Bókaklúbburinn Grísir var stofnaður í ársbyrjun 2021. Forsaga klúbbsins er sú að Sunna Kristín og Stefán Óli höfðu bæði nýlokið við að lesa Fjarvera þín er myrkur eftir Jón Kalman Stefánsson og fóru að spjalla um hana á Instagram eftir að Sunna Kristín setti í story að hún hefði hágrátið yfir henni. Þeim fannst þau ekki ná að ræða þetta almennilega svona yfir internetið og ákváðu því að stofna bókaklúbb. Það má því segja að Jón Kalman sé guðfaðir klúbbsins en klúbburinn hefur samt aldrei lesið neina bók eftir hann!
Slúðrið frábært hjá klúbbnum!
Meðlimir klúbbsins eru kollegar af fréttastofu Stöðvar 2, Vísis og Bylgjunnar. Það er svona 50/50 fólk sem er enn að vinna á fréttastofunni og fólk sem er hætt. Bókaklúbburinn heitir Grísir því það rímar jú við Vísir og svo eru meðlimirnir hvorki lestrarhestar né bókaormar heldur bókagrísir.
Að sögn Sunnu er það frábæra við klúbbinn slúðrið! Og svo auðvitað bara að halda áfram að hittast þótt þau séu ekki öll lengur að vinna saman. Þetta er frábær leið til þess að halda sambandi við gömlu vinnufélagana í amstri dagsins. Það er ekkert ákveðið þema þannig séð en þau hafa mest lesið skáldsögur hingað til. Meðlimir hópsins eru samkvæmt Sunnu alls ekki alltaf sammála um ágæti bókanna.
The Seven Husbands of Evelyn Hugo eftir Taylor Jenkins-Reid sló algjörlega í gegn hjá hópnum. Svo eru tvær aðrar sem hafa staðið upp úr en á aðeins annan hátt. Við lásum Málsvörn Jóns Ásgeirs Jóhannessonar en nenntum svo ekki að ræða hana og svo var fyrsta skáldsaga Hollywood-leikarans Tom Hanks sumarbók klúbbsins í ár. Aðeins tveir meðlimir klúbbsins komust í gegnum þá hræðilegu bók og verður hún lengi í minnum höfð fyrir að vera alveg ömurleg. Ekki gleyma mér eftir Kristínu Jóhannsdóttur klauf klúbbinn í herðar niður svo ekki sé meira sagt.
Hvaða bók er valin næst er svona mest ákveðin frá hittingi til hittings. Gjarnan eru greidd atkvæði um næstu bók á Facebook og öll leggja hugmyndir í púkkið. Á meðal bóka á hugmyndalistanum fyrir veturinn eru ævisaga Britney Spears og Saknaðarilmur eftir Elísabetu Jökulsdóttur. Svo er klúbburinn spenntur fyrir að fara saman í leikhúsið á verkið sem hjónin Unnur Ösp og Björn Thors eru að setja á svið en þau hafa áður lesið Aprílsólarkulda.
Bara mæta!
Ráð klúbbsins til annarra bókaklúbba er að taka sig ekki of hátíðlega og alls ekki sleppa því að mæta í klúbb þótt þú sért ekki búin/n/ð að lesa bókina. Bara mæta og hafa gaman!
Við þökkum Grísum kærlega fyrir að segja okkur frá klúbbnum sínum og óskum þeim góðs lesturs í vetur!
Mynd af hópnum: Fremst frá vinstri eru Kristín Ólafsdóttir, Sunna Sæmundsdóttir, Tótla Sæmundsdóttir, Stefán Óli Jónsson, Sunna Kristín Hilmarsdóttir og Hulda Hólmkelsdóttir. Á myndina vantar nokkra meðlimi klúbbsins.