Seinni heimsstyrjöldin alveg jafn absúrd og hangs með geimverum

Slaughterhouse Five  eftir Kurt Vonnegut þarf vart að kynna. Bókin er á lista Modern Library yfir 100 bestu skáldsögur 20. aldarinnar og er þekkt sem amerísk klassík, en er að sjálfsögð sígild um allan heim. Þetta er ein af þessum bókum sem er mjög gott að lesa í námi þar sem að þrátt fyrir að vera aðgengileg (bókin er á frekar einföldu máli og einungis 180 síður) er mjög gott að setja hana í samhengi og túlka hana betur þannig.

Ég tók rólyndis sunnudag um daginn og langaði að lesa klassíska bók. Ég les mikið af samtímasögum enda eru þær oftast auglýstar beint fyrir framan augun á manni en minna er um að haldið sé að manni klassíkinni utan hefðbundins bókmenntanáms. Slaughterhouse Five varð fyrir valinu og ég ákvað að tékka hvenær ég skráði hana sem Want to Read á Goodreads. Það reyndist vera árið 2011 og fyrir þá sem eru ekki fljótir í hugarreikningi eru tólf ár síðan. TÓLF ár síðan mér datt í hug að lesa 180 blaðsíðna bók og ég hafði ekki enn framkvæmt það. 

 Ég skil vel að Karamazov bræður eða Stríð og Friður sem hlaupa á 1000 síðum eru enn á Want to Read listanum á Goodreads en skammast mín eiginlega að hafa ekki gripið í Slaughterhouse Five fyrr. Það tók nú eiginlega bara þennan sunnudag að lesa hana (síðustu prósentuna á Kindle las ég eftir vinnu á mánudag) og því er þessi pistill kannski ákall til þeirra sem ekki hafa lesið þessa bók – þið eigið öll sunnudaga í vikunni ykkar og því enga afsökun!

Bókin er þekkt sem verk sem andmælir stríði, söguhetjan er Billy Pilgrim, sem líkt og Vonnegut sjálfur, berst ungur í seinni heimsstyrjöld og endar sem stríðsfangi í Dresden. Þar upplifir hann það að lifa af sprengjuárásina á borgina þar sem að um 135 þúsund manns týndu lífi. Vonnegut burðaðist í áratugi með reynslu sína af stríðinu og ætlaði alltaf að koma henni á blað, en það tók hann um 25 ár. En nú kemur aftur af mikilvægi samhengis, hvað var að gerast árið 1969? Jú, Bandaríkin voru að berjast í öðru stríði, Víetnamstríðinu. Því kom verkið út á afar mikilvægum sögulegum tíma til að benda á hrylling stríðs.

Af geimverum og sláturhúsum

Það er eiginlega erfitt að lýsa söguþræðinum. Bókin byrjar og endar á sjónarhorni sögumannsins um það hvernig bókin varð til þar sem hann segir að hlutirnir hafi að mestu leyti átt sér stað. Ég túlkaði þetta sem rödd Vonnegut en það eru eflaust margar túlkanir á þessu. Síðan færist sagan í átt að lífi Billy Pilgrim, en lesandinn fylgist með lífi Billy Pilgrim nánast frá vöggu til grafar (þó lítið komi fram um æsku hans). Hann telur að hann sé tímaflakkari og að hann hafi verið til sýnis í dýragarði á plánetunni Tralfamadore. Þar kynnist hann meðal annars íbúum plánetunnar, geimverum sem trúa þeirri speki að fólk deyi aldrei raunverulega. Sú upplifun sem hefur haft mest áhrif á líf Billy Pilgrims er dvölin í sláturhúsinu í Dresden sem stríðsfangi og að lifa af árásina á borgina. Hann telur að hann sé alltaf að flakka í tíma, en kannski er hann einfaldlega rétt eins og meirihluti fyrrum hermanna með áfallastreituröskun og þar af leiðandi leitar hugurinn stöðugt til baka. Mín upplifun af lestrinum var sú að það sem Billy Pilgrim (og raunar Vonnegut) upplifði í seinni heimsstyrjöld var alveg jafn absúrd og ferðalög hans til plánetunnar Tralfamadore.

Mig langaði að skilja Slaughterhouse Five og las mér til um bókina og rambaði svo á fróðleg myndbönd frá rithöfundinum John Green um hana. Í einu þeirra kemur fram að ekki var búið að finna upp orðið áfallastreituröskun en það sé ljóst að Billy Pilgrim þjáist af henni og hann ver meðal annars tíma á geðsjúkrahúsi í bókinni. Green bendir líka á að á plánetunni Tralfamadore svipar ýmislegt í tilveru Pilgrims til tilveru hans í Þýskalandi og gæti því plánetan verið hans staður til að vinna úr ýmsu sem gerðist í stríðinu.

Skemmtilegur lestur

Nú er það kannski farið að hljóma eins og um algjörlega absúrd, þunga og hálf undarlega bók sé að ræða. Því er mikilvægt að taka fram að það þrátt fyrir það allt er samt gaman að lesa hana. Vonnegut tekst að nota ýmsa frasa eins og til dæmis “So it goes” í hvert sinn sem einhver deyr til að undirstrika húmor og satíru. Bókin er líka áhugaverð þar sem að á yfirborðinu hefur Billy Pilgrim lifað afskaplega vel heppnuðu lífi, hann barðist í stríðinu og lifði af, giftist, átti tvö börn og varð augnlæknir sem hafði það gott fjárhagslega. Upplifanir hans í stríðinu og samviskubit yfir að hafa lifað af spreningarnar í Dresden fylgja honum engu að síður út lífið og það mætti færa rök fyrir því að þessar upplifanir komi í veg fyrir að hann njóti lífsins. Draumalífið hans er á plánetunni Tralfamadore, ekki plánetunni Jörð. Vonnegut barðist sjálfur við þetta samviskubit og svo bættist eitt annað ofan á þegar hann skrifaði þessa metsölubók – hann „hagnaðist“ af stríðsreynslu sinni og hvað í ósköpunum átti hann að gera með það?

Að lesa klassík snýst ekki um að textinn eða atburðarásin komi á óvart. Lestrarupplifunin snýst miklu meira um að uppgötva hvers vegna eitthvað er tímalaust, hvað eigi enn við í dag og njóta textans í nýjum heimi. Vonnegut gerir svo sannarlega ekki lítið úr stríðsreynslu sinni með húmor, heldur er það einmitt með hann að vopni og hvernig hann beitir tungumálinu að hann nær að miðla á svona sterkan og eftirminnilegan hátt hve skelfilegt stríð eru.

Lestu þetta næst

Glöggt er gests augað

Glöggt er gests augað

Fyrir nokkrum árum komst ég að því að finnsk kona að nafni Satu Rämö, sem búsett væri á Ísafirði,...

Jarðsyngdu mig

Jarðsyngdu mig

Ég fékk ljósbláa bók að gjöf. Framan á kápu stendur aðeins titill verksins með smáu, hvítu letri....

Fangelsi hugans

Fangelsi hugans

Hvað ef þú værir geimvera? Og geimskipið þitt hefði skilið þig eftir á jörðinni, í venjulegri,...

Anniemenni

Anniemenni

Anniemenni (e. Annie bot) eftir Sierra Greer  Annie er vélmenni. Hún er með hleðslustöð í hælnum,...

Með iðrun úti

Með iðrun úti

Þrjár stúlkur á sautjánda ári pyntuðu skólasystur sína og kveiktu í henni í rólega breska...