þessa skoðun við skólafélaga sína í Reykjavík.

Kristján stoppaði í Bókabúð Jónasar og gekk út með nýjan reifara. Hann var mikið fyrir heimsbókmenntir og ljóð, en þegar hann var í fríi fannst honum best að lesa verk sem reyndu ekki mikið á hausinn. Kristján gekk í framhaldinu rakleitt að uppáhalds kaffihúsinu sínu í bænum og var farinn að sleikja út um yfir tilhugsuninni um hjónabandsæluna sem þar var boðið upp á. Eigandinn sem Kristján hafði verið málkunnugur frá því að hann fór að stunda þetta kaffihús í menntaskóla var að þessu sinni ekki að afgreiða. Í hans stað var ung kona. Kristján hafði ætlað að panta sér það sama og vanalega, svart kaffi og hjónabandssælu með nóg af rjóma, en nú varð hann eitthvað feiminn og fór að stúdera matseðil dagsins sem var á töflu á veggnum.

„Góðan daginn!“ ávarpaði konan hann og hrökk Kristján við. Hann pantaði hálf vandræðalega það sem hann vildi og mætti ekki augum hennar þegar hún spurði hvort það væri eitthvað fleira. Hann neitaði bara niðurlútur og borgaði.

Kristján fann sér sæti í salnum og reyndi að festa hugann við bókina sem hann hafði keypt. Stuttu eftir að hann hóf lestur kom konan til hans með kaffið og kökuna og brosti fallega til hans. Kristján náði að brosa til baka en fann þó að hann var byrjaður að roðna. Þetta voru ekki hans venjulegu viðbrögð við kvenmanni. Svona höfðu fyrstu kynni þeirra Birnu að minnsta kosti alls ekki verið. Þessi kona var vissulega meira áberandi en Birna, hún var með fallegt sítt ljósrautt hár og skærblá augu. Hún var klædd grænum kjól sem fór henni einstaklega vel. Kristján náði að lokum smá tengingu við bókina. Hún rofnaði þó um leið og unga konan birtist við hlið hans á ný og bauð honum ábót á kaffið.

„Heitirðu ekki Kristján?“ spurði þá konan hann og varð Kristján mjög hissa á spurningunni.

„Jú,“ svaraði hann vandræðalega.

„Ég heiti Júlía,“ sagði hún og bætti við „ég er systir hans Davíðs, ég mundi eftir þér úr útskriftarveislunni hans.“

Kristján mundi ekki eftir Júlíu, en hann hafði vissulega verið vel í glasi þegar hann mætti í veisluna. Davíð var úr Mývatnssveit og hafði fjölskylda hans leigt stórt veislurými í bænum til að fagna útskrift hans. Allir bekkjarfélagarnir höfðu hist þar að skipulagðri dagskrá lokinni. Kristján mundi eftir hvað þetta hafði verið skemmtilegt kvöld. Kristján fann sig knúinn til að segja eitthvað við Júlíu.

„Einmitt, já! Það var aldeilis skemmtileg veisla!“ sagði hann og byrjaði að roðna.

„Ertu sjálf í menntaskólanum?“

Það kom í ljós að Júlía var nýbúin með stúdentsprófin og myndi útskrifast á sautjánda júní. Hún afsakaði sig þar sem að nýr viðskiptavinur var mættur og Kristján reyndi að ná sambandi við bókina sína á ný.

Eftir dágóða stund þegar Kristján var allt í einu eini viðskiptavinurinn á kaffihúsinu gaf hann sig aftur á tal við Júlíu. Það kom í ljós að hún var svo á leið suður í nám um haustið. Þau Kristján komust á heilmikið ról í spjalli og hann sagði henni frá reynslu sinni af stúdentagörðunum og háskólanáminu fram að þessu. Hann var ekkert að nefna það að í dag byggi hann í Hlíðunum þar sem þau Birna voru að leigja. Kristján leit á úrið sitt og áttaði sig á því að það færi að koma kvöldmatur heima. Hann náði sjaldan svona góðu sambandi við fólk og langaði ekkert að yfirgefa Júlíu. Áður en hann fór ákvað hann að freista gæfunnar og spyrja hvort hún væri laus næsta dag.

„Ég ætlaði reyndar að fara heim yfir helgina, en langar þig til að kíkja með mér á Mývatn, Davíð er meira að segja þar,“ sagði Júlía. Áður en Kristján vissi af voru þau búin að ákveða að hann myndi sækja hana næsta morgun.

Kristján gekk heim með bros á vör. Það var eins og það hafði kviknað eitthvað inn í honum þegar hann fór að tala við Júlíu. Hann mundi ekki eftir að hafa upplifað þessa tilfinningu áður með konu. Það kom þó yfir hann smá samviskubit að vera að fara með stelpu í ævintýraferð út á land. En hann áminnti sig að þetta væri systir bekkjarafélaga síns og hann væri líka að heimsækja hann.

Eftir að Kristján snéri suður til þess að hefja annan veturinn í náminu sammæltust þau Birna um að fara að leigja saman. Það var vissulega lítið vit í að borga sitt hvora leiguna þegar þau gistu alltaf saman. Kristján kunni strax vel við sig í Hlíðunum og göngutúrinn að háskólanum á hverju morgni var góð viðbót við morgunrútínuna. Birna var áfram lífleg og blómstraði í náminu sínu. Það hafði þó eitt breyst í fari hennar um sumarið. Nú gat hún ekki gengið fram hjá barni í vagni án þess að brosa við því. Hún hafði passað stóran krakkahóp á Dalvík, þar á meðal eitt ungbarn, og hafði lýst því í smáatriðum fyrir Kristjáni hversu yndislegt væri að upplifa hversdagsleikann með augum barna. Það hefði því ekki átt að koma Kristjáni á óvart þegar hún lagði til í nóvembermánuði að þau ættu að byrja að reyna að eignast barn.

„Þetta er fullkomin tímasetning, ef ég yrði ófrísk núna fljótlega myndi ég klára námið í vor, eignast barnið síðsumars eða í byrjun hausts og við gætum verið heima með þér meðan þú klárar námið. Svo gætum við ákveðið hvar við myndum vilja búa í framhaldinu,“ sagði Birna, uppveðruð af eigin hugmynd.

Kristján hafði í sannleika sagt ekki velt því fyrir sér hvort hann vildi verða faðir eða hvenær. Hann fann þó ekki nein góð rök gegn þessari hugmynd og framsetningu Birnu og sló því til.

Í upphafi hafði Kristjáni þótt mjög skemmtilegt að reyna að geta barn. Þau sem höfðu oftast bara stundað kynlíf einu sinni í viku voru allt í einu farin að njóta ásta nánast hvaða tíma sólarhringsins sem var. Þau keyptu sér meira að segja bókina Kama Sutra til að fá nýjar hugmyndir að stellingum. Það voru ekki vonbrigði fyrstu tvo mánuðina eftir að þau byrjuðu að reyna að Birna væri ekki orðin ófrísk. Þau átti vini sem höfðu fullvissað þau um að ferlið gæti alveg tekið einhverja mánuði. Þegar fór að líða fram á vor fann Kristján þó fyrir aukinni spennu í sambandinu. Það styttist í útskrift Birnu og næsta verkefnið í hennar lífi var ekki komið í farveg. Hún fór svo að lesa sér til um barneignir og leiðir til þess að auka líkurnar á getnaði. Þá fór hún að leggja til að Kristján prófaði ákveðnar stellingar og að hún myndi tímasetja það hvenær væri best að stunda kynlíf. Öll gleðin sem einkenndi fyrstu vikurnar þegar þau voru að reyna var þá farin.

Nú leið Kristjáni eins og vélmenni sem þyrfti að framkvæma ákveðið líkamsverk á ákveðnum tíma. Birna virtist ekki einu sinni vilja kyssa hann á meðan á þessu stóð. Það var því ákveðinn léttir að hann færi norður að vinna en Birnu hafði boðist vinna fyrir sunnan. Þau höfðu áform um að hittast nokkrum sinnum yfir sumarið en Kristján fann að hann saknaði hennar ekki, að minnsta kosti enn sem komið var.

Næsta dag sótti Kristján Júlíu snemma og hún var eins töfrandi og honum minnti. Leiðin inn í Mývatnssveit var sérstaklega falleg á þessum sólríka degi og nutu þau þess að keyra og hlusta á ljúfa tóna á meðan. Júlía fræddi Kristján um sveitina á leiðinni og sagði honum að sem barn hefði hún haft sérstaklega gaman af að baða sig í Grjótugjá. En nú eftir Kröflueldana væri hún orðin af heit. Hún ætlaði því að fara með hann í Stórugjá í staðinn.

Þegar í gjánna var komið var Kristján hálf smeykur að fara ofan í. Júlía sannfærði hann um að hann væri óhultur. Hún hefði stundað gjánna í mörg ár með bræðrum sínum og vinum. Þetta reyndist á endanum hin besta skemmtun að vera með Júlíu í jarðböðunum. Þau fóru í framhaldinu að skoða Grjótugjá og fengu sér svo hressingu við vatnið og fylgdust með fuglalífinu. Þetta var vinsælasti varpstaður landsins fullyrti Júlía. En um helmingur allra varpfuglategunda landsins verptu þar. Kristján vissi ekki hvort það var Júlía, veðrið eða fuglalífið sem heillaði hann mest. Þetta var eins og í paradís. Það tók hann alla sjálfstjórn sem hann átti að kyssa hana ekki á þessari stundu.

Kristján skutlaði Júlíu heim til foreldra sinna um kvöldmatarleytið og þau slepptu honum ekki út án þess að snæða með þeim. Davíð var líka á staðnum, en þeir Kristján höfðu ekki hist síðan þeir útskrifuðust og höfðu gaman af því að ræða málin. Þegar kvöldverðinum lauk bjó Kristján sig til þess að kveðja og Júlía fylgdi honum alveg upp að bílnum hans.

„Fæ ég ekki að sjá þig aftur á Akureyri? Mér skylst að það verði eitthvað húllum hæ þarna í kringum sautjánda,“ sagði hún sposk á svipinn.

Kristján lofaði að hann myndi láta í sér heyra.

Kristján var dauðþreyttur þegar hann kom heim og rotaðist um leið og hann lagði höfðið á koddann. Hann svaf mjög fast en vaknaði þó að lokum við símhringinguna sem hafði líklega varað í dálítinn tíma. Hann greip hratt um tólið og svaraði.

„Halló!“ sagði Kristján.

„Ég var að taka próf,“ sagði Birna.

Hjartað hans Kristjáns stoppaði.

sæunn

Sæunn Gísladóttir er sérfræðingur hjá RHA og þýðandi Ósýnilegra kvenna eftir Caroline Criado Perez. Hún hefur verið penni á Lestrarklefanum í rúm þrjú ár. Hún hefur lengi haft gaman af því að skrifa sögur og efldist áhuginn í kófinu. Hún vinnur nú að lengra verki um Silfurberg fjölskylduna.

Lestu þetta næst

Í heimi Juliu Quinn

Í heimi Juliu Quinn

  Nú þegar þriðja serían af Bridgerton fer bráðum í loftið er kannski kominn tími til að ég...