Fólk var hneppt í þrældóm frá mismunandi svæðum í Afríku nýlendutímans. Það var flutt í gegnum Ghana, sem þá var bresk nýlenda. Siglt var með sundurslitnar fjölskyldur í bátum frá mismunandi Evrópulöndum til nýja heimsins. Fjölskyldunum var sundrað sem og ættbálkum og þjóðum. Land innfæddra Ameríkana var numið, frumbyggjar álfunnar myrtir, náttúrunni misþyrmt til að rýma fyrir indígó og bómullarökrum. Hvíti maðurinn auðgaðist, fólk var myrt, því nauðgað og það afskræmt af ofbeldi. Börn voru tekin frá foreldrum, makar frá mökum, systkini frá systkinum og fólk gekk kaupum og sölum eins og búfé. Framtíðin var fortíðin og nútíminn samvafinn þar sem ekkert er til nema þjáning, örkumlun og dauði.

Hryllingur þrælahalds

Bók Colson Whitehead dregur svo sannarlega ekkert undan þegar kemur að lýsingum á hryllingi þrælahalds á nýlendutíma og lífi fólks í þrældómi í Bandaríkjum Norður Ameríku. Neðanjarðarjárnbrautin fjallar um Coru sem er þriðju kynslóðar þræll í beinan kvenlegg. Amma hennar, Ajarray, var flutt nauðug frá Vesturströnd Afríku til Bandaríkjanna þar sem hún gekk kaupum og sölum. Móðir Coru, Mabel er ein af sex systkinum sem komst á legg og Cora er aðeins 10 ára þegar hún stendur uppi sem einstæðingur á Miller plantekrunni. Lesandi kynnist Coru og viðbjóðslegum aðstæðunum sem hún er fædd inn í án nokkurs sjáanlegs vegs til betra lífs.

Þó leynist pínulítil vonarglæta í heiminum, svo fjarlæg og óraunsæ að fæstir þora að láta sig dreyma. Flótti. Frelsi. Neðanjarðarjárnbraut sem ber fólk úr ánauðinni yfir í frelsið. Þar sem það getur lifað eins og manneskjur. Refsingin við að nást á flótta eru pyntingar og dauði. Verðlaunin fyrir að nást ekki eru líf.

Úr eldinum í öskuna í eldin

Cora leggur á flótta frá plantekrunni þar sem hún er fædd og hefur alltaf verið fangi. Hún flæmist úr einum hryllingnum í annan, í gegnum Suðurríkin á leiðinni norður, með neðanjarðarjárnbrautinni sem liggur undir landinu til að frelsa þá sem bundnir eru í þrældóm. Sama hvert Cora fer virðist hún alltaf rata úr öskunni í eldinn eða beint til helvítis. Þjáningin hættir aldrei, sagan leyfir ekki auðveldar lausnir, rómantíseringu eða einhliða persónur. Það er ekkert gott hvítt fólk í ógeðslegu kerfi. Kerfi sem byggir á kynþáttahatri og þrældómi á sér engar málsbætur.

Samband milli fólks hneppt í þrældóm er áhugavert og djúpt. Höfundur skapar djúpar og fjölbreyttar persónur sem allar hafa sínar ástæður fyrir gjörðum sínum. Lesandinn skilur alltaf fullkomlega hvers vegna þær gera það sem þær gera, hversu slæmt eða gott sem það er. Fólk í þrældómi og á flótta verða ekki ein heild, heldur þær fjölbreyttu persónur sem mannfólkið er, litað af örlögum og upplifunum sem hver og einn tekst á við á sinn hátt. Hvíta fólkið verður ekki að einhliða skrímslum eða bjargvættum, heldur alls konar fólki með alls konar ástæður fyrir hryllingnum sem það veldur.

 

Aðgát skal höfð í nærveru þýðingar

Það er ekki lítið verkefni að þýða svona bók. Enskan sést víða skína í gegn í íslenskri þýðingu, meira hefði mátt leitast eftir íslenskun setninga en gert er. Það speglast vel í titlinum sem er óþjál beinþýðing, og ég velti fyrir mér hvort betur hefði farið að nota gömlu RÚV aðferðina og íslenska titilinn í eitthvað sem hljómar vel burt séð frá upprunalega titlinum, samanber Ókindin sem íslenska heitið á Jaws fremur en hin beina þýðing Kjálkar.

Það sem vekur þó mesta umhugsun hjá mér er orðanotkun þýðanda. Bandarísk enska er rík af ógeðslegum orðum yfir svart fólk, jafnvel ríkari en íslenskan, þó við reynum nú okkar besta til að geta nítt kynþætti á okkar ástkæra ylhýra. Það væri áhugavert að sjá ferli þýðanda í leið að útgáfu og hvort fólk hafi velt orðanotkun fyrir sér eða bara látið vaða í beinþýðingar. Höfundur bókarinnar er svartur Bandaríkjamaður, og auðvitað getur hann notað rasísk orð eins og honum hentar og þykir valdeflandi. En hvað með hvítan, íslenskan þýðenda? Einnig má spyrja hvort þessa beinu þýðingu þurfi til lesandinn skilji hryllinginn? Það er sennilega hollt að lesa um hörmungar þrælahalds og áhrif þess á persónur og kynslóðir, en spurningin er hvort það að þýða öll níðandi orð sem beinast yfir á íslensku sé nauðsynlegt eða gert í hugsunarleysi hins hvíta þýðanda, en þetta er efni sem ég mun taka fyrir í pistli frekar en í miðjum bókadóm.

Neðanjarðarjárnbrautin er fróðleg, hún er lýsandi og sögulega mjög raunsönn. En hún er líka mjög óþægileg, erfið sorgleg, ljót og vond. Ég myndi mæla ótrúlega mikið með að lesa bókina frekar á ensku ef fólk hefur tök á, og sleppa því kannski að lesa hana ef maður er lítill í sér eða hefur verið særður af kynþáttaníð.

Fyrir áhugasama mæli ég með heimildarmyndinni 13th á Netflix, þar sem leikstjórinn Ava DuVerney tekur saman stöðu svartra Bandaríkjamanna í dag, glæpavæðingu kynþáttar og hvernig óskapnaði fortíðarinnar er hvergi nærri lokið.

Lestu þetta næst

Aðferðir til að lifa af

Aðferðir til að lifa af

Gáfaða dýrið er fimmta bók Sæunnar Kjartansdóttur en bókin kom út núna á vormánuðum 2024. Sæunn er...

Verur sem þjást

Verur sem þjást

Dani er venjuleg kona. Hún er komin níu mánuði á leið með dóttur sína Lotte, hún var að flytja...

Aldingarðurinn okkar

Aldingarðurinn okkar

Aldingarðurinn okkar Eden í Tjarnarbíó.  Í Tjarnarbíó hefur salnum verið breytt í náið rými....

Falskur léttleiki

Falskur léttleiki

Eyja er ung kona sem vinnur á fréttamiðli. Hún hefur verið í sambandi síðustu átta árin og býr...

Refarím og kanínukvæði

Refarím og kanínukvæði

Barnabækurnar Sokkarnir hans Rebba og Kanínan vill kúra eru nýlega komnar út í íslenskri þýðingu. Um er að ræða harðspjalda bækur með flipamyndum eftir breska höfundinn Julia Donaldson og hinn þýska myndhöfund Axel Scheffler.