Það eru einungis átta vikur eftir af þessu ári. Mörg okkar eru kannski í afneitun yfir þessari staðreynd. Sérstaklega þau sem eiga fjölda verkefna á endalausum lista og allt þarf að klára fyrir áramót! Eitt verkefni á listanum okkar er að ná lestrarmarkmiði ársins. Fleiri og fleiri opna GoodReads appið í byrjun árs og setja sér háleit (eða bara raunsæ) markmið um fjölda bóka sem lesa skal næstu 52 vikurnar. Og nú í upphafi viku 45 (eins og Danir kalla hana) reka sig eflaust mörg á það að mun fleiri bækur eru eftir á leslistanum en planið var á þessum árstíma.
Örvæntið ekki!
Við hjá Lestrarklefanum höfum fulla trú á okkar lesendum og höfum tekið saman leslista með stuttum en frábærum bókum sem hægt er að gæða sér á nú í skammdeginu og (vonandi) ná sínum lestrarmarkmiðum fyrir árið. Fyrir ykkur sem eruð frekar að hugsa um að gefast upp á GoodReads markmiði ykkar, segjum við þetta, þið fáið annan pistil með hugleiðingum um það þegar nær dregur jólum!