Sú hefð hefur skapast á mínu heimili að enda daginn alltaf á að lesa. Kvöldlestur er hluti af svefnrútínu okkar hjónanna með tæplega tveggja ára syni okkar og mig langar að fara yfir bækurnar sem hafa verið í uppáhaldi undanfarið. Múmínálfabækurnar eiga þar stóran sess.

Hér er listi yfir uppáhalds bækurnar okkar þessar stundina:

Góða nótt, Múmínsnáði

Þetta er hugljúf saga sem er tilvalin til kvöldlesturs með krílum. Múmínsnáðinn á í vandræðum með að sofna og reynir allskonar brögð til að komast inn í Draumalandið en ekkert gengur. Snorkstelpan aðstoðar hann við að finna Góða-nótt-stjörnuna og hann sofnar vært út frá mildu skini hennar.

Í Múmínsnáði úti í náttúrunni

Í þessari harðspjalda bók langar Múmínsnáðanum að leika við besta vin sinn Snúð en finnur hann hvergi. Á endanum kemur Snúður þó í leitirnar. Þetta er toga-og-leita bók sem hefur slegið í gegn hjá okkur.

Fliparinir eru harðir og henta því vel ógætnum og óþroskuðum fingrum.

 

Ég njósna með Múmínsnáðanum

Í bókinni njósnar Múmínsnáðinn um vini sína og fjölskyldu í þeirra daglegu störfum og margt furðulegt kemur í ljós. Á hverri blaðsíðu getur barnið snúið hjóli og alls kyns mismunandi myndir koma í ljós. Þetta er góð æfing fyrir fínhreyfingarnar og guttinn minn hrópar spenntur upp orðin þegar nýjar myndir birtast (ef hann þekkir þau).

 Múmínálfarnir Stóra flipa-bókin

Þessi hitti beint í mark! Hér eru múmínálfarnir í daglegum athöfnum bæði inni og úti. Mikil gleði fylgir jafnan flipaflettingum hjá syninum. Þetta er dásamlega bók og hún er svolítið spari á mínu heimili – geymd hátt uppi á hillu þar sem sonurinn nær ekki í hana því ég vil helst ekki að fliparnir rifni í óhaminni eftirvæntingu. 

Dásamleg afþreying 

Múmínálfabækurnar hafa eitthvert óútskýrt aðdráttarafl. Þetta eru bækur sem ég hef leitað í aftur og aftur í og hef gert síðan ég var barn. Það gleður mig því óheyrilega að lesa þessar einfölduðu útgáfur með syni mínum og sjá að persónurn og töfrar múmíndals hafa hafa sömu áhrif á hann. Myndirnar eru fallegar, litirnir eru ljúfir og skrautlegar persónurnar soga mann inn söguna. Allir eru velkomnir í hús múmínálfanna og við lesturinn stend ég mig af og til að því að vilja leggjast í grasið við hliðina á Snúð eða koma mér fyrir með kaffibolla í eldhúsinu hennar Múmínmömmu. Mikið væri það nú gott.

Allt eru þetta eru vandaðar og eigulegar bækur. Þær eru harðspjalda og því tilvaldar til lesturs fyrir yngstu krílin. Það er svo mikilvægt að bækurnar heilli líka foreldra eða að þeir geti að minnsta kosti haft gaman af þeim. Því þetta eru bækur sem verða lesnar oftar en einu sinni, oftar en hundrað sinnum, allavega á þessu heimili. Textinn er algjört aukaatriði enda segja myndirnar sína eigin sögu.

Lestu þetta næst

Sögur til næsta bæjar

Sögur til næsta bæjar

Sagnagerð er lúmsk kúnst sem þarf að rækta. Í janúar kom saman hópur af upprennandi höfundum í...