Brynhildur Þórarinsdóttir er hvað þekktust fyrir endursagnir sínar á Íslendingasögunum fyrir börn en hún hefur átt mjög afkastamikinn feril hingað til og unnið til margra verðlauna, þar á meðal Norrænu barnabókaverðlaunin árið 2007. Sjálf man ég eftir að hafa fallið fyrir bókinni Leyndarmál ljónsins (2004) þegar ég var tólf ára og sjálf á leiðinni á Reyki. En að hennar nýjasta verki. 

Smáralindar-móra myndi ég lýsa sem stuttri og grípandi hrollvekju fyrir unglinga og yngri börn sem þora. Ekki er auðvelt að lýsa söguþræðinum en aðalpersónurnar eru nokkrar og fléttast sögur þeirra saman á óvæntan hátt í gegnum bókina. Hver einasti kafli gerist 10. október á ári hverju frá opnun vinsæla verslunarkjarnans Smáralindar. Þá ganga aftur draugar unglinga sem hafa horfið með einkar dularfullum hætti í Smáralindinni og valda allskyns óskunda.

Nostalgía í bland við óhugnað

Nú geng ég auðvitað að bókinni sem eldri lesandi, ný komin á fertugsaldurinn og þótti því einstaklega gaman af allri nostalgíunni. Pálmatrén sem skreyttu alla ganga, Smáratívolí, og allar búðirnar sem hafa komið og farið, til dæmis TopShop og BT (gula músin!). En það er auðvitað ekki aðalatriðið, þó að ég hafi orðið einstaklega ánægð með heimildarvinnuna sem Brynhildur greinilega lagði í bókina.

Aðalatriðið er draugasagan. Ungur drengur, Flóki, hverfur sporlaust þegar hann og vinur hans brjótast inn á vinnusvæði Smáralindar akkúrrat ári fyrir opnun. Næsta ár hverfur annar unglingur, ung stúlka að nafni Lotta sem fór á opnun Smáralindar með vinkonum sínum. Hún heillast af dreng í mórauðri úlpu sem virðist hundsa hana sama hvað hún reynir. Hún veitir honum eftirför og yfirgefur vinkonur sínar sem sjá hana svo aldrei aftur. 

Óvissuferð í hverjum kafla

Hver kafli hefur eitthvað nýtt upp á að bjóða. Lesandinn veit ekki hver er sögumaður hvers kafla og þarf stundum augnablik til að átta sig og staðsetja sig í nýja kaflanum. Árin líða, og með því breytist Smáralind, en höfundur nýtir bíómyndir og tónlist til að staðsetja lesandann í tíma. Það fannst mér skemmtilega gert, en ég hugsaði stundum hvort að hröð skiptin á milli kafla og flakkið á sjónarhorninu gæti orðið ruglingslegt fyrir suma lesendur. Mér fannst þó frábært hvernig formið var reglulega brotið upp, sumir kaflar voru skáletraðir, sumir voru fréttatilkynningar, viðtöl og jafnvel blaðagreinar í bland við hefðbundnari kafla. 

Síðan má alls ekki gleyma myndunum eftir Elías Rúna sem prýða síðurnar af og til í bókinni. Þær styðja við textann og þær sem voru myrkar og dimmar vörpuðu skuggalegu andrúmslofti yfir lesturinn. Aðrar myndir voru einfaldari og einhvernveginn bjartari en brutu þá þægilega upp á lesturinn og lesandinn gat virt fyrir sér kunnugleg kennileiti Smáralindarinnar. 

Smárlindar-móri er stutt, grípandi og hrollvekjandi bók sem mun slá í gegn hjá yngstu unglingunum okkar. Formið veldur því að lesendur verða snöggir með hana og þannig helst spennan í gegnum alla bókina. Ef ég hefði mátt ráða þá hefði hryllingurinn verið örlítið meiri, ég var alveg tilbúin í meiri óhugnað og draugalæti, en þetta er mögulega passlegt fyrir þennan ákveðna aldurshóp. Smáralindin sem sögusvið fannst mér alveg brilliant hugmynd og skemmti ég mér mjög vel að sökkva ofan í kapítalísku nostalgíuna

Lestu þetta næst

Aðferðir til að lifa af

Aðferðir til að lifa af

Gáfaða dýrið er fimmta bók Sæunnar Kjartansdóttur en bókin kom út núna á vormánuðum 2024. Sæunn er...

Verur sem þjást

Verur sem þjást

Dani er venjuleg kona. Hún er komin níu mánuði á leið með dóttur sína Lotte, hún var að flytja...

Aldingarðurinn okkar

Aldingarðurinn okkar

Aldingarðurinn okkar Eden í Tjarnarbíó.  Í Tjarnarbíó hefur salnum verið breytt í náið rými....

Falskur léttleiki

Falskur léttleiki

Eyja er ung kona sem vinnur á fréttamiðli. Hún hefur verið í sambandi síðustu átta árin og býr...

Refarím og kanínukvæði

Refarím og kanínukvæði

Barnabækurnar Sokkarnir hans Rebba og Kanínan vill kúra eru nýlega komnar út í íslenskri þýðingu. Um er að ræða harðspjalda bækur með flipamyndum eftir breska höfundinn Julia Donaldson og hinn þýska myndhöfund Axel Scheffler.