Árið 1978 skáldaði höfundurinn, Eric Hill, upp sögu um lítinn hvolp til að lesa fyrir son sinn fyrir svefninn. Þannig varð Depill til. Þegar ég las mér til um höfundinn komst ég að því að hann var frumkvöðull í gerð flipabóka, þar flipum er lyft til að afhjúpa eitthvað nýtt og skemmtilegt á síðunni. Þetta vissi ég ekki! Það má segja að flipabækur hafi verið ákveðin bylting á barnabókamarkaði enda slógu þær rækilega í gegn hjá lesendum. Ég meina, auðvitað! Það er svo spennandi að vita hvað leynist undir næsta flipa. Sonur minn er allavega alveg dolfallinn. Þótt hann viti nákvæmlega hvað er undir flipanum virðist honum alltaf þykja þetta jafnskemmtilegt.

Síðan fyrsta bókin um Depil kom út árið 1980 hafa sögurnar um hann notið gífurlegra vinsælda um allan heim. Þær hafa verið þýddar á yfir sextíu tungumál og selst í yfir sextíu milljón eintökum. Í öllum bókunum er gegnum gangandi þema að litli hvolpurinn týnist og einhver, oftast mamma eða pabbi, eru að leita að honum. Stundum finnst mér bækurnar eilítið gamaldags þegar kemur að kynjahlutverkum en það er nú kannski viðbúið þar sem þær voru skrifaðar á síðustu áratugum síðustu aldar.

Hér eru uppáhalds Depils bækurnar okkar

Depill í leikskólanum

Þetta var fyrsta Depils bókin sem við mæðginin lásum og það var akkúrat rétt áður en hann átti sjálfur að byrja í leikskóla. Ég reyndi að nota bókina sem kynningu um hvað koma skyldi. Ég veit nú ekki hversu vel það gekk, en ég tók ég eftir því að hann fékk meira dálæti á henni honum þegar hann var sjálfur byrjaður á leikskóla og þekkti til þess sem var að gerast á myndunum.

Depill á jólunum

Þessi er klárlega með fallegustu kápuna. Hún er hún græn og glansandi! Þetta er líka fyrsta jólabókin sem við höfum lesið. Depill og fjölskylda eru að fara halda jólaboð og þá þarf að vera búið að skreyta jólatréð. Það sem vakti athygli mína við þessa bók er að mamman skreytir tréð með Depli á meðan pabbinn er inni í eldhúsi að baka.

Depill úti í rigningu

Depill og pabbi hans fara í göngutúr í rigningunni og hoppa í pollum. Það er notalegt yfirbragð yfir þessari bók og ég held að krakkar, sem elska rigninguna, eigi eftir að hafa gaman að fjörinu í henni.

Depill heimsækir afa og ömmu 

Þessi er reyndar uppseld hjá útgefanda eins og er en er ein af okkar uppáhalds. Depill fer í heimsókn til ömmu og afa og hjálpar afa í garðinum. Skemmtilegasta opnan er þegar þeir eru að kasta bolta á milli. Boltinn endar á því að brjóta rúðuna í garðskúrnum. Þetta finnst synin mínum bæði æðislegt og hræðileg en hann bíður alltaf eftir þessu atriði.

Mikið öryggi

Eric Hill er einnig myndhöfundur bókanna og teikningarnar eru sígildar. Maður veit alveg að hverju maður gengur í bókunum um Depil. Þær eru fullar af öryggi og lítið breytt út af vananum í uppbyggingu þeirra. Bækurnar eru allar harðspjalda sem gerir litlum fingum auðveldara fyrir að fletta þeim og þær þola svolítið álag.

Þar sem sonur minn er myrkfælinn og vill helst ekki lesa bækur þar sem koma fyrir draugar, tröll, skrímsli eða köngulær (það kemur á óvart í hversu mörgum bókum fyrir yngstu lesendur þessar verur leynast) er svo gott að geta gripið í ljúfar bækur þar sem það versta sem getur gerst er brotin rúða. Ég mæli með bókunum enda hafa þær alveg sigrað hjarta sonar míns.

Lestu þetta næst

Eins konar dans

Eins konar dans

Moldin heit er önnur skáldsaga Birgittu Bjargar Guðmarsdóttur en fyrir hana hlaut hún...

Þörf bók um missi

Þörf bók um missi

Núna á dögunum kom út íslensk þýðing á barnabók eftir John Dougherty og Thomas Docherty...