Stuttar bækur fyrir vetrarlestur

Það eru einungis átta vikur eftir af þessu ári. Mörg okkar eru kannski í afneitun yfir þessari staðreynd. Sérstaklega þau sem eiga fjölda verkefna á endalausum lista og allt þarf að klára fyrir áramót! Eitt verkefni á listanum okkar er að ná lestrarmarkmiði ársins. Fleiri og fleiri opna GoodReads appið í byrjun árs og setja sér háleit (eða bara raunsæ) markmið um fjölda bóka sem lesa skal næstu 52 vikurnar. Og nú í upphafi viku 45 (eins og Danir kalla hana) reka sig eflaust mörg á það að mun fleiri bækur eru eftir á leslistanum en planið var á þessum árstíma.

Örvæntið ekki!

Við hjá Lestrarklefanum höfum fulla trú á okkar lesendum og höfum tekið saman leslista með stuttum en frábærum bókum sem hægt er að gæða sér á nú í skammdeginu og (vonandi) ná sínum lestrarmarkmiðum fyrir árið. Fyrir ykkur sem eruð frekar að hugsa um að gefast upp á GoodReads markmiði ykkar, segjum við þetta, þið fáið annan pistil með hugleiðingum um það þegar nær dregur jólum!

Stuttar bækur Sæunnar

Slaughterhouse Five klassík eftir Kurt Vonnegut  er þekkt sem verk sem andmælir stríði, söguhetjan er Billy Pilgrim, sem líkt og Vonnegut sjálfur, berst ungur í seinni heimsstyrjöld og endar sem stríðsfangi í Dresden. Þar upplifir hann það að lifa af sprengjuárásina á borgina þar sem að um 135 þúsund manns týndu lífi. Vonnegut burðaðist í áratugi með reynslu sína af stríðinu og ætlaði alltaf að koma henni á blað, en það tók hann um 25 ár. Stutt og auðlesanleg en skilur mikið eftir sig, sprenghlægileg á köflum!
80 blaðsíðna bókin Smámunir sem þessir eftir Claire Keegan má lesa í einni setu en Lilja fjallaði um bókina hjá okkur. Líkt og Lilja segir er bókin um kolakaupmanninn Bill Furlong sem býr í litlum bæ á Írlandi ásamt konu og fimm börnum. Við bæinn er klaustur, rekið af nunnum Góða hirðisins. Stúlkur eru sendar þangað í betrunarvist og endurhæfingu. Ekki er þó allt sem sýnist í þeim efnum og mögulega er endurhæfingin fólgin í að láta þær þræla myrkranna á milli í þvottahúsi nunnanna.
Ég má til með að mæla með nýjust bókinni sem ég fékk í gegnum lúguna frá Angústúru, Heaven eftir japanska höfundinn Mieko Kawakami. Bókin er sögð frá sjónarhorni fjórtán ára nafnlauss drengs árið 1991. Hann hefur þolað grimmilegt einelti en dag einn hefst vinátta í gegnum óvænt bréf frá bekkjarsystur hans sem sjálf hefur þolað einelti bekkjarfélaga þeirra á sama tíma. Innihald bókarinnar er erfitt þó hún sé afar grípandi, eineltið er svo ljótt og ég fann svo ótrúlega mikið til með söguhetjunni. Bókin er því kannski ekki fyrir viðkvæmustu lesendur.

Stuttar bækur Rebekku Sifjar

Fyrsta stutta bókin sem ég mæli með er alveg einstaklega stutt! Ég get ekki hætt að hugsa um Rithöfundasamband Íslands eftir Daníel Daníelsson er ljóðabók og skrifblokk, en á flestum síðum bókarinnar má finna aðeins eitt orð. Þannig að þrátt fyrir að bókin sé tæknilega séð 142 síður tekur lesturinn örfárar mínútur. Verkið fjallar um þráhyggju ungskálds, ekki skal meira sagt um það en eftir lesturinn getur lesandinn svo nýtt bókina til að rita niður minnislista, hugmyndir eða jú fleiri þráhyggjukenndar hugsanir. 
Þvílíkur gullmoli sem þessi bók er! Sólrún eftir Sigurlín Bjarneyju Gísladóttur fór framhjá mér þegar hún kom út en svo kveikti ég á henni á Storytel í haust í þessum dásemdar lestri Kristbjargar Kjeld og hámhlustaði. Höfundur hefur frábært vald á tungumálinu, ljóðrænar línur blandast við léttleikann og alvarleikann, líf og dauða. Það sem ég var glöð að hafa rekist á þessa bók því mér finnst hún ekki mega fara framhjá neinum!
Þessa hlustaði ég einnig á en mitt besta ráð til að halda við lestrarmarkmið er að hlusta líka á bækur! Tove þarf nú vart að kynna en þetta er nú samt fyrsta bókin sem ég les eftir hana, sjálfsævisöguna Gift í nýrri þýðingu Þórdísar Gísladóttur. Ég gat vart hætt að hlusta. Það var eitthvað töfrandi við beinskeyttan tón Tove sem þurfti að ganga í gegnum þvílíka erfiðleika í sínu lífi sem skáldkona og móðir. Mæli hiklaust með.

 

Stuttar bækur Katrínar Lilju

Smásögur eru æðislegar. Hver saga er þægilegur biti fyrir einn kvöldlestur og þú ættir fljótlega að ná að klára takmörk þín með góðu smásagnasafni. Svefngríman eftir Örvar Smárason er eitt af þessum góðu söfnum. Mæli með.
Ljóðabækur eru mjög vanmetnar hjá hinum almennu lesendum. Skáldsögur eru nefnilega ekki allt og það má auðveldlega fá eina eða tvær ljóðabækur lánaðar á bóksafninu. Ljóðabækur eru fljótlesnar en skilja ótrúlega mikið eftir sig. Ég mæli sérstaklega með Innræti eftir Arndísi Þórarinsdóttur.
Þegar líður að jólum er algjörlega nauðsynlegt að hlusta á eða lesa Aðventu eftir Gunnar Gunnarsson. Best er auðvitað að njóta sögunnar á aðventunni. Sagan er stutt en skilur mikið eftir sig. Hafir þú ekki lesið hana, þá tekur það í mesta lagi tvo tíma að fara í gegnum hana. Hafirðu lesið hana, þá skaltu bara lesa hana aftur!

 

Stuttar bækur Sjafnar Asare

Red at the bone
Sour Candy
The yellow wallpaper
Melody er sextán ára og horfir yfir stutta en viðburðaríka ævi sína í þessari ljóðrænu og seiðandi skáldsögu. Foreldrar Melody eignuðust hana ungir og mömmu hennar langaði ekki í barn heldur þráði meira og stærra líf en það sem bauðst sem ung móðir með fyrsta kærastanum sínum. Ferðalag Melody að sjálfri sér, samband hennar við föður sínar og formæður og átakanleg og falleg saga móður sem er sjálf bara barn vefur saman dásamlegan söguðþráð sem maður gleypir í sig á einum degi.
Þeir virðast ósköp venjulegir feðgar, Phil og Adam. Phik er kannski örlítið þreytulegur og Adam svolítið óþekkur, en er það ekki ósköp eðlilegt fyrir einstæðan föður og ungan son hans? Eini vandinn er að annar þeirra er fangi hins og ekkert við samband þeirra er það sem það virðist í fyrstu. Örstutt hryllingssaga sem er frumleg og skemmtileg og sérlega gott að lesa á dimmu vetrarkvöldi með tebolla og hlauporma.
Gula veggfóðrið er, þrátt fyrir sakleysislegt nafnið, oft talin ein besta, og jafnvel með fyrstu, sálfræðihryllingssögunum. Ónefnd söguhetja er fangi í herbergi með gulu veggfóðri, er fjarri nýfæddu barni sínu og getur verið að veggirnir séu að hreyfast? Áleitin saga um heilsu og stöðu kvenna á ritunartíma hennar, 1890. Seinni sagan í þessu tveggja nóvellu safni er Herland frá 1915 og fjallar sagan um ættbálk kvenna sem hafa búið einar í skóginum án karlmanna til þessa. Örstuttar og laggóðar femínískar sögur fyrir svefninn.

Lestu þetta næst

Eins konar dans

Eins konar dans

Moldin heit er önnur skáldsaga Birgittu Bjargar Guðmarsdóttur en fyrir hana hlaut hún...

Þörf bók um missi

Þörf bók um missi

Núna á dögunum kom út íslensk þýðing á barnabók eftir John Dougherty og Thomas Docherty...