Verity Colleen Hoover

Nú í mars mánuði kom út hjá bókaútgáfunni Björt bókin Verity eftir Colleen Hoover í íslenskri þýðingu Birgittu Hassell og Mörtu Magnadóttur. Þetta er önnur bókin eftir þennan höfund kemur út á íslensku en bókin Þessu lýkur hér kom út á síðasta ári hjá sömu bókaútgáfu. Það er kannski ekkert skrítið því Colleen Hoover er gríðarlega vinsæll rithöfundur. Bækur hennar hafa trónað á toppum metsölulista víða um heim og má nefna að Verity hefur nú selst í yfir þrem milljónum eintaka. Sjálf hafði ég lesið Þessu lýkur hér enda var sú bók út um allt á Bookstagram (Instagram) og Booktok (TikTok) og mikill er máttur áhrifavalda á samfélagsmiðlum. Mér þótti sú bók þó góð, hún stóðst væntingar að mestu og því mátti ég til með að lesa Verity og greip tækifærið þegar ég sá að hún var komin út í íslenskri þýðingu. 

Krassandi óbirt sjálfsævisaga

Sagan fjallar um rithöfundinn Lowen Asleigh sem stendur ekki vel fjárhagslega en eygir lausn á sínum vandamálum þegar henni býðst tækifæri sem er of gott til að hafna. Verity Crawford er vinsæll rithöfundur sem hefur skrifað bókaflokk sem hefur trónað á toppum metsölulista. Hún er hinsvegar orðin rúmföst og nær ekki að ljúka sjálf við síðustu bækurnar í téðum bókaflokki svo eiginmaður hennar, Jeremy Crawford, gerir Lowen tilboð um að hún klári að skrifa síðustu bækurnar.
Lowen flyst á heimili Crawford fjölskyldunnar þar sem hún getur unnið í gögnum Verity til þess að kynnast henni sem höfundi og þeim hugmyndum sem hún mögulega hafði fyrir síðustu bækurnar. Þar finnur hún handrit að hálfkláraðri sjálfsævisögu Verity, handrit sem Verity ætlaðist sjálfsagt ekki til að aðrir fyndu. Í handritinu er að finna upplýsingar um hvað nákvæmlega gerðist þegar dóttir hennar lést, upplýsingar sem fá hárin til að rísa.

Grípandi tilfinningarússíbani

Það sem einkennir bókina út í gegn er tvennt að mínu mati. Maður festist við lesturinn frá fyrstu blaðsíðu því það er óhætt að segja að hún byrji kröftuglega og síðan fer maður allan tilfinningaskalann við lesturinn. Gjörðir sumra persónanna fá mann til að fyllast vantrú og viðbjóði til skiptis og stundum var þörf á að stöðva lesturinn einfaldlega vegna hneykslunar. Svona móment sem maður lítur upp úr bókinni og er eitt spurningamerki. Hvernig getur einhver gert öðrum svona hluti og hvernig er hægt að vera svona samviskulaus? Á næstu blaðsíðu fyllist maður síðan samúð með sömu sögupersónum. Söguþráðurinn er þó ekki eingöngu algjör spenna og sorg út í gegn, það er líka ástarsaga þarna og erótík. Það eru því engar ýkjur að maður fari allan tilfinningaskalann.

Þrátt fyrir þessa spennu og hversu grípandi bókin er þá hefur hún vissulega sína galla. Það eru atriði í söguþræðinum sem gætu  ekki gengið upp ef maður mátar þau við raunveruleikann. Viðbrögð einstaka persóna eru á þann hátt að manni gæti fundist þau ótrúverðug, maður myndi kannski bregðast við á annan hátt. Hafa ber þó í huga að þetta er spennusaga, bókin er hreinræktuð afþreyingarbók og stendur vel undir því nafni.

Vinsældir Colleen Hoover hafa verið gagnrýndar af bókaunnendum á þann hátt að bækur hennar séu að fá óverðskuldaða athygli því þær séu ekkert það frábærar. Söguþræðir oft hæpnir og jafnvel umdeildir. Að hún skrifi um málefni sem hún hafi kannski ekki nógu mikla þekkingu á eða kynni sér ekki til hlýtar. Ég tel það þó ómaklega gagnrýni. Colleen skrifar bækur sem eru afþreying, bækur sem hneyksla og hafa áhrif á lesandann. Það er uppskrift sem virkar og sannast í vinsældum hennar.

Raunveruleikaflótti? Já takk.

Lesendur vilja stundum bara bækur sem hreyfa við þeim, sitja kannski eftir í þeim og fara með lesandann burt frá sínu eigin raunveruleika. Bækur sem krefjast þess ekki að þeir séu með bókmenntalegar kenningar að baki. Verity er klárlega þess háttar bók. Hún rífur þig burt úr sófanum, inn í huga og heim sögupersóna sem virðast annað hvort vera algjörlega og gjörsamlega siðlausar eða fórnarlömb. Maður veit ekki hvort er og getur þar af leiðandi ekki hætt að lesa fyrr en maður hefur tætt bókina í sig.
Colleen Hoover má skrifa fleiri bækur mín vegna, helst sem flestar og ég þigg allar íslenskar þýðingar á þeim takk.

Lestu þetta næst

Út í geim

Út í geim

Ég er stjörnufræðinörd og hef horft á fleiri heimildarmyndir um fjarlægar plánetur á...

Sumarleg og fjörug sandkaka

Sumarleg og fjörug sandkaka

Nýlega kom út Mamma Sandkaka, lífleg og fallega myndlýst barnabók eftir Lóu Hlín Hjálmtýsdóttur....

Flugur á sad beige vegg

Flugur á sad beige vegg

Við erum stödd á fyrstu frumsýningunni á stóra sviðinu á leikárinu. Það er verið að fara sýna...